miðvikudagur, apríl 08, 2009

Hvað skal gera fyrir fátæka stúdenta?

Háskóli Íslands getur að öllum líkindum ekki boðið uppá sumarannir. Slíkt myndi krefjast gríðarlegs undirbúnings því ekki geta allir kennarar búið til ný námskeið eða kennt sín föstu námskeið með svo stuttum fyrirvara. Sumir kennarar hafa eflaust lofað sér í aðra vinnu (t.a.m. sem leiðsögumenn), ætla að stunda rannsóknir eða hreinlega að taka sér frí — svona eins og annað fólk. Að ætla þeim sem vilja gjarna og geta unnið að taka að sér alla þá kennslu sem þyrfti að vera í boði svo önnin myndi ná því að vera full önn fyrir alla nemendur (LÍN gerir kröfur um nemendur skili lágmarkseiningum til þess að fá lán) er ekki raunhæft. Enda þótt kennarar við viðskiptadeild hafi boðið sig fram þá væri frekar fáránlegt að aðeins ein deild skólans byði upp á sumarnám, þá fyrst væri nú verið að mismuna stúdentum.

En auðvitað er hörmuleg tilhugsun að þúsundir háskólanema* hafi hvorki vinnu né fái atvinnuleysisbætur í heila þrjá mánuði. Þá eru bara tveir kostir (aðrir en að láta fólk svelta). Annar er að LÍN láni fólki áfram enda þó það skili engum einingum — hreinlega hafi nemendur á framfæri til þess að fólk svelti ekki — og hinn er að nemendur geti fengið atvinnuleysisbætur yfir sumarið enda þó það uppfylli ekki skilyrði um að hafa verið með laun eða nægilega mikil laun til að eiga rétt á bótum.

Lán frá LÍN hafa þann kost fyrir samfélagið að fólk þarf að endurgreiða þau (í siðuðum samfélögum eru nemendur á styrk til náms en hér verður fólk að taka lán sem það svo borgar sannarlega til baka en samt eru lánin svo lág að fæst geta framfleytt sér á þeim einum saman). Atvinnuleysisbætur þarf ekki að greiða til baka og eru, að mér skilst, hærri en lánin frá LÍN.

Þetta er auðvitað vond staða. Og kannski verður ekkert gert: engin lán og engar bætur. Það er þó hætt við að það hafi hvorki góð áhrif á sálarlíf stúdenta né efnahag landsins, því eigi ekkert af þessu fólki pening þá kaupa þau ekki neitt. Því færri sem kaupa því fleiri fyrirtæki sem loka sem aftur veldur meira atvinnuleysi. Og enn fleirum líður illa.

___
* Um helmingur 13.500 nemenda HÍ sjá ekki fram á að hafa vinnu í sumar.

Efnisorð: ,