laugardagur, apríl 11, 2009

Líkamar sem eru hataðir

Fjölmiðlar breiða út fordóma er titill á viðtali sem Fréttablaðið átti við Sigrúnu Daníelsdóttur, sálfræðing á Barna- og unglingageðdeild sem vinnur við að eyða fordómum um líkamsvöxt. Á hún þar aðallega við fordóma gegn fitu. Mjög þarft umræðuefni.

Það er athyglisvert að sálfræðingurinn sér mun á því hvernig hægri sinnað fólk og vinstri sinnað fólk lítur offitu. Hægri sinnað fólk tengir hana við skort á sjálfsaga en vinstri sinnar tengja hana við neysluhyggju. Líklega þekki ég bara hægri sinnað fólk því viðhorfið sem ég heyri oftast er á þá lund. Einhverntímann las ég á netinu að Bandaríkjamenn af lægri stéttum væru feitari en hinir því McDonalds væri á hverju horni og í stórmarkaðnum væri skyndibitamatur til upphitunar á lágu verði en hinsvegar væru ekki seldar heilsuvörur þar, þær væru seldar í sérstökum verslunum í dýrum hverfum eða ekki í alfaraleið. Semsagt þar sem ríka fólkið skrapp á jeppanum sínum. Þetta þótti engum merkilegt sem ég sagði frá þessu og fólk fór bara að tala um feita Ameríkana og gera grín að þeim. Þegar svo Íslendingar fóru að verða æ þyngri (og ekki var lengur hægt að hlæja að Ameríkönum) tók ég eftir að í hvert sinn sem stórmarkaðirnir voru með tilboðsverð á matvöru — auglýsingarnar þöktu heilu opnurnar í dagblöðunum (sem eru í eigu matvöruverslanakeðjanna} — þá var matvaran ódýra oftar en ekki feitt kjöt, hamborgarar, ís, súkkulaðisósur, 2jalítra kók í kippum, kex og þar fram eftir götunum. Grænmeti eða annað heilsufæði virtist ekki vera selt með afslætti. Ég get semsé ekki betur séð en sama mynstrið væri hér og í Bandaríkjunum: borðaðu ódýrt og þá borðarðu óhollt í leiðinni.

Í viðtalinu er talað um að konur/stelpur sem finna til vanlíðunar við það eitt að fletta tískublöðum. Fegurðarsamkeppnir láta þeim líka líða illa. Ég horfði nýlega í stutta stund á tónlistarsjónvarpsstöð og varð hugsi yfir konunum sem þar sáust. Þær voru allar eins. Allar af svipaðri hæð, jafngrannar með sömu silíkonbrjóstin. Og þó það sé óhugnalegt útaf fyrirsig að það sjáist ekki aðrar konur í heilu sjónvarpsþáttunum (CSI sem dæmi) eða sjónvarpsstöðvunum, þá er enn sorglegra hvernig áhrif þetta hefur á allar þær stelpur og konur sem meðtaka þessi skilaboð. En fegurðarsamkeppnirnar, sjónvarpsþættirnir og tískublöðin eiga það sameiginlegt að vera að selja okkur vörur: snyrtivörur, hársnyrtivörur, megrunarkúra, fæðubótarefni, tískuklæðnað, skó, fylgihluti og svo framvegis.

Konur eru markhópur og eru því miskunnarlaust látnar vita að þær séu ekki að standa sig í innkaupunum en til þess að við kaupum vörurnar þarf að láta okkur vita að við þurfum á þeim að halda, þessvegna er komið inn hjá okkur endalausri óánægju.* Með því að vera ósáttar við hárlitinn er kominn hvati til að láta lita hárið (endurtekið á nokkurra vikna fresti), með því að við erum ósáttar við lærin er kominn hvati til að bregðast við á fjölbreyttan hátt: kaupa kort í líkamsrækt, fara í vafningameðferð, kaupa sérstyrktar sokkabuxur, jafnvel fara í fitusog. Áður en konur fara í fitusog hafa þær yfirleitt prófað allar hinar aðferðirnar og eru því búnar að vera mjög duglegar í að eyða peningum. Konur sem verða helteknar af því að ná rétta útlitinu eyða í það miklum peningum og mikilli orku. Sumar missa stjórn á þessari þrá og fá átröskun. En stærstur hlutinn reynir að lifa með þessari nagandi tilfinningu um að vera ekki nógu sæt, nógu grönn, nógu brjóstastór, nógu aðlaðandi ... Ekki skánar það þegar konur fara að óttast það að eldast, þá fyrst fara nú hillurnar að svigna undan hrukkukremum — og æ fleiri konur leita til lýtalækna til að hysja upp um sig brjóstin og láta andlitið líta út eins og það gerði aldrei þegar þær voru átján.

Þó það sé auðvelt að segja að konur eigi bara ekkert að láta þetta hafa áhrif á sig og eigi bara að líða vel í eigin skinni þá hefur þetta áhrif á okkur allar. Einu konurnar sem ég veit um að eru algerlega sáttar við útlitið og líkamann eru þær sem hafa farið í mikla sjálfsrækt og náð að kasta þessu oki af sér, þær sluppu ekkert betur en hinar.

En eins og kemur fram í viðtalinu við Sigrúnu sálfræðing á Bugl** þá dæma konur og stelpur sig hart vegna þyngdar sinnar.*** Samfélagið dæmir þær ekki síður hart sem eykur á óttann við að þyngjast. Það er ömurlegt að heyra hvernig talað er um fólk — og þá sérstaklega konur — sem eru frávik frá meðalmanneskjunni í þyngd. Hæðst er að þeim bæði á bak og jafnvel uppí opið geðið á þeim. Þær sem eru þungar verða oftar fyrir því en þær léttu, það er ekki spurning, en það má samt ekki á milli sjá hve andstyggilegar nafngiftir hvorum um sig eru gefnar.

Konur eru ekki og eiga ekki að vera í stríði við hverjar aðrar. Konur sem telja sig feitar hata ekki grannar konur og konur sem eru grannar hata ekki konur sem telja sig feitar eða eru yfir kjörþyngd (ath. það er ekki það sama að vera yfir kjörþyngd, vera feit og finnast hún vera feit, þrennt ólíkt). Það er hreinlega rangt að líta svo á að konur skiptist í tvö lið. Það eru eflaust ýmsar kenningar til um afhverju þetta hefur þróast svona, að konur telji sig betur settar með því að níða niður líkamsvöxt annarra kvenna, en það er alger óþarfi að halda því áfram. Stoppa hér!

___
* Konur eyða mjög háum hluta tekna sinna (sem eru lægri en tekjur karla) í föt og snyrtivörur og þetta er eitt af því sem viðheldur efnahagslegu ójafnvægi milli kvenna og karla.

** Í viðtalinu er talað um þegar börnum er bannað að borða of mikið annarsvegar og troðið í þau sem ekki vilja borða mat sem þau vilja ekki. Ég hef þá skoðun að sé það gert veiki það hugmynd barna um hve mikið aðrir megi ráða því hvað sett er í líkama þeirra, m.ö.o. geri þau verr í stakk búin til að átta sig á hvenær verið er að beita þau kynferðisofbeldi. Og ef þau vita ekki einu sinni að það sem er verið að gera við þau er rangt, þá geta afleiðingarnar orðið hræðilegar.

*** Það er engum hollt að ganga um í líkama sem er hataður - hvort sem hatrið kemur frá samfélaginu eða innan frá.

Efnisorð: , , , , , ,