miðvikudagur, apríl 22, 2009

Atkvæðaseðill er líka einkunnaspjald

Það er líklega ekki seinna vænna að koma með áminningu um hvernig ráðstafa skuli atkvæði sínu.*

Kosningaloforð eru innantóm. Ekki bara útaf þeim algildu sannindum að ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt þá er það ekki satt, heldur vegna þess að þegar til stjórnarmyndunarviðræðna kemur verða alltaf gerðar málamiðlanir og þá geta helstu og mikilvægustu mál verið samin útaf borðinu. Þá er súrt að horfa á eftir atkvæði sem átti að tryggja að einmitt þau mál njóti forgangs. Samt er auðvitað eðlilegt að bera saman kosningaloforð flokkanna þó ekki væri nema til að sjá til hverra er verið að reyna að höfða. Borgarahreyfingin (sem er algerlega blind á kynjamisrétti og ræðir engin feminísk mál) þykist ekki vera stjórnmálaflokkur því fólki þykir stjórnmálamenn hafa svikið þjóðina. Framsóknarmenn reyna að höfða til sama kjósendahóps með því að þykjast vera með öðruvísi fólk innanborðs en framagosa fortíðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn svo margsaga um ESB að það eina sem uppúr stendur er að þeir eru að reyna að fá atkvæði (og snapa sér far með Samfylkingunni í ríkisstjórn og Samfylkingin trúir því að inngangan í ESB sé agnið sem hrífi.

Ég er ekkert sérstaklega upptekin af kosningaloforðum vinstri grænna. Enda ver ég atkvæði mínu eins og ég hef alltaf gert: Eftir að hafa borið saman kosningaloforðin léttvægu legg ég mat á hvað flokkarnir gerðu á undanförnum árum, hver stefnan var, hvernig henni var fylgt og hvernig til tókst. Menn og málefni þar innifalin.

Treysta náttúruverndarsinnar Samfylkingunni eftir útreiðina sem Fagra Ísland fékk — eða eru Helguvík og Bakki undantekningar sem sanna regluna?

Þykir einhverri að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig vel í efnahagsmálum? Er framganga hans eða Framsóknarflokksins í kvótamálinu, Íraksstríðsyfirlýsingunni, virkjanamálum og samningum við álfyrirtæki slík að það beri að verðlauna?**

Er Frjálslyndi flokkurinn fullsæmdur af því hvernig talað hefur verið um innflytjendur þar á bæ?

Og svo eru það öll spillingarmálin og hvernig flokkar og einstaklingar hafa farið með efnahag þjóðarinnar ...

Atkvæði á ekki að veita útá loforð sem auðvelt er að svíkja. Heldur nota það eins og verið sé að gefa einkunn fyrir frammistöðu.

___
* Auðvitað eiga öll atkvæði allra landsmanna að gilda jafnt.

** Ég sá Draumalandið í kvöld. En ég hafði líka lesið bókina. Kjósendur þessara flokka virðast ekki hafa gert það.

Efnisorð: , , ,