sunnudagur, apríl 19, 2009

Börn hafa rétt á að vera ekki beitt ofbeldi

Daginn fyrir þinglok komst annað og ekki síður mikilvægt mál en vændismálið til afgreiðslu og varð að lögum. Það var bann við því að beita börn líkamlegum og andlegum refsingum. Þarmeð er loksins búið að framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í 19. grein hans er tekið sérstaklega fram að börn skuli njóta verndar gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Þá er einnig í 39. gr. tekið fram að börn megi ekki beita ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

Það er réttur barna að þau skuli ekki þurfa að þola líkamlegar eða andlegar refsingar.

Foreldrum eða forsjáraðilum er óheimilt að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum, þ.m.t. refsingum í uppeldisskyni.

Lögin fela í sér að foreldrum og öðrum forsjáraðilum sé bæði skylt að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu annarra og einnig að þeim sé óheimilt að beita sitt eigið barn slíku ofbeldi. Sérstaklega er tiltekið að refsingar í uppeldisskyni séu óheimilar, þar á meðal flengingar.* Hér er greinilega verið að vísa í atburði eins og raktir voru í nýlegu dómsmáli þar sem karlmaður hafði rasskellt syni kærustu sinnar og var sýknaður. Ef sambærilegt mál kemur upp þá er enginn vafi á því að ofbeldið er ólöglegt.

Þetta frumvarp lögðu fram þau Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Verðlaun eru ekki veitt fyrir að sjá hvað þetta fólk á sameiginlegt með fólkinu sem stóð að vændisfrumvarpinu.


___
* Þetta hef ég allt beint uppúr þingskjölum en umorðaði lítillega.

Efnisorð: ,