fimmtudagur, apríl 23, 2009

VG og Samfylkingu takk

Ég hef miklar áhyggjur af kosningunum á laugardaginn. Reyndar er stjórnarflokkunum spáð miklu fylgi en ég hef áhyggjur af því að of margir skili auðu og að á síðustu metrunum sæki Sjálfstæðisflokkurinn á. En þó að t.d. Samfylkingin verði sigurvegari kosninganna (hversu tæpt sem það stæði*) þá óttast ég að í stað þess að halda áfram samstarfinu við Vinstri græn þá verði tekin sú stefna að kippa Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum — eða þeim báðum — með í ríkisstjórn. Vinstri græn hafa gefið út yfirlýsingar um að vilja halda stjórnarsamstarfinu áfram (þrátt fyrir æsing sumra Samfylkingarmanna útaf ESB) svo ekki þarf að óttast að sá flokkur kúvendi þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum.

Mér finnst semsagt algerlega nauðsynlegt að Samfylking og Vinstri græn haldi áfram ríkisstjórnarsamstarfinu, helst án aðkomu annarra flokka.** Ég skil samt vel að fólk sé ekkert of hrifið af Samfylkingunni vegna ýmissa spillingarmála sem hún hefur tengst (og langvinnra ásakana um að hafa gengið erinda Baugs - sem hún virðist reyndar hafa gert). Þá var ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn síst til að hreykja sér af og óskiljanlegt afhverju því var ekki slitið fljótlega eftir bankahrunið.*** Svikin við náttúruverndarstefnu flokksins eru líka minnisstæð. Reyndar mátti varla á milli sjá á köflum hvor flokkurinn væri meiri frjálshyggjuflokkur, Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn, en þó var og er innan Samfylkingarinnar gegnheilt félagshyggjufólk sem virðist ekki hafa látið neitt hagga sér. Fer þar fremst í flokki núverandi forsætisráðherra sem stundum er kölluð heilög Jóhanna — en það verður ekki háðsyrði þegar það er sagt um hana.

Vinstri græn hafa þá sérstöðu að hafa talað gegn græðgisvæðingunni, klámvæðingunni, ójöfnuðinum í þjóðfélaginu, neysluhyggjunni, ofurlaununum, bankasölunni og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli sagt: vöruðu við og tóku ekki þátt. Fyrir þetta var hlegið að þeim og gert lítið úr þeim en þau héldu samt sínu striki án þess að láta afvegaleiðast og taka þátt í spillingunni. Vinstri græn voru ekki í klappliði útrásarvíkinganna og þáðu ekki „styrki“ frá þeim eða bönkunum.

Samfylkingin er því ekki alveg með hreinan skjöld en besta fólkið innan hennar er líka eðalfólk. Besti kosturinn í ríkisstjórn er því Samfylkingin í samstarfi við Vinstri græn. Saman gera þessir flokkar hina erfiðu tíma sem framundan eru vonandi sem bærilegasta fyrir okkur öll.

En fari svo að Samfylkingin taki aftur upp samstarf við Sjálfstæðismenn, þá verður frjálshyggjan ofaná.*** Ég fyllist skelfingu við tilhugsunina. Þá er bara svartnættið framundan.

___
* Því tæpar sem Samfylking vinnur því meiri líkur á að tína upp fleiri litla flokka með sér.
** Samt finnst mér allt í lagi að hafa fólk í ríkisstjórn sem situr ekki á þingi, sbr. núverandi dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra.
*** Sökina á hruninu er samt ekki að finna hjá Samfylkingunni, heldur hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, en sannarlega var megnið af Samfylkingunni í klappliðinu auk þess að snúa blinda auganu að því sem var að gerast.
*** Eftir kosningarnar 2007 hafði ég efasemdir um að Samfylkingin næði að halda aftur af Sjálfstæðisflokknum. Það fór enn verr en mig hefði grunað. Ég talaði líka um að úrslit kosninganna væru þunglyndisvaldandi, ég óttast að svo fari einnig nú.

Efnisorð: , , , ,