mánudagur, apríl 27, 2009

Kvíðakast vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Ég greiddi ekki atvæði með Evrópusambandið í huga og mér finnst þarafleiðandi undarlegt að heyra talað um að kjósendur hafi fyrst og fremst verið að greiða atkvæði með eða gegn ESB. Fyrir mér snerust kosningarnar um allt annað. Uppgjör við fortíðina og ósk um breytt þjóðfélag þar sem félagshyggja kæmi í stað frjálshyggju.

En þar sem að nú í stjórnarmyndunarviðræðum virðist ESB aðild vera sett sem skilyrði þá finnst mér að Vinstri græn eigi að samþykkja að gengið verði til aðildarviðræðna. Meðan á því ferli stendur — eða a.m.k. þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir — verði þjóðin rækilega upplýst um hverjir séu kostir og gallar við inngöngu. Þá kjósum við og niðurstaðan verður annaðhvort Evrópusinnum í hag eða ESB andstæðingum.*

Fram að því að ríkisstjórn verður mynduð verð ég áfram með hnút í maganum. Ég er skíthrædd við að annaðhvort Samfylking eða Vinstri græn setji einhver þau skilyrði varðandi þetta mál að hinn flokkurinn hætti við alltsaman. Úff.

Kvíðinn er svo mikill að ég er ekki einu sinni farin að gleðjast yfir því að fjöldi kvenna á þingi sé kominn í 43%. Og ætti það þó venjulega að kæta mig stórlega.

___
* Niðurstaðan verður aldrei gæfuleg þegar svona margir vitleysingar hafa atkvæðisrétt. Nærri fjórðungur þjóðarinnar kaus Sjálfstæðisflokkinn núna á laugardaginn — eftir hrun og spillingarafhjúpanir. Og næstum 15% kusu Framsóknarflokkinn. Er þessu fólki sjálfrátt?

Efnisorð: , ,