miðvikudagur, maí 06, 2009

Bankanum þínum er ennþá sama um þig

Nú er búið að taka af mér ómakið við að skrifa færsluna sem var í uppsiglingu. Ég hef nefnilega verið að láta fara í taugarnar á mér þessar auglýsingar frá Landsbankanum (ekki þó þannig að ég verði reið þegar ég sé þær heldur þannig að ég hlæ háðslega) og Íslandsbanka (sem gerir mig meira pirraða því þar er ég í viðskiptum). Byr auglýsingunum flissa ég geðveikislega að.*

En semsagt, einhver skrifaði bréf og sendi Agli sem birti það hjá sér. Og ég geri það líka:

Eru yfirvöld að gera grín að almenningi og nota til þess íslensku bankana?

1. Íslenskir bankar tapa hrikalegum fjárhæðum af lífeyrissparnaði og almennum sparnaði almennings.
2. Ríkið yfirtekur alla helstu banka landsins og skiptir svo bara um kennitölu á bönkunum.
3. Sparnaður landsmanna er að stórum hluta horfinn úr “nýju” bönkunum..
4. Vegna spákaupmennsku og refskákar bankanna sjálfra og tengdra fyrirtækja eru skuldir almennings hærri en áður.
5. Bankarnir ganga jafn hart ef ekki harðar fram í innheimtu og óbilgirni gagnvart almenningi.

Þetta er staðan á vormánuðum 2009. Og hvað gera þá rikisbankarnir þrír - þessir sem allir vita að verða sameinaðir að stórum hluta?

Jú, RÍKISbankarnir hefja heljarinnar auglýsingastríð, moka milljónum í ímyndaherferðir og gylliboð, rétt eins og október 2008 hafi bara verið slæmur draumur.

Ríkisbankar eru sem sagt að nota OKKAR peninga, í einhverri hallærisbaráttu um hver getur pissað lengst í auglýsingum.

Og hvað er verið að auglýsa?

Landsbankinn fer inn á auglýsingastofu og fær ráðgjöf

Bankinn hefur skaðast svo mikið - enginn treystir yfirmönnum - nú skulum við láta almenna starfsmenn vera andlit bankans.

Tökum nú myndir fyrir nokkrar millur, semjum lag fyrir einhverja hundraðþúsundkalla og keyrum svo birtingar eins og 2007 hafi aldrei liðið.

Apríl og maí - Allir landsmenn fá að vita að Aðalbjörg gengur á fjöll og að Marta fer á skíði. Starfsmennirnir eru sem sagt rosalega venjulegt fólk þótt þau vinni í banka, og við fyrirgefum bankanum alveg að hafa tapað öllum milljónunum okkar, vegna þess að Sólveig tekur á móti mér í Austurstræti og Jón Fannar var í vörninni hjá Grindavík.

Takk Landsbanki! Nú elska ég þig aftur.

Íslandsbanki/Glitnir/Íslandsbanki fer og fær ráðgjöf

Glitnisnafnið er svo jaskað - tökum aftur upp gamla nafnið. Til að verjast gagnrýni á kostnað við að skipta um bréfhaus, þá skulum við prenta límmiða sem eru dýrari en bréfsefnið og láta starfsmenn sitja og líma á pappír. Þá finnst öllum við vera svo ráðdeildarsöm. Fjölmiðlamenn eru hvort eð er svo fattlausir að .þeir spyrja aldrei svona basic spurninga.

Apríl: Fjölmiðlar segja frá því sem sérstakri ráðdeild milljónabirnunnar að vel launaðir starfsmenn sitji og föndri - til að draga athyglina frá peningaustrinum.

Takk Birna, nú fyrirgef ég þér milljónirnar sem þú hafðir af mér og öllum hinum. Ég elska Glitni. Nei, ég meina Íslandsbanka.

Kaupþing fer og fær ráðgjöf

“Hey, ráðum áróðursmeistara sem við köllum “umboðsmann viðskiptavina”. Allir halda að hún sé að passa eitthvað upp á viðskiptavinina en svo skrifar hún bara greinar í blöðin sem eru svona lofrullur um bankanna og starfsmenn hans! ” Þeir (og hinir bankarnir líka) birta auglýsingar þar sem bankinn SJÁLFUR auglýsir og ræður umboðsmanninn og stjórn bankans fer með boðvald yfir starfsmanninum.

18. apríl 2009. Umboðsmaður viðskiptavina Kaupþings skrifar í Mbl. “Stjórnendur bankanna taka á þessu verkefni af fullri alvöru og ábyrgð. Starfsmenn bankanna leggja nótt við dag til að leita þeirra lausna sem best gagnast fyirtækjunum sjálfum, bönkunum og samfélaginu í heild.” Greinilegt að viðskiptavinir eiga hauk í horni þar sem umboðsmaðurinn er og hún er sko ekkert í liði með bankanum.

Takk Kaupþing - nú er ég alveg búinn að gleyma því að Kaupþing drap krónuna með spákaupmennsku og sturtaði íslensku efnahagslífi niður um klósettið í leiðinni með ævintyralegum útlánum til vildarvina.

Ég spyr

Hvað kostar þetta RUGL - og hvaða meðvitundarlausu starfsmenn ríkisins leyfa kennitöluflakkandi bankastofnunum, sem verða brátt lagðar niður í núverandi mynd, að stunda svona fjáraustur úr OKKAR fjárhirslum? Ég krefst þess að ALLAR auglýsingar bankanna verði stöðvaðar þegar í stað og einungis auglýst ef vantar starfsmenn eða ef um lögbundnar meldingar er að ræða. Þessi ímyndar- og þjónustufroða á að hverfa úr öllum miðlum STRAX! Allt annað er móðgun við skuldum hlaðinn almenning.

Viðskiptavinur
Fyrir utan hástafanotkunina þá gæti ég ekki verið Viðskiptavini meira sammála. Ég held reyndar að ímyndarherferð Landsbankans eigi hugsanlega að minna viðskiptavini á að fólkið í afgreiðslu bankanna ber ekki ábyrgð á hruninu og sé bara venjulegir starfsmenn en ekki útrásarvíkingar og fjárglæframenn. Það hefur svosem ekkert þuft að minna mig á það og ég hef engan séð skammast útí starfsfólkið í því útibúi sem ég fer í (sem er reyndar ekki Landsbankinn, kannski er allt í óeirðum þar). Sjálf hef ég enga þörf fyrir að bögga þær ágætu konur sem þar starfa en ég myndi skilja vel ef einhver hellti úr skálum reiði sinnar yfir þær eða aðra blásaklausa starfsmenn. Einhverstaðar verður fólk að fá útrás. Og það er ekki eins og Bjarni Ármannsson standi fyrir máli sínu eða láti ná í sig. Björgólfur eldri** situr ekki í salnum á Landsbankanum í Austurstræti og ræðir Icesave við viðskiptavini þess banka og strákarnir okkar í Kaupþingi eru heldur ekki til viðtals — með eða án varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
___
* Í athugasemdum á Silfri Egils koma fram athugasemdir við Byr og fjárhagslegu heilsuna.
** Assgoti er nú bágt að sjá aumingjans karlinn kveinka sér. Alveg voðalega aumur og hræddur um að missa ofan af sér. Og alveg búinn að gleyma að hann er ekki skráður fyrir húsinu sem hann býr í heldur eiginkonan og engar líkur á að húsið verði tekið af henni. Eftir öll þessi ár í eldlínunni ætti Björgólfur að vera búinn að læra að ljúga þannig að það sé ekki hægt að afsanna öll hans orð daginn eftir.

Fyrirsögnina sótti ég til ábendinga anarkista sem enginn botnaði neitt í árið 2007.

Efnisorð: