laugardagur, maí 16, 2009

N-orðið

Það er furðulegt að eftir því sem umræða um kynferðislegt ofbeldi hefur orðið meiri, fleiri konur hafa stigið fram og sagt sögu sína sem þolendur og tölfræðilegar upplýsingar um hve algengt er að konur verði fyrir nauðgun, hefur skilningur almennings á hvað nauðgun er ekkert aukist. Hér á ég fyrst og fremst við skilningsleysi karlmanna. Ranghugmyndir þeirra um nauðganir eru mýmargar og spanna allt frá því að líta svo á kona hafi kona farið einsömul með karlmanni í bíl eða heim til annars hvors þeirra eða hafi verið til í að tala við hann í einrúmi í partýi þá sé hún búin að samþykkja hvað sem er og aldrei sé um nauðgun að ræða, yfir í að konur ljúgi nauðgun uppá saklausa karlmenn vegna þess að þær séu undir slæmum áhrifum frá Femínistafélaginu. Sumir virðast halda að sé konan ekki kýld eða reynt að kyrkja hana í aðdraganda nauðgunarinnar eða meðan á henni stendur sé ekki um nauðgun að ræða og greinilega eru margir á því að ef konan æpir ekki hástöfum NEI — til dæmis vegna þess að hún er of drukkin til að geta tjáð sig (eða hrædd) þá sé það ekki nauðgun.

Svo eru það sumir karlmenn sem halda að nauðgun sé þegar rangt er eftir þeim haft í fjölmiðlum.

Ekki eru þeir skárri sem líta svo á að lag sem oft er spilað í útvarpi eða á skemmtistöðum hafi orðið fyrir nauðgun.

Fórnarlamb nauðgana eru ekki öll eins. Þær — en oftast er um konur að ræða — eiga það nánast eitt sameiginlegt að á þær hefur verið ráðist vegna þess að þær eru konur og það er hægt að beita þær ofbeldi sem beinist að kynfærum þeirra og til þess er oftast notað kynfæri karlmanns eða aðrir hlutir sem líkjast þeim í lögun. Svipting á frelsi, ógnandi látbragð og niðurlægjandi orðbragð eru auk þess vopn nauðgarans. Fórnarlömbin — konurnar — vinna misvel og misfljótt úr þeirri hræðilegu reynslu sem það er að verða fyrir nauðgun. Sumar ná að bæla niður allar tilfinningar og tala aldrei um það sem þær urðu fyrir, en aðrar tala um nauðgunina, hugsa um atburðinn og finna fyrir á margvíslegan hátt. Margvíslegri en tölu verður á komið. Nauðgun hefur gríðarleg áhrif á konur, viðhorf þeirra til sjálfra sín, líkama síns, kynlífs og til þess hvort og þá hvernig körlum er treyst í framtíðinni.

Ég hef hitt konur sem geta ekki sagt orðið „nauðgun,“ svo illa líður þeim þegar þær eru minntar á það sem þær hafa þurft að ganga í gegnum. Þær geta ekki sagt orðið í tengslum við atburðinn eða líðan sína, orðið eitt er sársaukafullt. Sár annarra kvenna ýfast upp í hvert sinn sem þær heyra það sagt eða sjá orðið á prenti (og ég bið þær velvirðingar á hve oft ég skrifa þetta orð, bæði hér og í öðrum bloggfærslum).

Ég get ekki ímyndað mér að þessar konur — frekar en ég — líti á það sem frumlegt og skemmtilegt orðalag að karlmenn tali um að sér hafi verið nauðgað eða sér líði eins og þeim hafi verið nauðgað ef einhver skrifar í blöðin hvernig þeir eru í rúminu (sbr. Friðrik Erlingsson rithöfundur*) eða einhver misskilur hvað þeir sögðu á Facebook (sbr. Sturla Ólafsson sjúkraflutningamaður) eða hvað það nú er sem veldur því að þessum karlmönnum finnst að illa hafi verið komið fram við þá.

Magnað samt að þessum karlmönnum þyki að þetta sé rétta leiðin til að bæta ímynd sína í augum almennings. Ekki finnst mér að það hafi virkað neitt sérstaklega vel. Manngæska og heilindi eru til dæmis ekki það sem mér dettur fyrst í hug þegar þeir tjá sig.

___
* Pressan hafði Friðrik á lista í greininni „Íslenskir elskhugar“ sem birt var 26. maí 1994. Hann skrifaði í sama blað 2. júní þar sem hann notaði n-orðið ítrekað og líkti sér hreinlega við fórnarlömb nauðgunar. Alla tíð síðan hefur mér fundist hann vera fáviti.

Viðbót: Hér er n-orðalagsnotkun gerð að umtalsefni og áhugaverðar umræður í kjölfarið.

Efnisorð: , ,