þriðjudagur, maí 12, 2009

Sóley Tómasdóttir talar fyrir mig

Það er með miklum ólíkindum oft að fylgjast með viðbrögðunum þegar Sóley Tómasdóttir tjáir sig. Fúkyrðaflaumurinn sem fylgir í kjölfarið frá kvenhöturum í netheimum verður slíkur að það er varla að ég treysti mér til að lesa athugasemdir við það sem hún skrifar. Henni varð það á að gagnrýna kynjaskiptinguna í ríkisstjórn — eins og ég og fleiri feministar hafa gert — og bara við það eitt að nafn hennar og ljósmynd af henni birtist á Smugunni varð allt vitlaust.* Nú hefur Drífa Snædal risið upp henni til varnar og enn sem komið er (21 athugasemd komin þegar þetta er skrifað) eru athugasemdir kurteislegar og frekar vinsamlegar.**

Ég nenni lítið að ganga í stuttermabolum með áletrunum.*** En ef svo væri þá fengi ég mér þessa áletrun á bol:

ÉG ER SAMMÁLA SÓLEYJU
Í EINU OG ÖLLU

___
* Það er greinilega búið að hreinsa útúr athugasemdakerfinu, enda hroðinn orðinn verulegur. Sumt af því sama má lesa á Eyjunni, þar er engu hent út sýnist mér.
**Þó er þarna strax komin svokölluð „Ragnhildur“ sem einnig hafði skrifað athugasemd við færslu Sóleyjar og þykist vera kona sem vinnur á kvennavinnustað þar sem konur fyrirverða sig fyrir Sóleyju. Ragnhildur þessi virðist halda að karlhatur sé ræktað í Kvennaathvarfinu/Stígamótum og reynir að gera Sóleyju tortryggilega fyrir að eiga móður sem vinnur hjá Stígamótum (en Ragnhildur heldur að hún sé hjá Kvennaathvarfinu). Nokkurnveginn samhljóða texti hefur birst annarstaðar undir nafninu Bottishava og vafalaust víðar undir fleiri nöfnum. Þó ég viti að til séu konur sem eru neikvæðar útí feminista þá efast ég um að kona skrifi þetta. Það eru ekki margar konur sem hatast útí Kvennaathvarfið eða Stígamót.
*** Mér finnst óþarfi að draga þannig athygli að þeim líkamshluta sem ég vil helst að karlmenn séu ekki að glápa á. Afhverju eru áletranir ekki á bakinu?

Efnisorð: , ,