föstudagur, maí 29, 2009

Framfarir í vondum málum

Söguleg tíðindi: Hæstiréttur dæmdi karlmann í langa fangelsisvist fyrir kynferðisofbeldi.* Dómurinn var sá þyngsti hingað til. Alltof lengi hefur verið miðað við dómafordæmi — að það sé ekki hægt að fella þunga dóma því það séu ekki fordæmi fyrir því að fella þunga dóma — og refsingar við kynferðisbrotum því verið skammarlega litlar. Enn er langt í land með að refsiramminn sé fullnýttur (samkvæmt lögum má dæma í 16 ára fangelsi) en þetta er gríðarstórt skref í rétta átt.

Þá er ekki síðra, sem kemur í ljós þegar dómurinn er lesinn (ekki fyrir viðkvæmar sálir), að dómurinn er svona harður og afdráttarlaus þrátt fyrir eindregna neitun nauðgarans. Fáránlega oft er neitunin látin gilda og látið sem þá sé bara orð (nauðgarans) á móti orði (fórnarlams hans) enda þótt liggi fyrir sálfræðimat ofan á læknismat um ástand fórnarlambsins eftir kynferðisofbeldið sem það var beitt. En hér var semsagt allri slíkri þvælu hafnað og svínið skal dúsa í fangelsi.

Bravó fyrir því og gott á kvikindið.

___
* Þessi tiltekni nauðgari níddist á stjúpdóttur sinni árum saman, allt frá því að hún var fimm ára og fór ofbeldið stigvaxandi. Dómurinn er hér. (Varúð, gæti hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum.)

Efnisorð: ,