miðvikudagur, júní 10, 2009

Konur og karlar

Hér er sagt frá þeirri staðreynd að orðið „maður“ á alls ekki alltaf við um karlmenn eingöngu. Orðið á við um bæði konur og karla.

Feministar hafa þó gagnrýnt notkun orðsins maður þegar um t.d. starfsheiti er að ræða. Það er þó aðallega vegna þess að með því að nota orð sem endar á maður (þingmaður, formaður) þá fallbeygist öll setningin eftir því og er hjákátlegt að heyra talað um konur á þann hátt. Það er holl áminning um hvernig hægt er að láta konur hverfa með orðum einum saman. Þessvegna vilja sumar konur tala um þingkonur, rétt eins og framkvæmdastýrur í stað framkvæmdastjóra en sömu vandræði eru með -stjóra endinguna (svo ekki sé talað um ráðherra). Oftar en ekki er þó talað um konur sem þingmenn og fátt út á það að setja sem slíkt. Enda eru konur menn, eins og ég hyggst endurtaka nokkrum sinnum.

Kannski er það afleiðing þingkvenna-umræðunnar sem fólk ruglar saman mönnum og körlum. Stundum er sagt að „menn“ geri þetta og hitt og svo bætir viðkomandi við — ýmist skömmustulegur eða með yfirlætisfullu brosi þess sem þykist jafnréttissinnaður — að konur geri það líka. Menn og konur eru ósátt við við Icesave samninginn, menn eyddu um efni fram og konur líka. Verslun í Reykjavík hefur held ég tvö útibú, annað heitir Konur og hitt Menn. Réttar væri að tala um konur og karla.* Karlmenn, þyki fólki orðið „karl“ of kallalegt.

Vinsamlega koma því inní hausinn á sér að konur eru partur af mannkyni, eru kvenkyns menn, rétt eins og karlar eru karlkyns menn. Fjölmörg orð byrja á „mann“ (sbr. mannkyn) í orðabókum, þau eiga við um konur og karla, ekki bara karla. Við erum öll menn, öll manneskjur.

Ég forðast í bloggfærslum mínum að tala um „menn“ vegna þess að ég vil leggja áherslu á að ég er að tala um konur eða karlmenn og vil ekki að það fari neitt á milli mála hvort kynið á við hverju sinni. Ef mikið liggur við nota ég orðið fólk. Þá forðast ég líka að nota orðið maður þegar ég skrifa um eigið álit á einhverju; ég held að ég hafi hvergi skrifað: „manni blöskrar“ (þótt oft hafi verið ærið tilefni). Mér verður seint treyst til að skrifa lög um meðferð íslenskrar tungu en myndi örugglega skikka fólk til að nota orðið menn um konur líka en ekki karla eingöngu — nema þegar um starfsheiti er að ræða.

Allar konur eru menn
Allir karlar eru menn
Sumir menn eru karlar
Sumir menn eru konur

Í stuttu máli sagt: konur eru líka menn.

___
* Meira segja í Biblíunni segir: Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Og á ég þó ekki nýju útgáfuna heldur þá eldri sem ekki var eins mikið að vanda sig í jafnréttismálum. Fariði nú eftir því sem Biblían segir, krakkar mínir!

Efnisorð: ,