þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Gætt að karlmiðaðri tungu

Í mörgum tungumálum, þ.á.m íslensku, hefur verið gerður skýr greinarmunur á starfsheitum og fleiru eftir því hvort kynið á að sinna því. Lærerinde, kennslukona. Stewardess, flugfreyja. Hjúkrunarkona. Prestarnir, læknarnir. Enda þótt ekkert mál sé að segja að kona sé læknir þá vandast málið þegar tala á um hana í þriðju persónu, læknirinn kom og hann sagði – hún sagði? Og svo ráðherrarnir allir. Það er fáránlegt að heyra talað um konu sem herra. En því virðist ekki mega breyta, þó svo rokið hafi verið upp til handa og fóta þegar einstaka karlar fóru að gegna störfum sem áður var bara sinnt af konum. Þá mátti ekki kalla þá flugfreyjur heldur fengu þau öll starfsheitið flugþjónn. Hjúkrunarkonur urðu hjúkrunarfræðingar (sem er reyndar skiljanlegt miðað við að hjúkrunarnámið færðist á háskólastig þar sem fræðingastimpillinn – með karlkynsendingu - er settur á fólk af báðum kynjum, og athyglisvert þetta með að gert sé ráð fyrir að háskólamenntað fólk sé allt karlkyns) og kennslukonur kennarar, fóstrur að leikskólakennurum. Eins og það hefði nú verið auðvelt að kalla karlkyns fóstruna fóstra.

Þegar konur vilja aftur á móti ekki halda karlkynsbeygingunni, heldur sveigja málfræðina að raunveruleikanum, þá verður allt vitlaust. Konur skulu vera ávarpaðar sem karlar út í gegn. Þegar lögfræðingurinn fór úr sokkabuxunum sást að hann hafði ekki rakað á sér lappirnar. Táneglur hans voru þó fagurlega lakkaðar, enda hann orðlagður smekkkona. Kvarti konur undan þessu eru þær skammaðar fyrir að vilja eyðileggja íslenskt mál. Okkur er þó nokkur vorkunn. Eða mér allavega vorkunn. Eins og sést, þá er ég ekki vel að mér í málfræði (er haldin þágufallssýki á háu stigi) og setningarfræði minnist ég ekki að hafa lært. Enda skoppa kommur til og frá í texta hjá mér alveg burtséð frá gildum reglum og semikommur kann ég allsekki að nota (nota sviga þess mun meira og talsvert meira en góðu hófi gegnir), hvað þá bandstrik og þankastrik. Aðalsetningar ruglast við aukasetningar og hvaðeina. Verandi þó metnaðargjörn fyrir hönd íslenskunnar þá gladdist ég mjög þegar ég sá að Helgi Hálfdánarson ætlaði að fara að skrifa (ekki bara skammir heldur leiðbeiningar) í Moggann undir yfirskriftinni „Gætum tungunnar,“ okkur almúganum til fróðleiks .

Nú er svosem ekki langt liðið en þó tók ég strax eftir einu. Á hverjum degi eru menn að gera eitthvað við hvorn annan (tveir) eða hvern annan (fleiri). Án þess að ég vilji brigsla Helga um ergi þá skil ég ekki hvað allir þessir karlar eru að gera við hvern annan, eru engar konur þarna? Og gera þær ekkert við hvora aðra (tvær) eða hverja aðra (fleiri)? Eða er konur svo óvirkar, að mati málvöndunarmannsins, að hann heldur bara að þær geri ekki neitt? Karlar bæði gera og geta – og eru verðlaunaðir fyrir. Úr Mogganum 31.júlí 2006: „Hann hlaut hvortveggju verðlaunin.“ Einnig í júlí: „Þeir dönsuðu hvor við annars konu.“ Hér hefði verið heppilegt að segja að þær dönsuðu hvor við annarrar eiginmann, og þá verið hægt að ítreka notkun erranna í leiðinni. En kannski stendur til að afgreiða öll orðasambönd útfrá karlkyninu fyrst og konurnar komi síðar – eins og venjulega.

(Hah! Sé strax að ég hef haft rangt fyrir mér. Fann úrklippu frá 8. júní með yfirskriftinni Gætum tungunnar og þar eru konur: „Allar konurnar tala hver um aðra.“! Athyglisvert það sem þær svo loks gera þegar þær koma til sögunnar!)

___

Viðbót, löngu síðar: Ágætis umræða skapaðist á bloggi Kolbeins um starfsheiti.

Efnisorð: