mánudagur, júlí 17, 2006

Góð og vond vændisfrumvörp

Þegar vorþingi lauk gerðu fjölmiðlar mikið mál úr rifrildum um hvenær því ætti að ljúka og að afgreiða hefði átt 100 lagafrumvörp eða svo á síðustu dögunum. Hvergi sá ég þó skýrt frá því hvaða frumvörp þetta hefðu verið og velti fyrir mér afhverju lesendum blaða fengju ekki að vita þetta og þá helst í aðgengilegu formi þar sem fram kæmi um hvað frumvarp fjallaði, hver lögðu það fram og greiddu atvæði með og á móti og svo að lokum hvernig hin nýju lög hefðu áhrif á almenning í landinu. En þó ég hafi velt þessu fyrir mér um stund og frústrerast yfir lélegum fjölmiðlum, þá dreif ég mig ekki að gera það sem ég vissi að myndi upplýsa mig um málið, að minnsta kosti að hluta til, en það er að lesa mér til á Alþingi.is. En svo rakst ég á einhverstaðar að vændisfrumvarpið hefði ekki verið samþykkt – en það var frumvarpið sem ég hafði mestar áhyggjur af. Það er reyndar týpiskt að slíkt frumvarp hafi ekki komist á dagskrá (og enn veit ég ekki hvort því var frestað eða það fellt, enda vandratað um vef Alþingis) því auðvitað er flestum þingmönnum skítsama um slíkt mál.

Annað er það og betra, að þetta tiltekna frumvarp í þessu formi skyldi ekki vera samþykkt því ég hef verið mjög ósátt við að ekki væri lagt til að sænska leiðin yrði farin. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt til held ég í þrígang – í þrjú ár í röð – að fara að dæmi Svía og banna körlum að kaupa sér vændiskonur til afnota – en það hefur ekki hlotið nokkurn hljómgrunn meðal Sjálfstæðismanna, hvorki karla þess flokks né kvenna. Nú veit ég ekki hvort það er vegna þess að fólk í þeim flokki aðhyllist frjálshyggju eða hvort það er vegna þess að Sjálfstæðismenn eru illgjarnari en gengur og gerist, en þessi flokkur sker sig úr, því þingmenn allra annarra flokka eru hlynntir frumvarpinu. Og með því að Sjálfstæðisflokkurinn ræður allsherjarnefnd þá hefur verið hægt að svæfa frumvarpið þar árum saman. En nú er semsé nýtt frumvarp um sama mál á ferðinni, að þessu sinni komið frá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Þar er ekki lagt til að sænska leiðin sé farin heldur er í raun verið að leyfa vændi alfarið, með því skilyrði þó að þriðji aðili megi ekki hagnast á því. Melludólgar mega semsagt ekki starfa en að öðru leyti á vændi að vera löglegt og hljóta allir að fagna því. Eða hvað er betra en að búa í samfélagi þar sem körlum býðst að kaupa sér konur til að níðast á? Og vita að konur eiga þó alltaf þá leið færa rati þær í ógöngur; að selja líkama sinn ókunnugum. Með blessun ríkisins. Og Björns.

Efnisorð: ,