laugardagur, júlí 15, 2006

Margrétar Thatcher syndrómið

Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á að hafa sagt að það sé frátekið pláss í Helvíti fyrir konur sem aðstoða ekki aðrar konur. Ekki trúi ég nú á Helvíti, svona sem samastað, en ég skil vel frústrasjónina bakvið fullyrðinguna. Við viljum kjósa konur til áhrifa, sjá þær í forstjórastólum og sem stjórnarformenn – en stundum eru þær konur sem komast í þessi áhrifamiklu störf bara allsekki feministar. Þeim finnst þær hafa eingöngu komist þar sem þær eru á eigin verðleikum, að áratuga barátta kvenna hafi ekki haft nein áhrif á þær, komi þeim ekki við. Þær segja jafnvel að þær hafi aldrei verið látnar gjalda kynferðis síns. Þær virðast þannig allsekki sjá allar hinar konurnar sem hafa verið látnar gjalda þess.

Það má vera að það séu til konur sem aldrei hafa þurft að heyra klámbrandara í vinnunni eða gert hafi verið lítið úr þeim og þeirra störfum, að þær hafi aldrei vitað til að karlmennirnir á þeirra vinnustöðum hafi fengið örari launahækkanir og betra kaup. Það má vera að þær hafi aldrei átt í vandræðum vegna veikinda barna eða þurft að sleppa barneignum til að halda í við starfsframa karlanna. Heppnar voru þær. Og kannski varð sú heppni til þess að þær komust svona langt, það voru kannski bara engar hindranir í veginum. Einhvernvegin finnst mér nú samt líklegt að þær hafi orðið varar við eitthvað af þessu, en ákveðið að líta framhjá því, annaðhvort til að skemma ekki móralinn eða til þess að halda bjartsýninni. Eða kannski finnst þeim þetta bara eðlilegt og svona verði maður bara að sætta sig við, óþarfi að gera veður útaf því.

Svo eru líka til konur sem komast langt sem álíta að það sé vegna þess að þær séu svo sérstakar, útvaldar, betri en hinar. (Ekki spurning að þær eru góðar og standa sig vel en það er hugsunarhátturinn sem ég er að tala um hér.) Með því að njóta sérstöðunnar þá dettur þeim auðvitað ekki í hug að samsama sig öðrum konum, líta jafnvel niður á þær, því þær eru ekki eins klárar eða hvað það nú er sem þær skara fram úr í. Konur með þennan hugsunarhátt ráða ekki aðrar konur í vinnu eða hjálpa þeim á neinn hátt. Kjósa gegn þeim eða hafna tillögum þeirra.

Allt þetta hentar körlum afar vel. Þeir hrósa konum sem eru ekki sífellt að kvarta og eru alveg sammála því að þessi tiltekna kona sé alveg sérstök og ‘ekki eins og hinar’. Þarafleiðir að þeir geta svosem alveg sætt sig við þessa einu, en hinar eru alveg jafn ómögulegar. Þannig tekst körlum og þessum tilteknu konum að viðhalda ríkjandi ástandi, enda þótt ein og ein kona komist áfram.

En afhverju er yfirleitt verið að hleypa þessum einstöku konum að? Einhverjir reyna að bauna því á feminista að þær geti ekki kvartað yfir stöðu kvenna með því að benda á að ‘karlar hafi leyft konum að fá kosningarétt,’ og hleypt þeim í hinar og þessar stöður. Valdhafar hafa um aldir vitað að til þess að skríllinn geri ekki blóðugar uppreisnir þá þarf að leyfa honum að sprella. Þannig mátti einu sinni á ári gera grín að kirkjunni, án þess að hljóta bannfæringu í kjölfarið, á karnivölum. Guðlast var jafn bannað fyrir því. En með því að leyfa það innan ákveðinna marka þá fékk skríllinn útrás. Á sama hátt hefur lengi tíðkast að hleypa einum og einum einstaklingi fram fyrir raðir jafningja hans og á það að vera til marks um að hópurinn sem hann tilheyrir sé jafngildur valdhöfum, en er í raun til að létta af þrýstingi. Það að Condoleezza Rice er ráðherra í ríkisstjórn Bush hefur hvorki bætt stöðu svartra í Bandaríkjunum né er staða hennar til marks um hve mikið mark er tekið á svörtum yfirleitt. Ein kona við stjórnvölinn í stórfyrirtæki – Rannveig Rist – er ekki til marks um frábæra stöðu kvenna í viðskiptalífinu. Til þess þyrftu þær að vera fleiri. Til dæmis jafnmargar körlum. Og jafnmargar í stöðu bankastjóra. Það er engin kona bankastjóri á Íslandi! En það að ein kona sé – til málamynda – tekin inn í hóp karla, það breytir litlu. Þessvegna þarf miklu að breyta, ekki síst hugsunarhætti þeirra kvenna sem þó hafa komist áfram. Án þess þó að hóta þeim Helvítisvist.

Efnisorð: