sunnudagur, júlí 02, 2006

Barist gegn nauðgunum með aðferðum sem virka ekki

Ég er ekki alltaf sammála þeim aðferðum sem notaðar eru til að vekja athygli á nauðgunum. Of oft er einblínt á einhvern einn þátt, sem gerir það að verkum að auðveldlega er hægt að útiloka hann. Dæmi um það er þegar sagt er að nauðgun sé alltaf ofbeldi. Ég geri mér grein fyrir að þá er átt við að með því að nauðga konu er verið að beita hana ofbeldi og að nauðgun sé ofbeldisglæpir og öll eigum við að vera á móti ofbeldi. Gallinn er sá, að með því að segja að nauðgun sé ofbeldi, þá geta nauðgararnir og vinir þeirra, sem alltaf hlaupa í vörn fyrir þá og réttlæta gerðir þeirra (aðallega þó til að þurfa ekki að horfast í augu við að þeir eigi vini sem eru nauðgarar) geta oft sagt að engu ofbeldi hafi verið beitt. Bæði vegna þess að konan var ekki barin áður en henni var nauðgað, á meðan eða eftir á, en líka vegna þess að karlar hafa oft á tíðum aðrar hugmyndir um hvað ofbeldi er heldur en við hin.

Strákavinir hrinda oft hverjir öðrum, slá til hvers annars eða taka einhvern hálstaki, bara grínsins vegna og vegna þess að þeir hafa vanið sig á það. (Svo átta þeir sig heldur ekki á því að undirliggjandi ástæða er oft að þá langar til að snerta vini sína en finnst það ‘hommalegt’ og þá verða snertingarnar svona stórkarlalegar.) Þar af leiðir að þeim finnst ofbeldi ekki vera neitt minna en beinbrot og glóðarauga, að minnsta kosti þarf hnefum að hafa verið beitt svo sjái á konunni. Þetta hefur endurspeglast í dómskerfinu (sem fer eftir handriti sem er skrifað af körlum, sem hafa sama viðhorf og strákarnir, enda voru þeir víst strákar einu sinni) þar sem nánast aldrei er fallist á að um nauðgun hafi verið ræða nema hægt sé að sýna fram á áverka. Að hóta með hnefunum, hrinda eða slá utanundir telst ekki ofbeldi hjá körlum.

Þessvegna virkar ekki röksemdin um að nauðgun sé alltaf ofbeldi, því þeir geta með góðri samvisku sagt að konan, sem kærði þá eða vini þeirra, hafi bara allsekki verið beitt ofbeldi; þarafleiðir að henni hafi ekki verið nauðgað. Þegar kona reynir ekki að verja sig vegna hræðslu, og nauðgarinn þarf því ekki einusinni að lúskra á henni, eða þegar kona liggur áfengisdauð eða því sem næst og getur því ekki varist, telur því ekki sem ofbeldi í hugum slíkra karlmanna. Að nauðgun sem slík sé ofbeldi er auðvitað fyrir ofan þeirra skilning.

Það þýðir heldur ekki að segja að nauðgun snúist um kynlíf (röksemd sem er held ég reyndar lítið notuð í fræðslu/áróðursskyni en heyrist oftar sem röksemd í umræðum). Vinir eins nauðgara sem ég þekki segja að það geti ekki verið að hann hafi nauðgað stelpunni – barið hana í klessu reyndar – en hann hafi alltaf átt svo mikinn séns í stelpur og sé ekki í neinum vandræðum með að fá sér að ríða, þessvegna hafi hann ekki nauðgað henni. (Sá fékk fangelsisdóm fyrir að misþyrma stelpunni en dómurinn taldi að nauðgunin hefði ekki sannast á hann, enda afar líklegt að stelpan hafi viljað kynlíf með honum þegar hann hafði barið hana með beltinu sínu um stund. Fátt eins æsandi náttúrulega.) Vinir hans sögðu að hann hefði alltaf barið stelpur sem hann komst í tæri við, en það væri fjarri honum að nauðga þeim, þessum ægilega sjarmör sem gæti fengið kynlíf hvar og hvenær sem hann vildi.

Málið er nú samt það að sú krafa karla að þeir fái kynlíf með hverri sem er og hvernig sem er, er ein ástæða þess að þeir nauðga. Þeir telja sig eiga rétt á kynlífi og smáatriði eins og samþykki konunnar þvælist ekki fyrir þeim. Þegar frægir gæjar eins og Kobe Bryant (bandarískur körfuboltamaður) er ásakaður um nauðgun, þá er fullt af fólki sem segir að það getur nú ekki verið að þeir ÞURFI AÐ NAUÐGA, því þeir séu umvafnir kvenfólki. Líkurnar eru þó þær að hann, eins og margir aðrir minna frægir – eða bara alls ekki frægir – telji sig vera yfir það hafinn að kona neiti honum. Eða kannski að hún geti nú ekki verið að hafna svona stórkostlegu tækifæri á að sofa hjá HONUM. Að því leytinu má segja að nauðgun snúist um kynlíf. En fyrir konuna, þolandann, snýst nauðgun allsekki um kynlíf (nema þegar nauðgunin eyðileggur fyrir henni kynlíf næstu árin vegna eftirkastanna, meira um það síðar), því hún upplifir ekkert kynlíf heldur nauðgun, árás á líkama sinn þar sem kynfæri hennar og aðrir kynnæmir hlutar líkamans verða verst úti.

Hið annars ágæta slagorð, NEI ÞÝÐIR NEI, er líka eitt og sér meingallað. Það er fullt af konum sem segja ekki nei. Þær segja kannski ‘hættu’ eða ‘ekki gera þetta’ eða þær segja ekki neitt. Á meðan hugsanirnar þjóta um hugann, ‘hvernig lenti ég í þessum aðstæðum?’ ‘getur verið að maðurinn ætli sér að nauðga mér?’ ‘ég vissi að ég átti ekki að …’ þá er ekki víst að konan muni eftir ‘lykilorðinu’ nei. Og hver segir svosem að það myndi duga þeim? Auðvitað er slagorðið að benda karlmönnum á að konan þurfi að gefa samþykki sitt fyrir kynlífi, annars sé ekki öruggt að hún vilji það, en það er ekki það sem karlmenn lesa endilega útúrþví. Heyri þeir ekki NEI, þá halda þeir ótrauðir áfram. Margir þeirra sem nauðga áfengisdauðum konum, eða konum sem eru orðnar svo drukknar eða dópaðar að þær koma ekki upp orði, þeir segja keikir frá því að þeir hafi sko ekki nauðgað neinum, hún hafi hreint ekki sagt nei þessi.

Auðvitað er áríðandi að segja körlum að þeir eigi að taka mark á því þegar konur samþykkja ekki kynlíf. Og auðvitað inniheldur öll ásökun eða ákæra um nauðgun orðið ‘kynlíf’, samanber setninguna hér að framan. Og auðvitað er nauðgun ofbeldi, hvernig sem svo karlar kjósa að túlka það. Þannig að ég skil alveg að reynt sé að sýna körlum fram á, í slagorðum eða hnitmiðuðu máli, hvað nauðgun sé og hvenær þeir eru komnir yfir mörkin, gallinn er bara sá að þeir munu alltaf nota hvern frasa fyrir sig til að benda á að þeir hafi allsekki nauðgað. Þessvegna verður alltaf að tala um nauðgun á sem fjölbreyttastan hátt – ekki bara eitt slagorð sem látið er ganga í áraraðir þar til annað tekur við – stöðugt, sem víðast og þar til það skilst hvað nauðgun er. Því nauðgun er ekki ‘bara ofbeldi’ eða ‘bara kynlíf’ og það er ekki nóg að ‘segja bara nei’. Því ef karlar, þarmeð taldir strákar, taka það ekki til sín, þá hætta þeir aldrei.

Efnisorð: ,