þriðjudagur, júní 20, 2006

Manifesta

Ég er hér til að segja álit mitt – ekki til að heyra álit ykkar á mér. Ég kæri mig ekki um gagnrýni. Mig langar ekki einu sinni að hafa síu, sem gefur mér færi á að stoppa sumar athugasemdir en hleypa þeim sem ég er sammála í gegn. Það myndi bara þýða að ég sæti ein uppi með svívirðingarnar. Og ég veit að athugasemdakerfi blogga eru full af svívirðingum. Stundum á ég bágt með að hella ekki úr skálum reiði minnar inná athugasemdakerfi einhvers fávitans, en hingað til hefur mér tekist að halda aftur af mér. Þangað til núna. Nú fáið þið það óþvegið. Og til að bæta gráu ofan á svart ætla ég að dyljast fyrir ykkur, stela efni frá ykkur og níða niður ættingja ykkar. Þó er það ekki svo að mér sé ekkert heilagt. Mér er mjög margt heilagt. En þið hafið gert ykkur sek um að níða það niður, á einn eða annan hátt. Ég er ekki Andri Snær. Ég get ekki skrifað massífa gagnrýni sem er samt jákvæð og uppbyggileg. Þó ég dáist að slíkum eiginleikum er ég algerlega laus við þá sjálf. Ég er bölsýn og bitur og nýt þess að flagga geðillsku minni í hálfa stöng.

Ég hef látið mörg bloggtækifæri fram hjá mér fara. Og líklega mun ég öllum á óvart ræða mál sem öðrum eru gleymd eða nenna ekki lengur að tala um. Hafa jafnvel sagt umræðuna dauða. Umræðan er ekki dauð fyrr en ég segi svo. Ef mér dettur í hug að æsa mig yfir fjárkláðamálinu þá er það aktúelt. Líklega verð ég samt svo æst yfir hverju smámáli sem upp kemur, svo ákveðin í að leggja orð í belg, að ég ofreyni mig og lýsi bloggið dautt. Spurning um hve lengi ég endist. Sko, þarna er ég strax byrjuð á bölsýninni, gott hjá mér. Um að gera að halda yfirlýstri stefnu.

Eitt af því sem mig langaði mjög að blogga um, var danska skopmyndamálið. En þá stóð ekki vel á hjá mér til að hefja bloggskrif – vildi ekki bara skrifa einu sinni og svo aldrei meir – svo ekkert varð úr því. Helvíti óheppilegt, því ég hafði alltaðrar skoðanir á því en flest önnur.

Í stuttu máli.

Mér finnst að prentfrelsi og málfrelsi sé stórlega ofmetið og að myndirnar hefðu aldrei átt að vera birtar. Hef ekki kynnt mér það eins nákvæmlega og ég ætlaði mér, en er nokkuð viss um að hugmyndin um prent-og málfrelsi kom fyrst fram í bandarísku stjórnarskránni – nú eða þeirri frönsku – og að meiningin hafi verið sú að halda aftur af þeirri ágengu tilhneigingu stjórnvalda að þagga niður í þegnum sínum og meina þeim að gagnrýna sig. Málfrelsi og prentfrelsi átti örugglega aldrei að vera til að gefa þegnum leyfi til að níða skóinn af hverjum öðrum á opinberum vettvangi, hvorki einstaklingum né hópum.

Og mér finnst að það megi taka tillit til þess að múslimar hafa aldrei leyft neinar myndir af Múhameð, ólíkt kristni, þar sem kirkjan hefur hvatt til að gerðar séu myndir af Jesú og fjölskyldu frá upphafi. Þannig að það að gera skopmyndir af Múhameð á sér ekki fordæmi í „venjulegum“ myndum af honum, en afturámóti grínmyndir af Jesú hafa viðgengist lengi. Hafa þær þó valdið illdeilum og mörgum finnst þær allar vera guðlast. Aðrir brosa góðlátlega en fara svo á límingunum þegar ádeilan verður grínlaus, eins og gerðist t.d. þegar myndlistarverkið Piss Kristur var sýnt. Mér finnst líka að það sé ekki sama hver deilir á eða gerir grín að.

Kaþólskur listamaður (eins og Andres Serrano) hefur að mínu mati rétt á að gagnrýna kaþólsku kirkjuna – og aðrar kristnar kirkjudeildir – en ætti að sleppa því að hamast gegn múslimum eða þeirra háttum. Eins ættu aðrir trúarhópar að líta í eigin barm en láta vera að gagnrýna aðra.

Við trúleysingjarnir megum hinsvegar hía á alla.

Efnisorð: ,