föstudagur, júní 26, 2009

Biðin og kvíðinn

Sumarið hefur það sem af er einkennst af bið (ekki var nú á það bætandi eftir biðstöðuna sem einkenndi þjóðfélagið síðustu mánuði síðasta árs). Aðallega hef ég verið að bíða eftir góða veðrinu en ýmis úrlausnarefni ríkisstjórnarinnar hafa líka hvílt á mér. Mér finnst sem Icesave umræðan hafi staðið yfir svo lengi og vil að þingið fari að ganga til atkvæðagreiðslu. Þó mér lítist illa á samninginn — og skilji Guðfríði Lilju vel að vilja ekki samþykkja hann — þá kvíði ég því sem gæti gerst ef hann verður felldur. Verða stjórnarslit? Kemst Sjálfstæðisflokkurinn aftur til valda? Það væri þokkalegur andskoti eftir allt það sem á undan er gengið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einbeittur að afsanna loforðin um að stjórnin verði studd í öllum góðum málum — í rauninni hefur hann þvælst fyrir í öllu. Icesave samningurinn varð upphaflega til í þeirra ríkisstjórn — og ekki má gleyma því að Landsbankinn var gefinn Sjálfstæðismönnum og Kjartan Gunnarsson sat fyrir hönd flokksins í bankaráði. Það væri auðvitað gott á Sjálfstæðismenn að þurfa að axla ábyrgð á því að leysa Icesave klúðrið, en gallinn er sá að ef hann kemst til valda verður frjálshyggjan ræst aftur í gang eins og hávaðasöm sláttuvél á sunnudagsmorgni. Og þá verður engu eirt.

Sólin er loksins komin og hlýnað hefur í veðri. Enn eiga þó þingmenn eftir að greiða atkvæði um Icesave. samninginn. Þangað til er það bara biðin og kvíðinn. Vonandi rofar svo til.

___
Viðbót: Egill Helgason með einn af skárri pistlum sem ég hef séð um Icesave. Mjög gott að hann skuli benda á að Steingrímur J. Sigfússon skuli sitja uppi með þetta mál og leggja pólitískan feril sinn að veði vegna þess. Því það er öruggt að Steingrímur ber enga ábyrgð á útrásarruglinu sem stjórnmálamaður. Hann varaði alla tíð við þessu og var alveg heill í því.“

Önnur viðbót: Hjörvar er með enn betri pistil um Icesave.

Efnisorð: , ,