miðvikudagur, júní 17, 2009

Fánum prýddir forstjórajeppar

Ég sá nokkra bíla með íslenska fánann flaksandi útum hálfopna glugga. Það voru allt stórir jeppar sem þannig voru skreyttir. Í stóru jeppunum jafnt sem litlum fólksbílum sátu börn með blöðrur og ískám útá kinnar. Þau voru að koma úr bænum þar sem þau höfðu hoppað í hoppuköstulum (það sá ég í sjónvarpsfréttum) og étið candyfloss. Þau minnast þessa dags eflaust með sælu þegar fram líða stundir; dagsins þegar mamma og pabbi leyfðu þeim allt sem þau vildu, vitandi að börnin þyrftu að borga bílalánin þeirra og lánin af fína húsinu með flottu innréttingunum, skuldir þjóðarbúsins og vextina af ríkislánunum sem eiga að borga fyrir syndir feðra þeirra.

Helvíti fínn dagur hjá fjölskyldunni. Mamma pabbi börn og bíll litu vel út og engan sem þekkir þau grunar að þau eru á hvínandi kúpunni. Það er auðvitað fyrir mestu.

Það verður fjör í framtíðarfjölskylduboðum þegar börnin vilja fara að ræða það hvernig hoppukastalinn átti að sætta þau við óréttlætið. Gera upp skuldirnar og spyrja hvað í andskotanum þessir foreldrar sínir hafi verið að hugsa.

Þau svara líklega bara: Við vildum að þetta liti allt vel út.

Efnisorð: