sunnudagur, júní 21, 2009

Blessað stríðið sem gerði syni okkar ríka

Án þess að hafa lesið Icesave samninginn (heldur bara túlkanir annarra) þá svitna ég þegar ég heyri ýmis ákvæði hans. En í hvert sinn sem ég finn að ég fer að hallast á sveif með þeim sem vilja mótmæla honum, í hvert sinn sem fólk segir að við eigum ekki að borga skuldir Landsbankans, þá verður mér hugsað til hve auðveldlega Íslendingar hafa sloppið gegnum tíðina. Við höfum fengið nánast allt upp í hendurnar á okkur, burtséð frá því hvernig málum hefur verið klúðrað undir sjóræningjafána frjálshyggjunnar.

Við erum eina þjóðin í veröldinni sem talar um seinni heimsstyrjöldina, þar sem yfir sjötíu milljónir manna létu lífið víðsvegar um heiminn, sem „blessað stríðið.“ Hernám Breta jók atvinnu á Íslandi (bretavinnan), verð á fiski hækkaði á erlendum mörkuðum og landið græddi á tá og fingri.* Bretar lögðu flugvöll í Reykjavík og Bandaríkjamenn í Keflavík, þeir eru báðir enn í notkun. Eftir stríðið fengu Íslendingar svo Marshallaðstoð eins og stríðshrjáðar þjóðir Evrópu þrátt fyrir allan stríðsgróðann.** Hinar þjóðirnar fengu aðstoðina að hluta til í formi lána en Íslendingar tóku engin lán heldur fengu allt gefins. Marshallaðstoðin leiddi til þess að keyptir voru togarar, dráttarbátar og landbúnaðarvélar og var jafnframt ráðist í stærri framkvæmdir s.s. byggingu Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar, áburðarverksmiðju í Gufunesi, steypuverksmiðju, hraðfrystihúsa og klæðaverksmiðju Álafoss svo fátt eitt sé nefnt.

Það er því varla hægt að segja að við getum horft keik framaní Breta, Hollendinga og Þjóðverja og sagt að við höfum orðið svo illa úti að það sé ekki á okkur leggjandi að borga „skuldir óreiðumanna.“ Við höfum svo margsinnis fengið meira en við áttum skilið. Stríðsgróðanum glutruðu synir þjóðarinnar niður. Nú er komið að skuldadögum og við getum ekki enn eina ferðina fengið sérmeðferð.

En mikið djöfull er það samt skítt.

___
* Íslendingar fóru svo auðveldu og lúalegu leiðina að því að fá sjálfstæði; notuðu tækifærið þegar nasistar höfðu hertekið Danmörku og lýstu yfir sjálfstæði án þess að Danir gætu rönd við reist. Enn einn ódýri sigurinn.

Efnisorð: , , ,