þriðjudagur, júní 30, 2009

Þakklæti og aðdáun í skiptum fyrir þúsundkalla

Undanfarin ár hefur fólk unnvörpum gerst styrktarforeldrar barna. Yfirleitt fer það þannig fram að fólk skráir sig hjá félagi eða stofnun sem rekur eða styður við einhverskonar munaðarleysingjahæli í fjarlægum löndum. Stofnunin eða félagið kemur hinu velmeinandi fólki í samband við barn sem býr á slíku hæli og skuldbindur fólkið sig til þess að greiða ákveðna upphæð með reglulegu millibili til stuðnings barninu og fær það þá föt, húsaskjól, menntun og svo framvegis. Fólkið sér semsagt um framfærslu barnsins og að koma því til manns og er því talað um það sem styrktarforeldra. Til staðfestingar á því að styrkurinn komist til skila fá styrktarforeldrarnir skýrslu frá stofnuninni um framfarir barnsins auk mynda af því. Barnið sendir svo sjálft bréf til styrktarforeldranna þar sem það segir frá sér og þakkar fyrir velvild í sinn garð. Stundum leggja styrktarforeldrarnir land undir fót og heimsækja barnið.

Þetta hljómar allt mjög vel og eflaust verður þetta mörgum börnum til mikilla heilla. Þau vaxa vonandi úr grasi og verða hamingjusöm og gott fólk, nýtir þegnar eða hvað það nú er sem fólk á að gera svona almennt á fullorðinsaldri, hvar sem það elst upp í veröldinni.

Það er samt eitthvað við þetta sem fer í mig. Flestir þeir sem ég þekki (eða les blogg hjá) sem eru styrktarforeldrar tala um það á ákveðinn hátt. Mikið er talað um hvað það sé gaman að fá bréf frá barninu „sínu“ en aðaláherslan virðist vera á hvað fólkinu sjálfu líður vel með þetta og hve það sé gott, þ.e. hve styrktarforeldrar séu gott fólk — og þau sem heyra þetta eða lesa eiga að fyllast aðdáun. Þetta er ekki sagt beint en það skín í gegn hvað fólkinu finnst það vera stórkostlegt og hvað því finnst gaman að til sé einstaklingur sem sé þeim svona mikið þakklátur.

Og hvernig ætli það sé að vera þessi þakkláti einstaklingur? Fæðast við ömurlegar aðstæður eða lenda í einhverjum þeim hörmungum sem enda með því að barninu er bjargað og það lendir á hæli. Þegar það kemst til vits og ára (eða strax sé það nógu gamalt) er því svo sagt að útí heimi sé til ofboðslega gott fólk sem það eigi líf sitt að þakka. Og gjöra svo vel og skrifa því bréf og þakka fyrir sig, núna! Það verður svo kvaðirnar í lífi barnsins: vera þakklátt og skrifa bréf til að þakka fyrir sig. Hvað ef barnið stendur sig ekki í skólanum eða langar ekki að læra hagnýta iðn? Getur það skrifað slíkt í bréfið og sagt: ég ætla að vera eins og þið á Vesturlöndum og læra það sem mér sýnist eða læra ekki neitt og gera bara það sem mér sýnist? Ætli ekkert þessara barna þjáist af sektarkennd gagnvart öðrum börnum sem ekki eru svo „heppin“ að góða fólkið sendir því peninga? Er inní myndinni að barnið verði svo hryllilega vanþakklátt að því finnist velmegandi Vesturlandabúar ekkert of góðir til að styðja fátæk börn og það þurfi ekkert sérstaklega að þakka fyrir það? Hvað ef styrktarforeldrarnir koma í heimsókn og heimta myndatökur af sér með barninu „sínu“ — getur eitthvað barn neitað að taka þátt í þeim skrípaleik?

En nei, þetta gengur allt útá þakklæti hinna fátæku barna — barna af öðrum kynþáttum, barna sem fæðast á röngum stöðum í heiminum inní rangar aðstæður. Þau eiga að vera þakklát (hvítu) fólki sem fæddist inní þjóðfélag þar sem heilbrigðiskerfi og menntakerfi hefur séð um að koma því til manns og lífið er þeim ekki erfiðara en svo að þegar það hefur borgað öll nauðsynleg útgjöld, eytt fé í sjálft sig og skemmtanir sínar, þá á það samt peninga til að gefa í góðgerðarstarfsemi. Fæst af þessu fólki er neitt þakklátt því þjóðfélagi sem ól það og margt hefur lagt sitt af mörkum til að engir aðrir fái notið þeirra gæða sem það ólst upp við (hér er ég auðvitað að tala um frjálshyggjumenn sem vilja einkavæða heilbrigðiskerfið og skólana) eða beinlínis verið í liði með þeim sem lögðu í rúst efnahag landsins svo að það mun hvorteðer sverfa að næstu kynslóðum, einkavæðing eður ei. En meira segja fólkið sem vill sterkt félagslegt kerfi, heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn og ókeypis skóla finnur ekki mikla þörf hjá sér til að vera þakklátt. Samt finnst því eðlilegt að barn útí heimi sé þakklátt sér.

Eflaust erum við öll vanþakklát og mættum tileinka okkur meira þakklæti. En að skikka einhver vesalings börn, sem ekkert hafa til saka unnið, til þess að strjúka okkur og klappa og segja okkur hvað við séum góð og æðisleg — er það rétta leiðin til að auka hamingju þeirra? Eða skiptir það engu, svo framarlega sem við getum montað okkur af því hvað við séum góð. Okkar vellíðan skiptir auðvitað öllu. Eigingirnin að drepa okkur.

Kannski er fólk ekkert að hreykja sér af því að vera styrktarforeldri, heldur vill segja frá því eingöngu til að hvetja aðra til að leggja sitt af mörkum til að bæta kjör barna. Mér finnst þó líklegra að það líti svo á að með fjárframlagi sínu jafnist það á við helstu góðmenni sögunnar — staðfestingin fæst með þakklæti barnsins og aðdáun annarra.

Einhverntímann rakst ég á texta sem fjallar m.a. um að byggja sig upp andlega og draga úr eigingirni. Samkvæmt honum á daglega að gera einhverjum gott án þess að nokkur viti; ef einhver kemst að því telst það ekki með. Hvað skyldi mörgum styrktarforeldrum takast þetta?

___
Vilji fólk endilega styðja við hjálparstarf í útlöndum er það hægt án þess að vera með þetta eignarhald á einstökum börnum og án þess að krefjast þakklætis af þeim í staðinn. Hægt er að gerast Heimsforeldri hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og styrkja þannig verkefni í Gíneu-Bissá, Síerra Leóne, Nígeríu og Svasílandi. UNICEF ver framlögunum þar sem þörfin er mest hverju sinni. Til að meta þörfina er farið eftir þjóðartekjum viðkomandi lands, tíðni barnadauða (undir 5 ára) og fjölda barna (íbúa undir 18 ára). Þetta kerfi gerir UNICEF kleift að sinna hjálparstarfi á þeim neyðarsvæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli. Þannig nær UNICEF líka að starfa sem víðast og er því fyrst á svæðið þegar náttúruhamfarir skella á.

Hjá SOS-barnaþorpum er hægt að gerast styrktaraðili fyrir þorp barna sem misst hafa foreldra sína eða geta ekki búið hjá foreldrum sínum af einhverjum ástæðum. (Reyndar er hægt að gerast styrktarforeldri líka en ég mæli með hinum valkostunum, sem sé þeim að styrkja þorpin sjálf eða samtökin í heild). Í hverri SOS fjölskyldu eru oftast sex til tíu börn á mismunandi aldri og af báðum kynjum. Höfuð fjölskyldunnar er SOS-móðirin sem hefur hlotið menntun í að sinna börnum sem mörg hver hafa upplifað miklar hörmungar. Hún sér um að börnin búi við öryggi og ást. SOS-barnaþorpin taka ekki afstöðu til ólíkra trúarbragða. Það þýðir þó ekki að samtökin hafni trúarbrögðum. Hvert barn er alið upp í þeirri trú sem foreldrar þess tilheyra/tilheyrðu. Ef upplýsingar um trúarbrögð foreldra liggja ekki fyrir eru börnin alin upp í samræmi við það sem algengast er í landinu eða á landssvæðinu. Í mörgum barnaþorpum má finna börn og SOS-mæður sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

ABC barnahjálp er rekin í samvinnu við kristna heimamenn á hverjum stað. Starfið gengur út á það að veita munaðarlausum, fátækum og umkomulausum börnum varanlega hjálp í formi skólagöngu, læknishjálpar og heimila þar sem þörf er á auk fæðis og klæða. Minnir á trúboðsstöðvarnar. Hjálparstofnun kirkjunnar er undir sömu sökina seld. Ég mæli ekki með því að fólk styðji starfsemi sem er dulbúið trúboð. Snúa sér frekar til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna eða SOS-barnaþorpanna — þegjandi og hljóðalaust.
___
Viðbót. Í heimildarmynd um rithöfundinn Alexander McCall Smith rithöfundar kemur fram að hann er sérlega vinveittur SOS barnaþorpum (eins og fleira frægt fólk, þ.á.m. Stephen Hawking). Árlega heimsækir hann barnaþorpið Tlokweng í Botswana og Mma Potokwane, móðirin á munaðarleysingjahælinu í bókaseríunni um Kvenspæjarastofu nr. eitt (e. The Number 1 Ladies Detective Agency) er byggð á raunverulegri fyrirmynd, Betty Mpodi, sem er SOS-móðir í barnaþorpinu. Aðalsöguhetjan í bókunum er þó hin skilningsríka ungfrú Precious Ramotswe sem leysir hvers manns vanda.

Botswana, eins og mörg önnur lönd í Afríku, er mjög þjakað af AIDS og reikna má með, segir í heimildarmyndin, að fimmta hvert barn í Botswana verði munaðarlaust af þeim sökum. Því er mikil þörf á barnaþorpunum en þrjú eru þegar starfandi í landinu og í einu þeirra eru tvö fjölskylduhús byggð fyrir íslenskt styrktarfé.

Efnisorð: , ,