fimmtudagur, júlí 09, 2009

Það er engin leið að hætta

Fjárglæframennirnir sem kenndir eru við hina fruntalegu útrásarstefnu fyrirtækja sinna skiptu með sér bönkunum, tryggingafélögunum og símafyrirtækjunum.

Jón Ásgeir/ Baugur: Glitnir, TM, Vódafón (og Tal og hvað það nú allt heitir)
Björgólfar: Landsbankinn, Nova
Bakkabræður: Kaupþing (Exista og Askar Capital, en þar átti almenningur ekki viðskipti), VÍS, Síminn
Wernerssynir: Glitnir, Sjóvá

Auk alls annars sem þeir sölsuðu undir sig.

Það hefur ekki verið nokkur leið að sleppa við að eiga viðskipti við þessa gróðapunga.* Fæst okkar geta sleppt því að eiga síma og ekki veit ég um nokkra manneskju sem rekur heimili sem hefur komist hjá því að stofna til einhverra viðskipta við banka og tryggingafélag.

Ég sit sem fastast í viðskiptum við bankann sem ég var hjá fyrir bankahrun, er enn hjá sama tryggingafélaginu. Hugsaði reyndar ekki útí það á sínum tíma að bæði tengdust Jóni Ásgeiri, var sannarlega ekki í viðskiptum þar vegna sérstaks dálætis míns á honum. Þegar ný símafyrirtæki spruttu upp nennti ég ekki að kynna mér hinar flóknu verðskrár og hef því alltaf verið viðskiptavinur Símans, líka eftir að hann var seldur. Spáði lítt í eigendur.

Samt hef ég leyft mér að gera grín að fólki sem er með viðskiptin hjá Nova og hnussaði þegar ég var spurð hvort ég vildi færa viðskiptin mín til Landsbankans. Spurði hneyksluð hvort ég ætti nú að fara að versla við bankann „sem færði okkur“ Icesave. Gallinn er bara að — þó augljóslega sé hatrið á Landsbankanum stækt vegna þess máls — allir bankarnir voru sömu svikamyllurnar sem fyrst og fremst voru látnir þjóna þeim eigendum sínum sem stærsta hlutinn áttu, vinum þeirra og stjórnendum bankanna. Bankarán innan frá, eins og það hefur verið kallað. Og við sitjum uppi með að hafa verið í viðskiptum við þessa gróðapunga og fjárglæframenn og getum ekkert farið — nema í flasið á félögum þeirra í hinum bönkunum.** Tryggingafélögin mergsugu þeir líka innan frá og almenningur sem hefur verið í viðskiptum situr í sömu súpunni þar og í bönkunum; það eru allir valkostir jafn slæmir.

Það er engin leið að hætta viðskiptum við þessi fyrirtæki. Við sitjum uppi með óbragðið í munninum.

___
* Svo ekki sé nú minnst á að varla er hægt að kaupa matvöru, bensín eða fatnað án þess að styrkja einhvern þeirra.

**Ég veit vel að fjárglæframennirnir nafngreindu hafa misst bankana til ríkisins. En allt sama pakkið situr í stjórnendastöðum og millistjórnendastöðum áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég held að fátt hafi í raun breyst í bönkunum.

Efnisorð: