fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Innbrot útbrot

Ég var að fá ansi skemmtilegt bréf frá sölustjóra Securitas. Þar er mér tjáð að fyrirtækið muni af góðsemi sinni senda mér sölumann — sem kallaður er öryggisráðgjafi í bréfinu — til að kynna mér þá þjónustu sem Securitas hefur uppá að bjóða.

Efni bréfsins mun vera Öryggisátak í Reykjavík.

Nú er ég ein þeirra sem hef látið Þjóðskrána og Símaskrána vita að ég vilji undir engum kringumstæðum verða fyrir ónæði sölumanna og á því hvergi að lenda á úthringilistum eða listum yfir fólk sem fær svona markpóst. Samt er bréfið kyrfilega merkt mér og mínu heimili.

Líklega hafa Securitasmenn hugsað sér gott til glóðarinnar — nú þegar fjölmiðlar eru fullir af fréttum um innbrotahrinu í höfuðborginni — og ákveðið að leggjast í markaðsherferð og þá lítt skeytt um þá borgara sem vilja vernd gegn slíkum sölubrellum. Annar möguleiki (og flokkast sá undir samsæriskenningar) er að á næstunni verði brotist inn hjá mér, svona svo ég hrökklist örugglega til að kaupa mér þjófavarnarkerfi frá Securitas.*

Þegar ég næ að róa mig niður finnst mér þessi möguleiki kannski ekkert sennilegur og þá er nærtækt að minnast orða kunningja míns sem benti mér á fyrir nokkrum árum, að sömu eigendur væru að Securitas og fjölmiðlasamsteypunni sem þá rak Stöð 2. Eftir að linnulausar fréttir voru fluttar af innbrotum í öllum fjölmiðlunum rauk upp sala á þjófavarnarkerfum. Og þessi kunningi minn var sannfærður um að það væri ekki óvart.

Ég held að Securitas leiðist a.m.k. ekkert að fólk sé hrætt við að brotist sé inn hjá því og það sé ekki af góðmennsku einni saman sem þetta „öryggisátak“ sé sett af stað.

Og nú ætla ég að hringja í Securitas og fá að tala við þennan ágæta mann sem stendur í bréfaskriftum við mig. Þetta verður besti dagur sumarsins fyrir hann.**

___
* Ég heyrði af slíku máli í sumarbústaðabyggð fyrir nokkrum árum. Þar buðu landeigendur uppá gæslu við bústaðina og þeir sem afþökkuðu komu að öllu í rúst þar til þeir keyptu sér verndina.

** Viðbót. Ég talaði við sölustjórann og hann var mjög kurteis (ég líka) og fullvissaði mig um að ekkert vafasamt væri við þessa markaðsherferð. Þeir hefðu fengið lista frá Fasteignaskrá. Hann sagði mér ennfremur að nú ætti Landsbankinn fyrirtækið, hefði hirt það úr búi Pálma í Fons. Fyrir nokkrum árum hefði Stöðvar 2 samsteypan (hvað-hún-nú-hét-þá) reyndar átt það. Og hann kannaðist við samsæriskenningarnar — án þess þó að kannast við að þær ættu við rök að styðjast. Ég er samt ekkert að fara að kaupa mér þjófavarnarkerfi frá Securitas.

Efnisorð: