fimmtudagur, júlí 23, 2009

N-orðið. Samhengið skiptir máli

Ég vil byrja á að biðja lesendur aftur afsökunar á hve oft orðið nauðgun kemur fyrir hér.

Lítill dálkur í Fréttablaðinu er kallaður Frá degi til dags. Þar er í dag sagt frá því að Sjálfstæðismenn séu ósáttir við að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi gagnrýnt orðalag Jóns Gunnarssonar um að verið væri að nauðga lýðræðinu. Þetta þyki tepruháttur á þeim bæ enda þetta orð oft notað á þingi. Og blaðamenn Fréttablaðsins, þeir Víðir Smári Petersen og Kolbeinn Proppé, telja upp dæmi um þingmenn sem hafi notað orðið „nauðga“ og nefna þar Kolbrúnu Halldórsdóttur, Sverri Hermannsson og Steingrím J Sigfússon.

Þetta fannst mér með miklum ólíkindum, þegar ég las það í morgun og lagðist því í rannsóknir á vef Alþingis.

Fyrsta skiptið sem nafnorðið nauðgun (skv. leitarvél Alþingis) er notað er 13. janúar 1938 í lögum um ófrjósemisaðgerðir ( sem kölluð voru Lög um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt). Þau dæmi sem ég fann með því að leita í skjölum og ræðum þingsins (leitarorð annarsvegar „nauðgun“ og hinsvegar „nauðga“) voru fjölmörg. Í 53 skjölum og ræðum kom orðið nauðga fyrir, orðið nauðgun kom fyrir í 164 skipti. Þó er ekki alltaf verið að nota þessi orð í sama tilgangi. Margir þingmenn — nánast allt karlmenn — nota þau til að krydda orð sín. Flestir nota þau í staðinn fyrir að nota orðalagið að neyða einhvern til einhvers, en finnst líklega að með því að nota orðið nauðgun séu þeir að kveða fastar að orði. Sumir nota það þó greinilega í yfirfærðri merkingu, að það sé hægt að framkvæma nauðgun á stofnun (Alþingi) eða lýðræðinu. Þingmenn, t.d. Páll Pétursson, eru líka gjarnir á að tala um náttúruspjöll á borð við virkjanir sem nauðgun á náttúrunni. Þetta heyrðist líka mikið í umræðum um Eyjabakka, Kárahnjúka og annarri náttúruverndarumræðu í samfélaginu, m.a. á bloggum. Afar ósmekklegt. Þá sagði Páll Pétursson „gamansögu“ þar sem nauðgun var höfð í flimtingum í einni ræðu sinni.** Bjakk.

Mest kom mér á óvart að sjá að Steingrímur J Sigfússon (einn þeirra sem nefndur var í Fréttablaðinu) hefur notað þetta í fjórum ræðum, algerlega að tilefnislausu. Skamm Steingrímur! (Reyndar eru rúm tíu ár síðan Steingrímur lét af þessum ósið). Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var ekki forseti, notaði þetta orðalag fimm sinnum. Hnuss.

Ein kona hefur gert sig seka um að nota þetta orðalag án tilefnis og var það Svanfríður Jónasdóttir. (Í einni ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur hneykslaðist hún á slíku orðalagi og eru orð hans því í hennar ræðu). Allar aðrar konur, t.a.m. allar þingkonur Kvennalistans, hafa talað um það í sínu rétta samhengi: í sambandi við nauðgunarmál.

Til dæmis þegar rætt hefur verið um

Almenn hegningarlög (kynferðisbrot)
Almenn hegningarlög (heimilisofbeldi)
Almenn hegningarlög(kynferðisbrot gegn börnum og mansal)
Almenn hegningarlög (vændi)
Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög (brottvísun og heimsóknarbann)
Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn
Utanríkismál, stríðsglæpi í Bosníu-Hersegovínu
Fóstureyðingar
Nauðgunarmál
Afdrif nauðgunarmála í dómskerfinu
Bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota
Skipulega málsleið fyrir brotaþola í nauðgunarmálum og fræðslu lögreglumanna
Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni
Kynferðislega misnotkun á börnum
Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis
Löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl.

Einnig kemur orðið fyrir þegar fjárlög eru rædd — þá er t.d. verið að tala um framlög til að reka neyðarmóttöku vegna nauðgana.

Kolbrún Halldórsdóttir hefur aldrei notað orðið nauðgun nema í þessu samhengi. Sama má segja um aðrar þingkonur (með áðurgreindri undantekningu). Það er því vægast sagt sérkennilegt af blaðamönnum Fréttablaðsins að spyrða hana saman við karlmennina sem nota þetta orð til að leggja áherslu á mál sem koma kynferðisofbeldi ekkert við. Enn sérkennilegra er að blaðamennirnir átti sig ekki á því að þegar talað er um ofantalin mál, þá er ekki nokkur leið að sleppa því að nota orðið nauðgun, að það er ekki notað til að krydda ræðuna.

___
* Páll Pétursson, 27.okt 1994 (skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál): Það að reka menn fyrir ósögð orð minnir mig á söguna sem gerðist fyrir mörgum árum þegar maður nokkur var tekinn og ákærður um brugg. Hann hafði í fórum sínum tæki að því er sýslumaður taldi sem gætu nýst við brugg en enginn landinn fannst. Maðurinn þrætti og neitaði og sagðist ekkert brugga, en sýslumaður sagði að hann hefði tækin til þess og vildi sakfella hann. Maðurinn spurði: Ætlarðu þá ekki að kæra mig fyrir nauðgun? Hvers vegna það? spurði sýslumaður. Ja, ég hef líka tæki til þess. Það er orðið svipað, ástandið hjá Ríkisútvarpinu.

Það sem eftir er þessarar færslu eru tilvitnanir í aðra þingmenn sem fara óvarlega með alvarleg orð. Innan sviga er umræðuefnið, skv. vef Alþingis, sem þeir þykjast vera að ræða. Það eru sjávarútvegsmál, virkjanamál, EES og síðast enn ekki síst, störf þingsins.

Hér er vísað í orð annarra - Sverrir Hermannsson 02.04.1979 (Framkvæmdastjóri öryrkja): Hv. 4. þm. Norðurl. v. mun vera nýkominn af lýðræðisþingi Framsfl. og undrast það stórum að hér skuli verið að --- eins og hann kallar --- að nauðga í gegn máli á Alþingi þar sem meiri hl. fær greinilega að ráða.

Páll Pétursson 30.03.1982 (virkjunarframkvæmdir og orkunýting): Fyrir norðan hafa þeir Blöndungar farið hamförum og nokkrir hreppsnefndarmenn hafa breytt fyrri afstöðu, sumir þeirra að mínum dómi mjög óvænt, og skrifað nöfnin sín, en mjög stór hópur fólks sættir sig alls ekki við þessa tilhögun og mun ekki láta nauðga henni upp á sig vegna þess að það telur ólíðandi að þannig sé farið með landið okkar.

Ingólfur Guðnason 31.03.1982 (virkjunarframkvæmdir og orkunýting): Ég tel það grófa móðgun við þessa ágætu menn, sem ég þekki flesta, að væna þá annaðhvort um annarlegar hvatir eða að þeir hafi látið þvinga sig, nauðga sér eða plata sig til þeirra samninga sem þeir hafa undirskrifað.

Ólafur Ragnar Grímsson 21.03.1984 (Lausaskuldir bænda): Hvers vegna þarf að halda hér kvöldfundi og þrýsta þessu máli og nauðga því hér inn á milli annarra mála og pína menn til að vera hér á kvöldfundi til að fjalla um málið og halda sérstakan deildarfund á morgun til að taka það til atkv. og jafnvel 3. umr. með óvenjulegum hætti, án þess að nokkrar skýringar hafi komið fram um hvers vegna þetta er svona mikið dagaspursmál? ... En þegar þingstörfunum er þannig háttað að það séu nánast skipulagðar fjarvistir af hálfu þeirra sem málið snerta í stjórnarliðinu með einum eða öðrum afsökunum, þá verður það eingöngu til þess að stjórnarandstaðan þarf að gera það upp við sig hvort hún ætlar að láta ríkisstjórnarliðið nauðga þinginu með þessum hætti. (Sama orðalag notaði hann tvisvar í viðbót með þessum hætti í sömu umræðu).

Páll Pétursson, 21. mars 1985 (Nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi): Ég vil ekki standa að byggingu mannvirkja sem eru óvelkomin í þeim byggðarlögum þar sem þau eru fyrirhuguð. Ég vil ekki nauðga fólki til að taka við framkvæmdum sem því eru á móti skapi.

Stefán Benediktsson 24.10.1985 (um þingsköp): ... múlbundnir stuðningsmenn hennar ekkert þarfara að gera en að vanvirða Alþingi með því að nauðga hér í gegn lögum um málefni sem koma hag þessarar þjóðar og því störfum Alþingis ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Steingrímur J. Sigfússon 14.12.1985 (rannsóknarnefnd til að að kanna viðskipti Hafskips hf): Ríkisstj. nauðgaði í gegn frv. með atbrigðum og lét skrifa undir það vegna þess að þjóðarheill krafðist, að sögn ráðherranna, að flugsamgöngur stöðvuðust ekki.

Guðmundur Einarsson, 28. febrúar 1986 (ráðstafanir í ríkisfjármálum): Núna er þingið beitt þvingunum. Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstj. standa með byssuhlaup við gagnaugabeinið á mönnum og segja: Samþykkið þið. Þetta er nauðgun á Alþingi.

Steingrímur J Sigfússon, 22. apríl 1986 (verslun ríkisins með áfengi): Formaður Framsfl. sem og hæstv. dómsmrh. Jón Helgason, sem hefur haft nokkuð sérstaka stöðu í brennivínsmálunum eins og allir vita, láta þetta auðvitað yfir sig ganga. Að vísu er það upplýst hér af hv. 3. þm. Norðurl. e. að það geri hæstv. dómsmrh. nauðugur. Um hvers konar nauðgun þar hefur verið að ræða veit ég ekki, herra forseti, en ég hef ekki annað fyrir mér í því en orð hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hæstv. dómsmrh. er fjarstaddur.

Garðar Sigurðsson 15.12.1986 (Ríkismat sjávarafurða): þegar verið er að nauðga í gegnum þingið nýframlögðu frv.

Hjörleifur Guttormsson 19.12.1986 (umræður um fjárlög): við 3. umr. fjárlaga að reyna að nauðga fram heimild varðandi frv. sem ekki fékk framgang á síðasta þingi

Tryggvi Gunnarsson 03.03.1987 (námsbrautir á sviði sjávarútvegs): Það er vonlaust, ef ég má nota svo óþingræðislegt orð, að nauðga nokkrum manni til að sinna því sem hann sækist ekki eftir - ja, vegna peninga bara.

Páll Pétursson 28.10.1987 (Húsnæðisstofnn ríkisins): Hún [félagsmálaráðherra] þarf náttúrlega ekki að láta sér detta í hug að hægt sé að nauðga heilum stjórnmálaflokkum til þess að gera eitthvað allt annað en þeir vilja.

Skúli Alexandersson 22.12.1987 (Stjórn fiskveiða): Þá telja forustumenn þessara flokka ástæðu til að leita ekki neins samstarfs við stjórnarandstöðuna heldur reyna að nauðga fram sínum vilja með valdi.

Steingrímur J Sigfússon, 28.12.1987 (Stjórn fiskveiða): Prósentutölur og þessi, með þínu leyfi forseti, fjandans meðaltöl, sem er nú alltaf verið að nauðga upp á mann í öllum umræðum, þær breyta nefnilega stundum ekki staðreyndum lífsins þó að það sé hægt að vitna í þær.

Karvel Pálmason, 07.01.1988 (Stjórn fiskveiða): ... því frv. sem verið er að nauðga í gegnum þingið.

Hreggviður Jónsson 13.01.1988 (Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga): ... ef ríkisstjórnin á annað borð ætlaði að nauðga þessu máli í gegn eins og fleirum,

Stefán Valgeirsson 8. maí 1989 (Húsnæðisstofnun ríkissins): þeir, ja, ég vil segja, ætla að nauðga því hér í gegn.

Hér er vitnað í orð annarra (athugasemdalaust) - Þorsteinn Pálsson, 23. apríl 1990 ((Frelsi í gjaldeyrismálum): Ég held ", segir aðstoðarmaðurinn fráfarandi, ,,að það sé mjög óæskilegt að þurfa að nauðga þessu upp á samstarfsaðilana óviljuga.

Þorsteinn Pálsson, 26. apríl 1990 ((Frelsi í gjaldeyrismálum) [endurtekur fyrri tilvitnun og segir einnig]: Nú ætla ég ekki að blanda mér í þau innanbúðarmál og vafalaust er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sé ástæðulaust fyrir hann að hafa fyrir því að nauðga sínum skoðunum upp á samstarfsaðilana.

Ólafur Ragnar Grímsson, 24. ágúst 1992 (Evrópskt efnahagssvæði): Þess vegna vil ég segja það alveg skýrt að þau frumvörp sem eiga að tengjast EES-samningnum verða auðvitað efnislega að vera fullbúin frumvörp. Það dugir ekki að koma með einhverja bastarða hér inn í þingið eða örverpi sem eru á þá leið að frv. er bara ein grein og síðan er ráðherra falið að ljúka málinu með allsherjarreglugerðarvaldi. Slíkri nauðgun á löggjafarvaldinu munum við ekki taka þátt í og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn muni endurskoða vinnubrögð sín í þessum efnum.

Ólafur Ragnar Grímsson 17. september 1992 (Um þingsköp): ... vegna þess að ég vil ekki nauðga þingsköpunum hér að ræða þetta

Ólafur Ragnar Grímsson 15. des 1992 (Um þingsköp): ... þeim sé sama þótt þeir brjóti stjórnarskrána, þeim sé sama þótt þeir brjóti lög, þeim sé sama þótt þeir neiti þjóðaratkvæðagreiðslu, það sé alveg sama hvernig þeir nauðgi og níðist á stjórnarskrá og lögum landsins ef þeir bara koma sínum vilja fram.

Páll Pétursson, 27.okt 1994 (skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál): Það að reka menn fyrir ósögð orð minnir mig á söguna sem gerðist fyrir mörgum árum þegar maður nokkur var tekinn og ákærður um brugg. Hann hafði í fórum sínum tæki að því er sýslumaður taldi sem gætu nýst við brugg en enginn landinn fannst. Maðurinn þrætti og neitaði og sagðist ekkert brugga, en sýslumaður sagði að hann hefði tækin til þess og vildi sakfella hann. Maðurinn spurði: Ætlarðu þá ekki að kæra mig fyrir nauðgun? Hvers vegna það? spurði sýslumaður. Ja, ég hef líka tæki til þess. Það er orðið svipað, ástandið hjá Ríkisútvarpinu.

Svanfríður Jónasdóttir 14. des 1995 (Um störf þingsins): Á sama tíma og þessi staða ríkir er verið að nauðga, leyfi ég mér að segja, í gegnum nefndir þingsins efnisbreytingum, varanlegum lagabreytingum sem jafnvel hafa ekkert erindi varðandi núverandi fjárlagafrv.

Einar K. Guðfinnsson 11. febrúar 1997 (Landsvirkjun): Hér hefði það tekist úr því að ekki var hægt að nauðga ríkinu til þess að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun að þá hefði a.m.k. tekist að búa til þarna samkomulag, eigendasamkomulag, um það að herja út arð af þessari miklu eign sem borgin hefði fjármagnað með eigandaframlagi sínu.

Hér er vísað í orð annarra - Jóhanna Sigurðardóttir, 20.12. 1997 (húsaleigubætur): Það er náttúrlega alveg ljóst af orðum hæstv. ráðherra áðan sem voru mjög hrokafull að honum leiðist mjög að ræða húsaleigubætur enda hafa húsaleigubætur aldrei verið áhugamál hans eða flokks hans þótt um sé að ræða kjarabætur til þeirra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Það er ekki oft sem maður hlustar í þessum ræðustól á iðrun ráðherra vegna fyrri gjörða. En hæstv. fjmrh. sagði það berum orðum að hann iðraðist þess að hafa átt hlut að þessari lagasetningu sem kemur þó fram í skýrslu sem liggur fyrir um framkvæmd húsaleigubóta að er ein besta kjarabótin sem láglaunafólk hefur fengið hin síðari ár. Hæstv. ráðherra orðaði það svo smekklega að hann sagði að ég hefði nauðgað málinu í gegnum ríkisstjórnina. Ja, hérna. En þessi nauðgun sem hæstv. ráðherra orðaði svo smekklega áðan hefur þó orðið til þess að skila því fólki sem verst er statt í þjóðfélaginu verulegum kjarabótum á umliðnum tveimur árum.

Friðrik Sophusson, þáv. fjármálaráðherra 14.4. 1998, (yfirskattanefnd): Virðulegi forseti. Þó að það teljist nú kannski hálfgerð nauðgun á þingsköpum að ræða þessi mál hér og nú vil ég samt nota tækifærið til að þakka hv. þm. fyrir þetta andsvar og svara því á þann veg að ég hef notið þess í mínu starfi sem fjmrh. og sem þingmaður að eiga samstarf við hv. þm. bæði sem samherja og andstæðing þannig að hvergi hefur skugga borið á.

Steingrímur J Sigfússon, 11. maí 1998 (Reglugerð um ÁTVR): Ég tel að þarna sé Sjálfstfl. að nauðga fram einkastefnu sinni í þessum málum

Einar Oddur Kristjánsson, 4. nóv 1999 (fjáraukalög): Við lögðum þá spurningu fyrir forstjóra Tryggingastofnunar hvernig á þessu gæti staðið. Ég gat ekki skilið, herra forseti, svar hans öðruvísi en þannig að það mætti frekar kalla þetta nauðgun en samninga.

Kristján Pálsson, 6. mars 2000 (starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka): Þannig má fylgjast með því að á kjörstað sé ekki verið að nauðga lýðræðinu með einum eða öðrum hætti, eins og sagt hefur verið. Þetta er sem sagt trygging fyrir lýðræðinu en ekki nauðgun á því eins og hv. þm. heldur og margir misskilja í rauninni hjá íslenskum stjórnmálaflokkum.

Guðjón A. Kristjánsson 14. maí 2001 (Kjaramál fiskimanna): Er nema von að menn séu ekki par hrifnir þegar fara á aðnauðga þeim yfir á svona viðmið eins og eru í kjarasamningi vélstjóra?

Guðjón A. Kristjánsson 12. desember 2001 (Krókaaflamarksbátar): ... ég að meiri hluti Alþingis sé að nauðga yfir atvinnugrein og fólkið sem þar starfar aðferðum sem fólkið vill ekki starfa við. Það er ekki hægt að nota neitt annað orð yfir það.

Kristján Pálsson, 9. apríl 2002, (húsnæðismál): Sveitarfélögin ganga að þessu samkomulagi. Þetta er ekki einleikur ríkisins. Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræði málið eins og hér sé um einhverja nauðgun upp á sveitarfélögin að ræða. Sveitarfélögin hafa samþykkt þetta og þau eru sátt við þessa niðurstöðu.

Sigurjón Þórðarson 17. maí 2004 (Sóknardagar báta, krókaflamark): Ég tel að hér sé verið að nauðga þessum bátum inn í kvótakerfið vegna þess að þeim eru settir ákveðnir afarkostir.

vísað í orð annarra - Árni M. Mathiesen 17. maí 2004 (Sóknardagar báta, krókaflamark): Með þessu frumvarpi er hvorki verið að þvinga né nauðga eða halda afarkostum að einum eða neinum.

Guðjón A. Kristjánsson 30. nóv. 2004 (Fjáraukalög): Það er náttúrlega forkastanlegt að við skyldum hafa verið að — ja, hvað eigum við að segja — nauðga listanum út úr stofnunum í gær.

Aths. Ekki er alltaf víst að efni máls sé rétt skráð. Ég fann dæmi þess að þingsályktunartillaga Kristínar Halldórsdóttur um könnun og rannsókn á meðferð nauðgunarmála er skráð sem „290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum.“

Efnisorð: , , ,