fimmtudagur, júlí 16, 2009

Stór dagur en ekki endilega góður

Þá er orðið ljóst að Íslendingar ganga til viðræðu við Evrópusambandið með það í huga að sækja um inngöngu, samþykki þjóðin niðurstöður aðildarviðræðnanna. Ég hef lítið sem ekkert fylgst með umræðum á þingi undanfarna daga, las mér bara til um þær í vefmiðlum og bloggum. Í dag horfði ég á atkvæðagreiðsluna — og atkvæðagreiðslur um breytingartillögur stjórnarandstæðinga um skilyrði og þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna.

Ég er ekki hlynnt inngöngu í ESB. Og ég er sammála því að aðildarviðræður eru dýrt ferli og að því ekki leyti tímabærar. Og ég myndi auðvitað vilja þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir öll stór mál. En þegar aðildarviðræðum er lokið þá verður kosið um það hér á landi, þannig að við fáum að kjósa um inngönguna þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir.

Við atkvæðagreiðslu á þingi nú í dag kom sama fólkið kemur aftur og aftur í pontu (Gvuðvminngóður ég brjálast yfir Birgi Ármannssyni). Það talaði um að „þjóðin“ eigi að fá að greiða atkvæði um stór mál. Fólk sem situr á þingi fyrir flokka sem báru stór og umdeild mál ekki undir þjóðina — og sumt þessa fólks sat á þingi þegar ákvarðanir um þessi mál voru teknar, þvert gegn vilja stórs hluta þjóðarinnar.

Inngangan í NATO
Hersetan
EES samningurinn
Kárahnjúkavirkjun


Fleiri mál, öll skipta þau máli.* Gerðu þá og gera enn. En núna, þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill fella ríkisstjórnina, þá alltíeinu skiptir það máli að þjóðin fái að kjósa áður en aðildarviðræður fara fram.** Bjarni Benediktsson formaður Sjálfsstæðisflokksins sagði það sjálfur, að sú tillaga að til þess að hægt verði að fara í aðildarviðræður væri vegna þess og til að hnykkja á því að ríkisstjórnin væri ekki einhuga í áhuga sínum á aðildarviðræðum.***

Helvítis Sjálfstæðisflokksfávitinn**** sem talaði um að lýðræðinu væri nauðgað ætti að skammast sín.

Ég óska Samfylkingarfólki og öðrum Evrópusambandssinnum til hamingju með daginn.

___
* Og ekki má gleyma að þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið (þ.e. lögin) þá átti að vísa málinu til þjóðarinnar. En Sjálfstæðisflokkurinn dró það til baka frekar en fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

**Engin önnur þjóð hefur haft þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumræður.

*** Bjarni Benediktsson hefur sjálfur ekki verið einhuga heldur skiptir reglulega um skoðun. Innan hans flokks vilja bisnessmenn fá Evruna og líklega flestir ganga í ESB en útgerðarmenn eru á móti bæði Evru og ESB.

**** Jón Gunnarsson um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Svo endurtók hann það þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um ESB atkvæðagreiðsluna. Og sér ekkert eftir því! (Silja Bára skrifaði líka um fíflið.)

Efnisorð: ,