sunnudagur, ágúst 02, 2009

Líklega löglegt. Siðlaust kemur málinu ekki við.

Voðalega æsir fólk sig yfir upplýsingum um lánveitingar Kaupþings. Mjög líklega varðaði ekkert af þessu við lög, ekki frekar en kúlulánin.

Það var nú eitt helsta afrek frjálshyggjupostulana, að afnema og breyta lögum þannig að þau væru sem hagstæðust þeim sem vildu græða sem mest með aðferðum sem öllu venjulegu fólki blöskrar. Viðskiptaráð skrifaði á blað hvernig lög ættu að vera og frjálshyggjuþingmennirnir komu þeim gegnum Alþingi. Allir kátir.

Þessvegna verður ekkert hægt að lögsækja helstu ræningjana, þá sem blóðmjólkuðu banka, tryggingafélög, lífeyrissjóði. Þeir eru að auki valdaðir af embættismönnum og öðrum dyggum þegnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarfloks og hægri arms Samfylkingarinnar, sem eru í öllum helstu stöðum (þ.m.t. skilanefndum bankana) þar sem þeir geta brugðið fæti fyrir rannsóknir og hugsanlega uppljóstrun á því sem kemur þeim illa. En þó þeim svíði kannski gagnrýnin, sleppur allt þetta lið við lögsóknir, hvað þá eignaupptöku og fangelsisdóma, sama hvað við hin heimtum.

Það var nefnilega aldrei spurt um siðferði. Rétt og rangt var ekki til. Bara hámarks gróði. Reglurnar miðast við það, þær snúast ekki um að hvort það sé réttlátt að örfáir einstaklingar — eða jafnvel allir þeir sem tengjast fjármálakerfi heillar þjóðar — megi skara svo eld að eigin köku að við hin þurfum að líða fyrir það.

Á öllum vefsíðum sé ég fólk koma með uppástungur um hvernig megi breyta og hvað eigi að gera. Endursemja um Icesave (og útlistað hvernig), fangelsa fjárglæframennina (jafnvel stungið uppá hvar eigi að vista þá), efla rannsóknir, skipta út fólki í embættum og skilanefndum og svo mætti lengi telja. En það skiptir engu með allar okkar góðu hugmyndir um hvernig á að ná fram réttlæti — réttlæti er ekki innbyggt í kerfið.

Lögfræðingum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Heilu skólarnir spruttu upp bara til að kenna lögfræði og viðskiptafræði (örfáar aðrar greinar hafa verið uppá punt) — þessir skólar hafa verið „nátengdir viðskiptalífinu“ og nemendurnir ýmist verið innmúraðir í stjórnmálaflokkana fyrir eða innvígðir í þá eftir að nám hófst. Þessir lögfræðingar — rétt eins og þeir sem áður þjónuðu Flokknum — eru ekki þjónar almennings, heldur útverðir og gæslumenn hagsmuna sem hafa ekkert með almenning að gera. Þessir lögfræðingar eru ekki og munu ekki — hvort sem þeir sitja í skilanefndum, rannsóknarnefndum eða eru á stofum sem hafa unnið fyrir fjármálageirann — neitt á leiðinni að fara að styðja kröfur almennings um afturvirk lög sem nái yfir bankaleynd, upptöku eigna eða fjármálagjörninga þá sem kollsigldu þjóðarskútunni.

Við, þessi almenningur, sem viljum réttlæti og einhverkonar siðferði. Ja, við getum alveg eins heimtað leiðréttingu á norðanáttinni.

Efnisorð: ,