sunnudagur, nóvember 07, 2010

Börn að ala upp börn

Fyrir sléttum tveimur mánuðum las ég hjá Parísardömunni vangaveltur um ungar mæður og fóstureyðingar (undir titlinum Börn að eiga börn)* sem spunnust útfrá bloggi nornarinnar Evu sem hefur greinlega ákveðnar en þó sjaldheyrðar skoðanir á málinu. Í stuttu máli þá virðist nornin á móti fóstureyðingum almennt en þó sérstaklega að ungar stúlkur séu hvattar til að fara í fóstureyðingu vegna aldurs síns.

Það er fjarri mér að þykja eðlilegt að neyða nokkra konu, hversu gömul eða ung hún er, til að gangast undir fóstureyðingu. Hinsvegar þykir mér nokkuð skiljanlegt að foreldrar unglingsstúlku reyni að hafa vit fyrir henni sé hún ekki sjálfs sín ráðandi. Börn eru ekki öll eins og sum þeirra hafa ekki nokkurn skilning á því í hverju það felst að eignast og ala upp barn, jafnvel þó þau séu öll af vilja gerð að takast á hendur það verkefni.** Sumar unglingsstelpur eru betri mæður og uppalendur heldur en margar fullorðnar konur sem þó teljast valda verkefninu með sæmilegum hætti. Þetta er semsagt talsvert einstaklingsbundið en reglan hlýtur þó að vera nokkurnvegin sú að það sé ekki frábært að leggja móðurhlutverkið á herðar einstaklingi sem ekki hefur náð fullorðinsaldri. Það er ekki bara vegna þess að það getur sett skólagöngu hinnar ungu móður í uppnám, ekki heldur eingöngu vegna þess að hún er meira bundin yfir barninu og getur ekki sinnt vinum sínum, félagslífinu almennt eða djamminu sérstaklega, heldur rænir það hana að einhverju leyti æskunni og því að fá að þroskast á eigin hraða án þess að þurfa að bera ábyrgð á öðrum.***

Hverjir eru svo þessir aðrir, sem börnin — unglingamæðurnar — eiga að bera ábyrgð á? Jú, það eru börn. Börn sem eiga skilið að fá hið besta mögulega atlæti. Þau eiga að fá athygli, umhyggju, hvatningu og stuðning sem hæfir aldri þeirra hverju sinni. Gegnum tanntökur og að læra að lesa. Til að takast á við þá sem leggja þau í einelti. Þau eiga skilið að vera í umsjá fólks sem getur tekist á við óþekkt þeirra án þess að missa stjórn á eigin skapi, sem getur leiðbeint þeim í stað þess að refsa. Þau eiga skilið að eiga foreldra — helst auðvitað tvo foreldra en sannarlega eitt foreldri sem alltaf er til staðar — sem er fyrirmynd þeirra í lífinu og er þroskaður einstaklingur sem getur kennt þeim að meta góða hluti og forðast þá slæmu. Rétt upp hönd sem dettur fyrst í hug unglingur á miðju gelguskeiði, fullur af mótsögnum, hormónum og djammlöngun, sem kandídat í að ala upp barn?

Hellingur af fullorðnu fólki ræður ekki við þetta verkefni.

Auðvitað hefur uppeldi barna á börnum oft heppnast vel. Ekki spurning. En börn eiga betra skilið en að þau séu sett í hendurnar á öðrum börnum. Það bíða fáar konur skaða af því að bíða með barneignir fram yfir tvítugt.**** Margar eru hinsvegar lengi að komast yfir það að hafa ekki „fengið að rasa út“ því móðurhlutverkið hindraði þær á margan hátt meðan jafnaldrar þeirra voru enn frí og frjáls. Sama á við um að hafa ekki náð að mennta sig eða ferðast eins og hugurinn stóð til.

Enn verra er þó að mínu mati þegar mæðurnar ungu láta ekki afkvæmi stoppa sig í að taka þátt í skemmtanalífinu sem einkennist, eins og víðfrægt er, af taumlausri drykkju sem stendur yfir þar til dagur rís á ný — eða lengur. Börnunum er þá komið fyrir hjá ættingjum eða einhver enn yngri stelpa fengin til að passa og svo eru þau ekki litin augum fyrr en daginn eftir og er þá móðirin ekki endilega í því ástandi að geta sinnt litlu barni og öllum þörfum þess sem settar eru fram með mismunandi háværum hætti. Það einskorðast auðvitað ekki við ungar mæður heldur foreldra á ýmsum aldri, að láta drykkju og djamm hafa forgang fram yfir börnin sín og bjóða þeim uppá fyllerí á heimilinu, með tilheyrandi uppákomum sem meira og minna eru allar ógnandi í augum barna, og svo er restinni af helginni eytt í pirring og máttleysi þynnkunnar.*****

Um allan bæ situr fólk á fundum hjá sjálfshjálparhópum og á skrifstofum sálfræðinga og segir frá uppvexti sínum á heimilum þar sem móðirin eða faðirinn eða bæði stunduðu óhóflega drykkju. Ég hef aldrei hitt eða heyrt um nokkra manneskju sem segir að það hafi ekki haft áhrif á barnæsku sína, og þau áhrif eru alltaf neikvæð. Heimapartíin, ofbeldið sem hið drukkna foreldri beitir (andlegt, tilfinningalegt, líkamlegt eða kynferðislegt), þynnkumórallinn og skapsveiflurnar; þetta gerir líf barnsins oftar en ekki óbærilegt. Sumt af þessum börnum, sem eyðir stórum hluta fullorðinsáranna í að græða sárin með hjálp jafningja eða fagaðila, ólst upp hjá ungum mæðrum sem voru bara að „skemmta sér“. Þær vissu líklega ekki betur, en það bitnaði jafnt á börnunum fyrir því.

Ég ítreka að mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.

___
* Ég ákvað strax að skrifa pistil eftir að hafa lesið blogg Parísardömunnar en sá framá að ég myndi ekki getað sagt allt sem ég vildi sagt hafa um þetta mál nema í löngu máli — eða mörgum pistlum. Munu þeir birtast á næstunni. Í þeim og vonandi hér reyni ég að haga orðum mínum þannig að ekki verði hægt að álykta að ég hati ungar mæður eða hafi persónulega reynslu af því að vera ung móðir eða vera alin upp af ungri móður.

** Hollenskir foreldrar 14 ára stúlku treysta henni til að sigla einsamalli kringum hnöttinn og sjálf telur hún sig fullfæra um það. Barnaverndaryfirvöld gripu í taumana en fyrir rest var stelpunni leyft þessi háskaför, en hvort sem það var nú gæfulegt eða ekki þá segir það ekkert til um að öll fjórtán ára börn séu fær um að takast á við annað eins og þessvegna urðu utanaðkomandi fullorðnir aðilar að grípa inní og vega og meta málið, alveg burtséð frá því hvað stelpan vildi sjálf.

*** Ég veit vel að fullt af unglingum lenda í því að þurfa að taka ábyrgð á öðrum þó ekki sé um eigin barneignir að ræða; foreldrum sínum séu þeir ekki heilir heilsu, systkinum sínum séu foreldrarnir vanheilir eða of uppteknir og þurfa þeir þá að taka á sig hlutverk hins fullorðna. Líka lenda því miður sum börn og unglingar í því að vera rænd æskunni á annan hátt; en þá erum við öll sammála um að það sé afar slæmt.

**** Eins og ég hef áður sagt: „Þó fóstureyðingar séu nauðsynlegur valkostur ef til getnaðar kemur þá er auðvitað mun betra að geta komið í veg fyrir getnað þegar barneignir eru ekki á dagskrá.“

***** Þegar fólk sem er jafnvel orðið þrítugt eða farið að halla í fertugt hegðar sér ítrekað svona, þá er það kallað alkahólismi og allir samþykkja að það sé vandamál. En þegar krakkar undir tvítugu hegða sér svona er það kallað að rasa út og „það gera þetta allir“, með öðrum orðum: þetta er álitið eðlilegt ástand því íslensk drykkjumenning er svona og allir yfir fermingu taka þátt í henni og þarafleiðandi eru margir þeirrar skoðunar að þetta sé normal. Hvaða skoðun sem fólk hefur á því þá eru þetta ekki normal aðstæður fyrir börn að alast upp við.

Efnisorð: ,