laugardagur, október 16, 2010

Karlmenn sem taka ábyrgð á frjósemi sinni

Það er ánægjulegt að komast að því að æ fleiri karlmenn fara nú í ófrjósemisaðgerðir. Allt of mikið er um að konur sem eru í föstu sambandi séu árum og jafnvel áratugum saman að taka hormónalyfið sem kallað er pillan, jafnvel löngu eftir að algerlega er ljóst að ekki stendur til að eignast (fleiri) börn. Margar konur hafa reyndar sjálfar farið í ófrjósemisaðgerðir til þess að losna við að að taka pilluna — því aukaverkanir hennar eru oft talsverðar — en sú aðgerð er talsvert mikið inngrip, krefst svæfingar og þess að farið sé inní kviðarhol konunnar sem aftur getur leitt til sýkinga en þarfyrirutan er auðvitað meira en að segja það að jafna sig eftir skurðaðgerð.

Fyrir karlmenn er ófrjósemisaðgerðin mun minna mál, þó líklega sé hún ekki þægileg frekar en aðrar aðgerðir hvorki meðan á henni stendur né fyrst á eftir. (Aðgerðinni er nokkuð nákvæmlega lýst í Fréttablaðinu).

Ekki eru gefnar upp nákvæmar tölur í blaðagreininni en þó má þar sjá að árið 1995 fóru rúmlega 500 konur í ófrjósemisaðgerðir (en þá fóru innan við 100 karlmenn í slíka aðgerð) og urðu flestar rúmlega 600 árið 1997. Tala þeirra karlmanna sem fóru í aðgerð hefur farið hækkandi og árið 2005 var fyrsta árið sem fleiri karlar en konur fóru í aðgerð; í fyrra voru konurnar á annað hundrað en karlarnir 358. Ekki er gerður greinarmunur á fólki eftir aldri eða hjúskaparstöðu í súluriti blaðsins en fólk mætti sannarlega gera meira af því að fara í ófrjósemisaðgerðir fyrr á lífsleiðinni* heldur en eignast börn sem það langar ekkert í eða hefur ekki burði til að ala upp, bara til þess að falla að samfélagsnorminu.

En hvort sem fólk tekur þessa ákvörðun seint eða snemma á ævinni þá eru það góð tíðindi að til sé nokkur fjöldi karlmanna sem ekki varpar allri ábyrgð á frjósemi sinni yfir á konur.

Karlmenn sem taka ábyrgð er málið.

___
* Flestir þeirra karlmanna sem fara í ófrjósemisaðgerð eru eldri en 35 ára. Til þess að mega fara í slíka aðgerð þarf viðkomandi karl eða kona að vera 25 ára, en engin aldurstakmörk eru til þess að eignast börn, enda þótt sú ákvörðun hafi ekki síður áhrif á allt líf viðkomandi til frambúðar.

Efnisorð: ,