föstudagur, september 17, 2010

Rannsóknir sem sanna eiga að konur fíli klám

Stundum, þegar klámfíklar reyna að verja áhugamál sitt, benda þeir á rannsóknir sem gerðar hafa verið og eiga að sýna fram á að konur örvist líka kynferðislega af því að horfa á klám, ekki síður en karlar. Sönnunin fyrir því á að vera sú að þegar konum eru sýndar klámmyndir (eða eins og það heitir yfirleitt í niðurstöðunum „fólk að stunda kynlíf“) þá aukist vökvaframleiðsla í kynfærum kvennanna sem horfa. Með öðrum orðum, þær blotna.

Ég veit nú svosem ekki mikið um þessar rannsóknir enda yfirleitt vísað til niðursoðinna frétta af þeim en ekki talað um hvar þær eru framkvæmdar, hve margir þátttakendur voru eða þvíumlíkt. En þó hef ég mínar efasemdir eftir að hafa lesið einhverstaðar grein (sem ég er búin að týna) sem varpaði nýju ljósi á svona rannsóknir.

Í fyrsta lagi eru flestar þessara rannsókna gerðar við háskóla af háskólanemum á ýmsum stigum og eru hvorki meira né minna áreiðanlegar en hverjar aðrar skólaritgerðir. Í öðru lagi eru þátttakendur oftar en ekki aðrir háskólanemar (og ekki komast allir í háskóla vegna efnahagsaðstæðna). Á Íslandi fer fólk yfirleitt ekki í háskóla fyrr en uppúr tvítugu, margir mun seinna. En tildæmis í Bandaríkjunum, hvar margar þessar rannsóknir eru gerðar, byrjar fólk allajafna nám í háskóla 18 ára gamalt og meðalaldur nemenda er 25 ára.* Það eru semsagt flestir ef ekki allir þátttakendur ungir að árum, sumir jafnvel enn unglingar — og unglingar eru þekktir fyrir hormónaflæði sem þeir hafa litla stjórn á.**

Það eru ekki allir nemendur skólans sem taka þátt í svona rannsóknum, þær eru ekki skylda heldur byggja á sjálfboðaliðum. Hangi nú uppi auglýsing á tilkynningatöflum og birtist á heimasíðu skólans um að fólki sé boðið að taka þátt í tilraun sem fjalli um kynlíf á einhvern hátt (í auglýsingum sem þessum er eflaust misjafnt hversu ítarlega er útskýrt hvað til stendur að rannsaka, svona til að fólk sé ekki búið að æfa sig í svörum eða viðbrögðunum sem rannsaka á), hvaða nemendur eru líklegir til að vilja taka þátt og hvaða nemendur munu ekki fást til þess?

Nemendur sem nokkuð öruggt er að munu ekki bjóða sig fram í rannsóknir um viðhorf eða hegðun gagnvart klámi eða kynlífi yfirleitt:
— Meðlimir ýmissa trúarhópa sem leggja áherslu á skírlífi
— Fólk sem hefur ekki áhuga á að deila skoðunum sínum eða reynslu af kynlífi og klámi með öðrum
— Fólk sem hefur ekki áhuga eða geð á að horfa á klámmyndir (hafi það verið tekið fram í auglýsingunni)
— Konur (og jafnvel karlmenn) sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi, sérstaklega hafi það átt sér stað í æsku
— Konur sem aldrei hafa haft samfarir og eru þarafleiðandi með órofið meyjarhaft


Af þessum hópum sem ég tel hér upp gæti svosem verið að einhver vildi taka þátt í rannsókninni en líklegt er þá að það renni tvær grímur á a.m.k. konur í tveimur síðastöldu hópunum þegar þeim er gert ljóst að í rannsókninni felist að þær þurfi að hafa skynjara í kynfærunum sem nemi vökvaframleiðsluna. Ég á bágt með að ímynda mér að konur sem hafa slæma reynslu eða enga af kynlífi með öðrum séu til í að (láta) pota skynjara í klofið á sér í þágu vísindanna.

Hvaða nemendur eru það þá sem myndu vilja taka þátt?
— Margir svosem en aðallega þeir/þær sem hafa fyrirfram afar jákvæða afstöðu til að tjá sig um kynlíf sitt við ókunnugt fólk (þarmeðtalið fólk sem þykir gaman að gorta sig af kynlífsreynslu sinni), finnst klám í lagi eða hefur ekkert á móti því, finnst fyndið að taka þátt í tilraunum þar sem skynjarar á kynfærum koma við sögu og þeir/þær sem finnst góð tilhugsunin um að horfa á klámmyndir undir því yfirskini að um vísindi sé að ræða.
Í háskólasamfélagi þarsem (auk námsins) allt gengur útá djamm og hjásofelsi, að upplifa að „þetta er besti tími ævinnar“ þá eru margir nemendur eflaust tilbúnir/tilbúnar í að taka þátt í slíkum rannsóknum, rétt eins og hverju öðru ævintýri sem tilheyri þessu skeiði ævinnar.

Þannig að útkoman er eiginlega fyrirfram gefin. Fólk/ungar konur sem taka þátt er það sem er fyrirfram jákvætt og er því líklegt til að gefa jákvæða svörun við spurningum eða áreiti. Hitt fólkið — ungu konurnar sem ekki kæra sig um að taka þátt — eru ekki þátttakendur í rannsókninni og því eru niðurstöðurnar skakkar hvað varðar almenna upplifun kvenna af því að horfa á „fólk að stunda kynlíf“.

Og þó svo væri að niðurstöðurnar, sem sýna eiga og sanna að konur örvist líkamlega við að horfa á klám, væru kórréttar? Þaðeraðsegja að þær ungu konur sem taka þátt í rannsókninni séu fulltrúar allra kvenna, hvað segir það okkur í rauninni?

Ef gerð væri rannsókn þarsem í ljós kæmi að hjá flestu fólki aukist munnvatnsframleiðsla þegar það horfi á leikna mynd um mannát á Borneó — þýðir það þá að fólki almennt þyki mannát ásættanlegt, réttlætanlegt, eftirsóknarvert og myndi í rauninni hiklaust taka þátt í því ætti það þess kost?

Ætli flestir sem yrðu varir við að munnvatnsframleiðsla sín ykist myndu ekki eftir augnablik muna að þeir eru partur af siðmenntuðu samfélagi sem hefur fyrir löngu áttað sig á að sum hegðun á bara engan vegin við og er vondur farvegur til að fá löngunum sínum eða þörfum fullnægt. Nefnilega vegna þess að við búum í samfélagi, þar sem við lítum ekki á meðborgara okkar sem kjötstykki sem bara bíði eftir að við hrifsum til okkar bita.

Nema auðvitað þau okkar sem beinlínis líta á meðborgara sína sem kjötstykki sem hafa þann eina tilgang að uppfylla þarfir annarra …

Ég er ekki að segja að rannsóknir sem sýna eigi fram á kynferðislega örvun kvenna þegar þær horfa á klám séu alveg ónýtar og marklausar*** (til þess að komast að þeirri niðurstöðu þyrfti ég að leggjast í rannsóknarvinnu sem ég mun ekki gefa mér tíma til), en ég hef samt varann á að trúa hverju orði sem þar kemur fram því mér finnst, eins og af framansögðu má vera ljóst, ýmislegt vafasamt við rannsóknirnar og leyfi mér því að setja spurningarmerki við áreiðanleika þeirra.
___
* Mig grunar að allmargar rannsóknir sem rata svo í fjölmiðla séu gerðar meðal bandarískra háskólastúdenta, rannsóknir sem eiga að sýna hvað sé eðlilegt mannlegt atferli. Réttupphönd sem telja bandaríska háskólastúdenta gott dæmi um skoðanir, atferli og langanir mannkynsins!
** Ég leyfi mér að fullyrða að meðal þátttakenda séu tildæmis ekki konur sem eru að ganga eða hafa þegar gengið gegnum breytingarskeiðið.
*** Margar rannsóknir eru líka gerðar um mismun á kynjunum og kannski má skoða þær líka útfrá þessum efasemdum mínum, þ.e. hvaða fólk er líklegt að taki þátt í rannsóknunum en ekki síður: hvað eiga svona rannsóknir að sanna og fyrir hvern eru þær gerðar? Flestar virðast nefnilega eingöngu til þess fallnar að styrkja fyrirframgefnar skoðanir karlveldisins um hlutverk kvenna.

Efnisorð: