mánudagur, ágúst 23, 2010

Bara til að vera viss

Þegar ég átti erindi í stóreflis byggingu við Borgartún nýlega sá ég að þar er einnig Lögfræðistofa Reykjavíkur til húsa. Meðan ég beið eftir lyftunni velti ég fyrir mér hvað ég myndi til bragðs taka ef ég mætti Sveini Andra Sveinssyni, yrði honum jafnvel samferða í lyftunni. Það setti að mér ugg en ég þóttist viss um að til öryggis yrði ég að æpa hátt og snjallt — og helst hafa að því vitni — að ég vildi ekki kynlíf með honum. Kannski bæta við nokkrum „Nei, nei, nei!“ svona til að koma boðunum til skila.

Ekki að ég haldi að Sveinn Andri sé líklegur til að nauðga konum, slíkt dettur mér auðvitað aldrei í hug um nokkurn karlmann, en miðað við hvernig hann tók til varna fyrir Hótel Sögu nauðgarann* um árið þá virðist ljóst Sveinn Andri telur að kona sem er samferða karlmanni nokkurn spöl, niður stiga (eða í lyftu?) er þarmeð búin að gefa út þau skilaboð að hann megi vaða inn í líkama hennar við fyrsta tækifæri — nema hún taki annað fram.

Þessvegna ætlaði ég að æpa á Svein Andra.

___
* Fyrir lesendur sem eru óvanir að lesa þetta blogg eða skilja ekki óbeit mína á þessum tiltekna lögmanni bendi ég á gamla bloggfærslu hans sjálfs um Hótel Sögu nauðgunina, en hann stofnaði bloggsíðu til að „taka upp hanskann“ fyrir nauðgarann.
Fjölmargar fréttir og bloggfærslur má lesa um Hótel Sögu nauðgunina (margar frá því að nauðgarinn var sýknaður í héraðsdómi og svo líka þegar hann var lýstur sekur í Hæstarétti og flýði land í kjölfarið) og ég valdi þá sem kom fyrst upp í Google til að vísa á, þar kemur líka ýmislegt fróðlegt fram í athugasemdakerfinu, til dæmis eru ræddar svipaðar aðfarir Jóns Steinars Gunnlaugssonar við að verja nauðgara í fjölmiðlum. Sjálf skrifaði ég bloggfærslur um þetta mál (og lýsti forvarnar-öskrinu) en Hótel Sögu nauðgunin varð Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur kveikjan að bókinni Á mannamáli.

Efnisorð: