mánudagur, ágúst 16, 2010

Þýðingarmistök

Í síðustu færslu fjallaði ég um auglýsingu og þau sem fylgdu tenglinum og skoðuðu auglýsinguna sáu e.t.v. konu leggja nafn sitt við snyrtivöruna sem um ræddi. Þessi kona er ólíklegur bandamaður minn en þó fór það svo þegar ég las bloggið hennar nýlega að ég var afar sammála henni (í nákvæmlega einni færslu, ekki öllum hinum!) um orðskrípið sem notað er um kynfæri kvenna.

Fyrir nokkrum árum var leikrit Evu Ensler The Vagina Monologues þýtt á íslensku og hefur síðan verið sýnt árlega á vegum V-dags samtakanna. Ég hef séð þetta verk tvisvar, þaraf var ég dregin í seinna skiptið af konu sem sótti það fast að ég kæmi með sér. Mig langaði ekkert sérstaklega að sjá verkið aftur, það var áhrifamikið að sjá það einu sinni en það var sumt sem truflaði mig gríðarlega og olli því hrifning mín var takmörkuð. Og það var semsagt orðið „píka“.

Verk Evu Ensler fjallar um kynferðisofbeldi gegn konum, kynfræðslu, kynlífsreynslu, skömm, ótta, gleði og ástríður, svo eitthvað sé nefnt. En líka um nöfnin sem skellt hefur verið á kynfæri kvenna. Á ensku eru nánast öll algengustu nöfnin skammaryrði og það sama á við um íslensku. Það er að segja, þegar talað er illa um konu eða hreytt ónotum í hana er oft skellt saman við heiti á kynfærum hennar: „helvítis píkan“ eða „helvítis tussan þín“. Ég lýsi eftir fólki sem ekki hefur heyrt þessi tvö orð notuð í þessu samhengi.

Á ensku er semsagt það sama uppi, þar eru önnur orð sömu merkingar notuð. En í ensku máli er til orðið „vagina“ sem þýðir leggöng og það orð valdi Eva Ensler sem nafn yfir kynfæri kvenna almennt (bæði ytri og innri kynfæri þó leggöng sjáist yfirleitt ekki nema við sérstakar aðstæður). Það orð er líka sárameinlaust frá upphafi; það hefur aldrei tíðkast að öskra á neina konu „you damned vagina!“ En íslenski þýðandinn valdi orðið píka og þó hefur píka haft neikvæða tengingu afar lengi* og hefur verið notað í niðrandi merkingu.**

Framað því að ég sá Píkusögur á sviði hafði ég aldrei heyrt þetta orð nema sem skammaryrði og til að níða niður einhverja konu. Ég sat því nánast stjörf þegar ég áttaði mig á því að héreftir væri mér og öðrum konum ætlað að tala um þessa annars ágætu uppsprettu ánægju þessu ónefni og heyra alltaf „helvítis pí ...“ glymja fyrir eyrunum á okkur á meðan.

Ekki hefur slík notkun orðsins minnkað svo ég viti til; ég heyri iðulega bæði karla og konur nota orðið í niðrandi skyni og gnísti þá tönnum og reyni svo að fá þau til að vinsamlega gera upp við sig hvort þau vilji að þetta orð sé skammaryrði eða nothæft um kynfæri kvenna. Þetta hefur auðvitað ekkert verið vinsælt tuð og ég var farin að halda að ég væri ein á báti með þessa skoðun mína — eða þar mér barst liðsstyrkur úr óvæntri átt. Á blogginu hennar Tobbu Marínós las ég semsagt samhljóm með skoðunum mínum, þó ekki væri nema um þetta atriði.***

Ég hef lengi ætlað að skrifa um vandræði mín með að samþykkja notkun orðsins píka og var með Tobbu-bloggið bakvið eyrað þegar svo kom upp málið með tölvupóst náungans sem er í vinnu hjá menntamálaráðuneytinu. Þá blöskraði mér endanlega. Ekki bara yfir ömurlegu orðbragðinu sem er honum til skammar og ömurlegt að menn láti sér svona um munn fara í vinnutengdum pósti, heldur ekki síður umræðunum í kjölfarið á bloggum og athugasemdakerfum. Nánast hver einasti karlmaður náði að setja orðið tussa inní bloggfærslur um hin aðskiljanlegustu málefni og virtust skemmta sér hið besta við að hafa nú fengið „leyfi“ til að nota þetta niðrandi orð um kynfæri kvenna hvar og hvenær sem er. Síðan Píkusögur voru fyrst settar á fjalirnar hér á landi hefur orðið píka fengið þessa sömu stöðu í huga karlmanna; þeir sletta þessu orði hvar og hvenær sem er. Nú geta þeir sagt píka og tussa til skiptis, alsælir. Á sama tíma eru konur að berjast við að reyna að nota þetta orð sem ýmist er notað í gríni, þegar þær eru skammaðar eða þegar talað er illa um konur; þetta orð eiga þær sjálfar að nota af virðingu um sína viðkvæmustu líkamsparta. Það er erfitt þegar níðið er enn til staðar.

Til eru vefsíður þar sem fjallað er um þýðingarmistök. Þar ætti þýðingin á leikritinu The Vagina Monologues að vera skráð vegna orðsins píka.

____
* Ég veit vel að upphaflega var það notað um stúlkur, sbr. pike á norsku og pige á dönsku. En sú notkun nafnsins hafði löngu lagst af fyrir mína tíð en hin er ríkjandi enn.
** Þetta er sambærilegt og ef Eve Ensler hefði ákveðið að velja orðið „pussy“ sem jákvæða orðið yfir kynfæri kvenna.
** Í einu skynsamlegu athugasemdinni við bloggfærslu Tobbu er bent á að Þórdís Elva hafi skrifað um nafngiftir á kynfærum kvenna í bók sinni Á mannamáli. Þá rifjaðist auðvitað upp fyrir mér að það var enn eitt skiptið sem ég ætlaði að skrifa um þetta og jafnframt að Þórdís Elva virðist sammála mér um þetta líka. Við erum semsagt þrjár um þessa skoðun.

Viðbót eftir lestur Fréttablaðsins: Pistill Gerðar Kristnýjar byrjar í dag á orðunum: „Eitt er það uræðuefni sem undarlega oft virðist brenna á konum en það er hvaða nafni beri að nefna kynfæri þeirra.“ Orð í tíma töluð!

Efnisorð: , ,