mánudagur, júlí 12, 2010

Hundar og kettir á bannlista lítilmenna

Mér hefur fundist það skrítinn siður hjá mörgu fólki, að hlaupa með smávægileg vandræði sín og önnur einkamál í fjölmiðla. Bæði vegna þess að mér finnst mér ekki koma við þó einhver klippi eða klippi ekki tré sem slúta yfir í garð nágrannans og svo finnst mér að fólk eigi að geta leyst sín mál (eða staðið í sínu einkastríði við ættingja, nágranna, vinnuveitendur o.s.frv.) án þess að þurfa að kalla til fjölmiðla. Ég veit ekki hvort þetta fólk er svona athyglissjúkt eða hvort það heldur að vitneskja almennings um þessi mál verði til að breyta úrslitum þeirra.

Nú er ég afturámóti búin að skipta algerlega um skoðun.

Mér finnst fullkomlega réttmætt að almenningur sé látinn fylgjast með því að einhver lítilmenni séu að reyna að koma í veg fyrir að fötluð kona fái að hafa leiðsöguhundinn sinn hjá sér. Líklega er það vegna þess að fjölmiðlar voru látnir vita sem málið er þó komið á það stig að húsfund átti að halda í kvöld um málið og reyna að tala þessar tvær hræður til sem ekki vilja hund í húsið. Ef svo fer að hundahatararnir* gefa eftir og leyfa hundinn, þá er það líklega fyrst og fremst vegna samfélagslegs þrýstings og vegna þess að þeir hafa áttað sig á að öllu venjulega innrættu fólki finnst afstaða þeirra óafsakanleg og þeir verði að endurskoða hana. Eitthvað hefur farið úrskeiðis í uppeldi þessa fólks úrþví að það hefur tileinkað sér svona mannfjandsamlegt viðhorf og nú þarf greinilega samfélagið til að beina þeim á rétta braut.

Það þyrfti líka að hnippa í sveitastjórnarfulltrúa í Árborg og Kópavogi þar sem þeir eru greinilega orðnir svo firrtir að þeir halda að hægt sé að venja alla ketti — unga kettlinga sem roskna ketti sem alltaf hafa farið eigin leiðir — á að hreyfa sig einungis utandyra bundnir í ól.

Látum nú vera að verið sé að hlaupa eftir steinsteypufólkinu í Kársnesinu en eru íbúar Árborgar ekki í betri tengslum við sveitina allt í kring um sig en svo að þeir vita ekkert um dýr? Það er hrein illmennska að láta dýr sem alla tíð hefur verið frjálst alltíeinu skýringarlaust vera lokað inni megnið af sólarhringnum og fá aðeins að fara út í bandi. Mega ekki lengur klifra uppí tré eða sitja langtímum saman í góðu skjóli og fylgjast með mannlífi og kattaferðum. Að banna útigöngu katta sem alla sína ævi hafa vanist útiveru með frjálsri aðferð er eins og að loka dýr, sem fæðst hefur í náttúrunni, inni í dýragarði. Það þykir ekki lengur góð meðferð á dýrum, hafi það ekki frést hingað upp á þetta sker.

___
* Það getur auðvitað verið að nýju nágrannar daufblindu konunnar hati ekki hunda en séu annaðhvort haldnir ofsahræðslu eða bráðu ofnæmi — en andskotinn hafi það, þeir hljóta að geta reynt að þrauka þegar um leiðsöguhund er að ræða.

Efnisorð: ,