sunnudagur, júlí 04, 2010

Konur halda hagkerfinu gangandi með gloss á vör

Fyrirsögnin „Hvað kostar útlitið?“ á forsíðu Eyjunnar vakti athygli mína og þegar smellt var á fyrirsögnina lenti lesandi á síðu frá Íslandsbanka. Þó ég sé mér afar meðvituð um að „bankanum þínum er sama um þig“ og að eftir bankahrunið eru bankarnir komnir í „nú skulum við fara vel með aurana okkar“ gírinn (sem er líka voða vinalegur en byggður á sama ímyndarsmíðamódeli og „við hjálpum þér að græða rosalega“ auglýsingarnar áður) þá ákvað ég nú samt að lesa pistilinn til enda. Í honum er búið að sundurliða kostnaðinn við að „halda okkur glæsilegum“, þ.e.a.s. hve mikið það kostar að kaupa snyrtivörur og þjónustu snyrtistofa, nuddstofa og hársnyrtistofa. Þegar þeim hrollvekjandi lestri er lokið eru talin upp ráð til að spara. Þau felast í að kaupa tól og tæki (plokkara, naglaklippur) og gera sem mest af þessu sjálfar heima. Skilaboðin eru semsé þessi: „Margt er hægt að gera sjálf til að halda sér glæsilegri án þess að stíga inn á stofur til fagaðila.

Það eina sem samkvæmt pistlahöfundi er alger óþarfi, er að fara í brúnkumeðferð. „Að mínu mati er það algjörlega óþarfur kostnaðarliður... Ég mæli með íslensku sumarsólinni með góðri sólarvörn og að vera sátt við hvítan húðlit á veturna. Þá heyrir þessi kostnaðarliður sögunni til.“ Allt annað virðist nauðsynlegt, jafnvel álímdar gervineglur (sem á fullu verði kosta 81.500 kr. á ári).

Ég vil ekki gera lítið úr puntþörfinni, en ég dreg samt í efa að hún sé svo mögnuð að ekki dugi að vera með greitt hárið í hreinum fötum. Okkur hefur hinsvegar verið talin trú um að allt hitt sé nauðsynlegt líka. Samt voru gelneglur ekki til fyrr en fyrir nokkrum árum, fram að því hafði mannkynið fjölgað sér án þeirra, og margar konur náð hárri elli og lifað sáttar með neglurnar óáreittar nema af handþvottum (í mesta lagi).

Snyrtivöruiðnaðurinn er mikið bákn sem lifir á því að selja konum vörur — og ekki síst að selja konum þá hugmynd að án snyrtivara séu þær óaðlaðandi, sem þýðir auðvitað um leið að enginn almennilegur maður vill þær, þær eignast ekki börn, þær eru útskúfaðar úr vinkvennahópnum (lík börn leika best) og fá hvergi vinnu. Þegar þetta er sett svona upp þá virkar það auðvitað hlægilegt; auðvitað höldum við ekkert að við fáum ekki vinnu eða göngum ekki út ef við eignumst ekki nýjasta varalitinn!* En skilaboð snyrtivöruiðnaðarins eru lúmskari en svo að við sjáum við þeim.

Það er vandfundin sú kona sem les tískutímarit (að staðaldri eða örsjaldan) sem ekki sér eitthvað sem hún vildi gjarnan eignast eða veltir fyrir sér hvort hún myndi líta betur út eða líða betur með útlit sitt ef hún notaði svona háreyðingartæki/ maskara/ meik/ ilmvatn, eða hvað það nú er. Fyrirsæturnar eru auðvitað allar fullkomnar í útliti og sé fræg kona á forsíðunni (það eru alltaf frægar konur á forsíðunni) þá er vandlega talið upp hvaða snyrtivörur hún notar; stundum er hún reyndar „andlit“ einhvers snyrtivörufyrirtækisins. Það rifjast svo upp fyrir okkur næst þegar við sjáum hana í bíómynd eða í sjónvarpsþætti og þegar fréttum af ástarlífi hennar er slegið upp í fjölmiðlum. Allt styður þetta hvert við annað og nánast engin leið að forðast þessar ofursnyrtu konur, jafnvel þó kona sé ekki áskrifandi að Vogue.

Það er því ágætt að sjá, sundurliðað, hve mikið það kostar að hlaupa á eftir þessum auglýsingum og kaupa sér það sem til þarf, og láta framkvæma eitthvað af fegrunarnauðsynjunum á þar til gerðum stofum. Allt í allt um hálf milljón á ári.** Þar sem konur hafa ekki full laun á við karla þá eru þær að nota hlutfallslega mjög mikinn hluta launa sinna í snyrtivörur og þessháttar (karlmenn nota minna af snyrtivörum og hafa hærri laun) þannig að það fé sem konur hafa til ráðstöfunar eftir að hafa eytt í þessar 'nauðsynjar' er mun minna en ráðstöfunartekjur karla. Snyrtivöruiðnaðurinn veikir því fjárhagslega stöðu kvenna. Um þetta fjallaði Bríet, félag ungra feminista, í Galtroppu sem kom út árið 2000. Þann bækling finn ég hvergi hjá mér (er þó viss um að ég átti hann einhverntímann) en í VERU 2:2000 er birt mynd úr honum þar sem útlit uppástrílaðrar konu er verðlagt á svipaðan hátt og í Íslandsbankapistlinum. Þar kemur í ljós að á verðlagi ársins 2000 kostar „náttúruleg fegurð íslenskra kvenna“ eins og hún sést á myndinni 187.600 kr. — að meðtaldri silikon aðgerðinni. Bríet hafði meira um þetta að segja í Galtroppu, ekkert af því hljómaði eins og niðurlag Íslandsbankapistilsins: „Munið, að það að halda útlitinu við er stöðug vinna og maður uppsker það sem maður sáir.“

___

* Einu sinni skrifaði ég pistil þar sem ég setti spurningarmerki við að konur tækju upp hegðun karla; drykkju ótæpilega, keyrðu stóra bíla, svæfu hjá mörgum o.s.frv. Ég sagði þar að það væri ekki þar með sagt að ég fordæmdi þessa hegðun hjá konum, heldur finnst mér að konur þurfi að hugsa sinn gang og átta sig á hverjum hegðun þeirra þjónaði, og hvenær hún gengi gegn þeirra eigin hagsmunum. Sama á við um að kaupa allar þessar snyrtivörur — sem gera ekki annað en styrkja snyrtivöruiðnaðinn sem svarar með því að grafa endalaust undan sjálfstrausti kvenna jafnframt því að eyða of miklu fé af því sem betur væri varið í annað. Og ég vil ítreka það sem ég skrifaði þar í neðanmálsgrein: Sumt af þessu finnst mér sjálfsagt. Annað hef ég gert eða geri en set þó spurningarmerki við hversu jákvætt það sé fyrir kvennabaráttuna í heild.

Efnisorð: