þriðjudagur, júní 22, 2010

Fóstureyðingar í friði fyrir bænakvaki

Um þetta leyti í júní á gósenárinu 2007 skrifaði ég mikinn bálk um fóstureyðingar. Allt bar þar að sama brunni: ég er hlynnt rétti kvenna til fóstureyðinga hverjar svo sem aðstæður þeirra eru, ástæður sem þær hafa fyrir að vilja ekki ala barn eða hversu oft þær hafa gengið gegnum slíka aðgerð áður.

Ég minntist þá eitthvað á kaþólikka og ofsatrúarmenn sem hamra á því að fóstureyðing sé synd og segja að allar konur fái hræðilegt samviskubit fari þær í slíka aðgerð — samviskubit sem þeir sjá um að planta í konurnar með endalausum áróðri sínum. Ofsatrúarmenn í Bandaríkjunum stunda að auki að fjölmenna við læknastofur þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar og gera þá hróp að konum sem þangað sækja og svo veifa þeir skiltum með fordæmingum og yfirlýsingum um að guð elski öll börn (þar til þau verða fullorðin og verða óvart barnshafandi).

Nú hafa íslenskir ofsatrúarmenn tekið upp þennan sið. Þeir virka reyndar afar meinleysislegir, standa bara og biðja á Landspítalalóðinni, beint fyrir framan innganginn að kvennadeildinni að sjálfsögðu.* Þeir tilheyra félagsskapnum Lífsvernd, sem er eitthvað kaþólskt fyrirbæri. Jafnframt bænastundinni við kvennadeildinni birta þeir auglýsingu (sem ég held að birtist daglega) í Fréttablaðinu og e.t.v. víðar, þar sem frasinn: Konur eiga betra skilið en þetta! er látið vera svarið við spurningunni Fóstureyðing. Lífsvernd vill að konur gefi börnin, enda létt verk og löðurmannlegt að ganga fulla meðgöngu og gefa svo bara barnið frá sér til 'góðs fólks'.**

Lífsverndarfólkið þykist auðvitað bara vera gott fólk.*** Það stendur bara og biður og þykist örugglega engan angra. En þau angra mig. Mér finnst ömurlegt til þess að vita að það séu einhverjir trúarbrjálæðingar á sveimi fyrir utan kvennadeildina í því skyni að benda konum á að þær séu að fremja synd og þegar þær komi út (úr viðtali, aðgerð eða eftirskoðun) eigi þær von á að ganga í flasið á þessu fólki. Enda þó þau standi núna bara og biðji, þá hef ég illan grun um að það komi að því að þeim þyki bænir ekki nóg (vegna þess að þau verða ekki bænheyrð, döh) og fari að mæta með skilti og gera hróp að konum.

Konur hafa ekki bara rétt til fóstureyðinga heldur hafa þær rétt á að fá að ganga gegnum það ferli í friði og án þess að reynt sé að koma inn hjá þeim samviskubiti og eftirsjá.

___
* Það væri fróðlegt að hringja í Kvennadeildina og spyrja hvort vitað sé hvernig stendur á því að þriðjudagur varð fyrir valinu — eru flestar aðgerðirnar gerðar þá eða koma konur í viðtöl á þeim tíma? Eru konurnar ávarpaðar af hópnum þarna fyrir utan?
** Engin líkamleg vanlíðan á meðgöngu hrjáir svo fórnfúsar konur og það hlýtur að vera stuð að láta alla sjá óléttubumbuna og spyrja hvenær barnið fæðist. Ekkert andlegt álag þar. Fæðingin verður auðvitað án allra áfalla líka, hlýtur bara að vera, varla hægt að afhenda nýju foreldrunum gallaða vöru!
*** Þau líta svosem nógu sakleysislega út. Síðasta þriðjudag klukkan tíu mínútur yfir eitt keyrði ég einn rúnt um Landspítalalóðina og þá stóðu fjórar hræður á graseyjunni á bílastæðinu fyrir framan kvennadeildina og svo bættist fimmta hræðan við. Ég kannaðist ekki við neitt þeirra (ég hélt jafnvel að frægir bloggandi andstæðingar fóstureyðinga væru þarna á meðal en svo var ekki að sjá) og þau virkuðu hálf umkomulaus. Ég tek kannski með mér kex næst og gauka að þeim. En þegar ég keyrði annan rúnt í dag, klukkan tíu mínútur í eitt og þá var ekkert bænakvak, því hefur líklega verið lokið.

Efnisorð: , ,