föstudagur, júní 29, 2007

Karlmenn sem pynta og drepa dýr

Þegar fólki misbýður hrottaskapur er talað um múgæsing. Hrottaskapur, beinist hann að varnarlausum dýrum, er sumum svo sjálfsagður að það þykir verra að hneykslast á honum, sárna eða verða reið, heldur en yppta öxlum og láta eins og það komi engum við hvað gert er við dýrin. Svo ekki sé nú talað um hugarfar þeirra sem beita dýr ofbeldi.

Það sama má segja um ofbeldi gegn konum. Það þykir verra að æsa sig yfir því heldur en að fjöldi karlmanna í samfélaginu sé nauðgarar.

Ekki ætla ég að efast um að margir nauðgarar eru dýraníðingar og margir dýraníðingar eru nauðgarar. Sami helvítis ógeðshugsunarhátturinn.

Og fyrir þau sem halda að karlmenn sem drepa dýr sér til skemmtunar séu þrátt fyrir það ágætis náungar, þá minni ég á að raðmorðingjar hafa nánast allir dundað sér við að pynta og drepa dýr áður en þeir fara að drepa fólk. Það að pynta og drepa dýr er merki um mjög sjúkt hugarfar, en ekki undantekning á flekklausum ferli góðra drengja.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, júní 24, 2007

Viðhorf og tækifæri, ekki kynfæri eða húðlitur

Undanfarið hafa frjálshyggjupostular gagnrýnt kynjaumræðu með því að segjast standa á sama hvaða kynfæri fólk hafi og ásaka með því feminista um að vera með kynfæri á heilanum. Mig langar að búa til smá sögu og athuga hvort hún verður til að sýna fram á hve röng þessi hugsun er.

Íslensk kona (X) flyst til Bandaríkjanna um stundarsakir og kynnist þar manni (Z) sem hún verður ástfangin af. Maðurinn er svartur. Hún setur það auðvitað ekki fyrir sig og þau eru mjög hamingjusöm þegar þau eru tvö saman. Þegar þau fara út verða þau stundum fyrir mótlæti því ekki þykir öllum sjálfsagt að svartur karlmaður sé með hvítri konu, á það jafnt við um hvítt fólk og svart. Maðurinn vill að þau flytji til Íslands því hann sé orðinn þreyttur á að búa í Bandaríkjunum. Konunni X finnst þetta undarlegt því henni líður einmitt mjög vel í Bandaríkjunum.

Hann útskýrir þá fyrir henni að hvar sem hann komi mæti honum tortryggið augnaráð hvítra, konur haldi handtöskum örlítið nær sér, hann fái síður vinnu og þá mun síðri vinnu en hvítir jafnaldrar hans og margir skólabræðra hans hafi leiðst útá glæpabrautina vegna lélegrar menntunnar og vonleysi yfir því að eiga sér ekki viðreisnar von. Hann segir henni svo frá skólagöngu sinni gegnum grunnskólann og hve skólar í hverfum svartra séu lélegir og því sé grunnmenntun hans og félaga hans ekki hæf undirstaða fyrir framhaldsnám.

Það verður úr að X og Z, sem ætla að verða hjón, flytja til Íslands. Þar verða þau bæði mjög vör við augnaráð almennings á götum úti, sumstaðar heyra þau hvískur og má þá vart á milli sjá hvort þeirra fær verri útreið í niðrandi ummælum. Fjölskylda X tekur Z af alúð en allmargar gamlar frænkur kalla X til sín á eintal og hafa áhyggjur af sambandi þeirra og segja að þær hafi auðvitað ekkert á móti svörtu fólki en hún verði að gera sér grein fyrir að ef hún eignist börn með þessum manni þá verði börnin fyrir fordómum. Hún verði að hugsa um vesalings börnin.

Z fær hvergi vinnu, ekki einu sinni í fjölskyldu X, þar sem flestir fara undan í flæmingi þegar spurt er hvort einhver viti um vinnu handa honum. Honum finnst íslenskt samfélag ekkert síður fjandsamlegt en bandarískt, ef eitthvað er þá þykir honum það verra því ytra er hann þó bara einn af mörgum, hér er hann aðskotadýr og sjaldgæft fyrirbæri.

Af tilviljun frétta X og Z af manni sem þykir umburðarlyndur og er auk þess að leita að mönnum í vinnu, þau mæta til hans og hann tekur vel á móti þeim. Hann ákveður að ráða Z á staðnum og X tekur eftir að launin eru ekki síðri þeim sem íslenskir karlmenn, sem geta rakið ættir sínar til Jóns Arasonar biskups, fá á vinnumarkaðinum. Hún spyr þennan góða mann hvernig á því standi að hann bregðist svona allt öðru vísi við mannsefni sínu en aðrir og hann svarar því til að hann sé frjálshyggjumaður og líti alla jöfnum augum.

Nú er sagan búin.

Einhverri kynni að koma á óvart að frjálshyggjumaðurinn sé góði maðurinn í sögunni, en allajafna dreg ég upp talsvert aðra mynd af þeim. En hér langaði mig að benda á að einstaklingur getur orðið fyrir gríðarlegu óréttlæti hvar sem hann kemur, vegna húðlitar síns - eða jafnvel kynferðis. Það gildir einu þó einn einstaklingur, eða jafnvel margir einstaklingar (allir í Frjálshyggjufélaginu!), hafi annað viðhorf og vilji ekki mismuna svörtum eða konum, þegar allt samfélagið – eða jafnvel öll samfélög – vinna gegn framgangi þessara hópa og grafa hreinlega undan hverjum eintaklingi og sjálfsvirðingu hans. Það þýðir því lítið fyrir frjálshyggjumenn að æpa að þeir líti ekki fyrst og fremst á húðlit fólks eða kynferði – þegar allir aðrir gera það.

Það er ekki fyrr en öll lög og reglur verja rétt þess fólks og greiða götu þess, t.d. með því að hlutfall þeirra verði að ná tilteknu lágmarki í skólum, nefndum, stjórnum, á þingi o.s.frv. auk þess að sífellt sé leitað leiða til að breyta almenningsálitinu þeim í hag – og það hefur borið árangur – sem frjálshyggjumenn geta sagt að húðlitur eða kynferði skipti ekki máli.

Það eru ekki feministar sem eru með ‘kynfæri fólks á heilanum’ (og það að feministar tala um konur og karla er ekki vegna þess að þær halda að konur og karlar séu annarsvegar frá Venus og hinsvegar frá Mars og séu í grundvallaratriðum svo ólík) heldur gera feministar sér grein fyrir mótlæti og misrétti sem konur verða hvarvetna fyrir, alveg burtséð frá því hve frjálshyggjumenn eru gríðarlega blindir á af hvaða kyni fólk er.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júní 22, 2007

Súrt regn fyrir hádegi, brennisteinsþoka síðdegis, spretta léleg á Suðurlandi

Umræður um álver við Þorlákshöfn eru rétt nýhafnar og ég veit svosem ekki hversu stórt álverið er sem er í bígerð, svona í samanburði við álverið í Straumsvík, né hvernig mengunin af því yrði, né heldur hvar nákvæmlega það yrði staðsett. En mér finnst hjóma sem mikið glapræði að setja mengandi stóriðju þar sem landbúnaður og fiskeldi er í nágrenninu, eins og reyndin er í Flóanum og Ölfusinu. Í Flóanum eru sauðfjárrækt og kúabú - semsagt kindakjöt og megnið af mjólk þeirri sem fer til Mjólkurbús Flóamanna - langar okkur til að neyta þeirra afurða þegar álver og meðfylgjandi flúor og brennisteinsdíoxíð verður búið að bragðbæta skepnufóðrið? Og gróðurhúsin í Hveragerði, þar sem ræktaðir eru tómatar og agúrkur – hvernig verður bragðið af þeim? Eða munum við ekki finna bragðið, bara innbyrða nýju aukaefnin?

Ég er ein þeirra sem var á móti Kárahnjúkavirkjun m.a. vegna áhrifa á dýralíf og gróður. Ég var líka á móti því að reist yrði álver á Reyðarfirði og álverið við Straumsvík yrði stækkað; vegna mengunar og raforkuþarfar sem hvetur til virkjana. Auk þess hef ég verið á móti öllum þessum framkvæmdum vegna áhrifa á hagkerfið og innflutnings útlendinga í þrælavinnu. Ekki eru allir sammála mér um þessi atriði eins og sást á klofningnum í atkvæðagreiðslunni um stækkun álversins í Hafnarfirði. Er þá einhver von til þess að bændur á Suðurlandi muni sameinast gegn álveri í túnfætinum hjá sér og reki þessa óværu af höndum sér?

Ég var þakklát bændum þegar þeir frelsuðu okkur frá klámráðstefnunni, nú heiti ég á að þeir bjargi okkur aftur.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, júní 20, 2007

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?

Umræða síðustu daga um fóstureyðingar hefur snúist um hve fá börn fæðast hér á landi með Downs-heilkenni. Ég styð rétt kvenna til fóstureyðinga en þykir slæmt að leitað sé eftir göllum á fósturstigi með það að markmiði að gefa konum kost á að eyða fóstri sem yrði annars að fötluðu barni. Með því að segja að ‘enginn ætti að þurfa að eignast fatlað barn’ er verið að gera lítið úr fötluðu fólki og tilveru þess. Það er mikilvægt að hugsa út í hvað það þýðir að koma í veg fyrir að börn fæðist með Down-heilkenni. Er verið að segja að það fólk sé minna virði? Eða að þjóðfélagið líti á það sem byrði?

Mín skoðun er sú, að ef fólk vill á annað borð eignast barn, þá geti það ekki gert þá kröfu að barnið verði gallalaust. Fjölmargar fatlanir er hvorteðer ekki hægt að greina á fósturstigi, heldur fólk að það sé öruggt með að ‘fá heilbrigt barn’ ef fóstrið reynist ekki vera með Downs-heilkenni? Hvað með einhverfu, geðklofa, þunglyndi?

Á móti kemur svo það, að auðvitað á ekkert barn að fæðast óvelkomið í heiminn og konur mega fyrir mér fara í allar þær fóstureyðingar sem þeim sýnist. Meira segja ef þær ákveða að eyða fóstrum sem kæmi í ljós að væru af kvenkyni, eins og gert er víða. Konur eiga sjálfar að ráða hvort þær fæða barn eða ekki. Því miður hafa læknavísindin gert konum kleift að standa frammi fyrir vali um að eyða fötluðum fóstrum og kvenkyns fóstrum. Burt með þessa snemmómskoðun !

Efnisorð: ,

Fóstureyðing - þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði

Eitt er það sem sjaldnast er rætt varðandi fóstureyðingar. Það er, að sum þessara fóstra eru ekkert lífvænleg og hefðu aldrei orðið að börnum. Mikill fjöldi kvenna missir fóstur en það er auðvitað ekki vitað hve margar hefðu misst þau fóstur sem var eytt. Auk þess missa margar konur fóstur löngu áður en þær átta sig á að þær eru óléttar, einhver hélt því fram að 60-80 allra fósturvísa skolaðist út án þess að konur yrðu þess einu sinni varar.

Enginn syrgir þessi ‘börn’ og enginn ásakar konurnar, hvað þá að ætlast sé til að þær séu með móral það sem eftir er sinna ævidaga. Einhverjir trúarnöttarar myndu líklega segja að þessi mikli fjöldi fósturvísa sem ferst sé hluti af áætlun guðs (eins og barnadauði í þriðja heiminum, stríð og fleira sem þeir reyna að afsaka þegar við trúleysingjarnir innum þá eftir hverskonar andstyggðar guð þetta sé sem láti fólk kveljast og deyja) og því sé ekkert við því að gera. En er þá í lagi að fósturvísar farist stundum en stundum ekki?

Málið virðist síður snúast um að allir fósturvísar eigi að verða að barni en meira um að konur eiga að hafa samviskubit vegna kynlífs sem þær stunda og hugsanlegra afleiðinga þess. Fyrst og fremst virðist baráttan gegn fóstureyðingum vera til þess að hafa stjórn á líkama kvenna og því hvort og þá með hverjum þær stunda kynlíf og hverjar séu afleiðingar þess. Verði kona ólétt eftir eiginmann sinn þá er það gleðiefni, verði hún ólétt eftir einhvern annan eða fyrir hjónaband þá á hún að skammast sín og ‘taka afleiðingunum’ með því að eignast barn sem hana langar kannski allsekki til. Barn ógiftrar konu er refsing, barn hjóna er hamingjan sjálf.

Efnisorð: ,

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Oft heyrist að það þurfi að forða konum frá því að láta eyða fóstri því þær sjái eftir því alla ævi. (Sjaldnar heyrist að það þurfi að forða konum frá að eignast börn vegna þess að þær gætu séð eftir því síðar. Þó heyri ég a.m.k. oft að konur hefðu viljað bíða með barneignir, ekki eiga eins mörg börn eða hreinlega ekki eignast börn en létu undan þrýstingi eða hreinlega lögðu ekki í fóstureyðingu.) Allar konur sem farið hafa í fóstureyðingu virðast, samkvæmt þessu, vera með sömu tilfinninguna: Sektarkennd. – Hvaðan ætli hún komi?

Þeir sem helst vilja að konur hafi samviskubit eru þeir sem eru á móti fóstureyðingum, og það eru þeir sem herja á konur með því að tala sífellt um fósturvísana og fóstrin sem ‘börn’ og að fara í fóstureyðingu sé ‘að drepa barn’. Þeir vilja að konum verði gert skylt að sjá andstyggilegar kvikmyndir (t.d. The Silent Scream sem sýnd var á Omega) sem sýna aðgerðina frá sjónarhóli fóstursins og gera mikið úr kvöl þess og neyð. Myndin á að virka sem forvörn (ekki getnaðarvörn þó, því sumir þeirra eru líka á móti þeim) og fæla konur frá að fara í aðgerðina. Þær konur sem hafa séð svona mynd, lesið áróðurinn og heyrt skammirnar, fá öðrum fremur sektarkennd, hefði ég haldið. Hinar telja sig örugglega margar hafa tekið rétta ákvörðun miðað við aðstæður og spá ekki mikið meir í það, þó auðvitað séu undantekningar á því eins og öðru.

Í hverjum vinkonuhóp er einhver kona sem hefur farið í fóstureyðingu og það er mín skoðun, byggð á reynslu (þó það séu engar tölfræðilegar sannanir fyrir því) að konur hafi ekki sérlega mikið samviskubit yfir að hafa hagað málum sínum á þennan veg, nema í mesta lagi rétt á meðan einhver andstæðingur fóstureyðinga er að messa yfir þeim.

Ein kona sem ég þekki segist ekki frekar hafa samviskubit yfir að hafa látið eyða fóstri en að hafa látið fjarlægja ógnvekjandi fæðingarblett, hvort um sig ógnaði tilveru hennar þó á mismunandi hátt væri og hvorugur frumuklasinn vakti með henni neinar tilfinningar aðrar en feginleik að vera laus við hann.

Efnisorð: ,

Helstu andstæðingar fóstureyðinga - kaþólikkar

Kaþólikkar eru auðvitað ekki einu trúmennirnir sem hatast útí réttindi kvenna (og samkynhneigðra), fjöldi ofsatrúarmanna bæði hér og í Bandaríkjunum úr ýmsum trúfélögum eru þeim innilega sammála. Sérstaða kaþólikka er að þeir hafa páfann sem sameiningartákn og hann er sem slíkur gríðarlega valdamikill. Þegar páfinn talar hlusta þjóðarleiðtogar, því í hverju landi eru kaþólikkar og þeir væru vísir með að ráðstafa atkvæðum sínum eftir því sem páfinn segir. Líklega gera það nú ekki allir kaþólikkar, samanber að þau nota getnaðarvarnir eins og önnur, en það er líklega stór hluti þeirra sem virðir páfann mikils, en sembeturfer er sú skoðun á undanhaldi að páfinn sé óskeikull.

Nýlega fór páfinn til Suður-Ameríku, þar sem kaþólska er landlæg, og talaði enn sem fyrr gegn fóstureyðingum. Þarsem páfi talar einnig gegn getnaðarvörnum þá eru kaþólikkar í vondum málum ætli þeir að fara eftir orðum hans. Reyndar var fyrri páfi í herferð gegn smokkanotkun þeirri sem mælt var með til varnar HIV-smiti og sé Helvíti til, þá brennur hann þar núna.

Einn kardínála kaþólsku kirkjunnar lagðist svo lágt á dögunum að skammast útí Amnesty International fyrir ‘að hvetja til fóstureyðinga’ – en samtökin hafa reyndar ekki gert það heldur er verið að benda á ofbeldi gegn konum sem þær verða víða fyrir ofbeldi vegna kynferðis þeirra (t.d. skipulagðar nauðganir í stríði) og að fóstureyðing geti verið nauðsynleg og eigi ekki að vera refsiverð. Þegar menn eru farnir að reyna að grafa undan Amnesty, eru þeir nú varla að ganga erinda kærleiksríka guðsins síns.

Efnisorð: , , ,

Helstu andstæðingar fóstureyðinga - karlmenn

Það er sérkennilegt hvað karlmenn eru í miklum meirihluta þeirra sem tala gegn fóstureyðingum, bæði hér á landi og annarstaðar. Eflaust eru margar konur andvígar fóstureyðingum líka, en fjöldi karlanna, og það hvað þeir eru háværir um mál sem þeim kemur í raun ekki við (ekki þurfa þeir að standa frammi fyrir því vali að fæða barn eða fara í fóstureyðingu) og tengist líklega því hvað þeir eru ósáttir við að ráða ekki alfarið yfir lífi og athöfnum kvenna.

Sumir vilja meina að karlmenn eigi að hafa vald til að úrskurða um hvort kona fái að fara í fóstureyðingu og þá jafnframt eigi þeir að geta hafnað því að verða feður og annaðhvort skikkað konuna í fóstureyðingu eða losnað undan barnsmeðlögum vilji konan ekki fara í hana. Sumir karlmenn nota aldrei sjálfir getnaðarvarnir en verða reiðir ef kona eignast barn sem þeir vilja ekki eða hneykslast ef konan lætur eyða fóstrinu. En málið snýst um rétt kvenna – ekki karla – til meðgöngu og fæðingar eða að eyða fóstri. Enga konu ætti að þvinga til að eyða fóstri sem hún vill að verði barn og enga konu ætti að þvinga til að ganga með og fæða barn sem hún ekki vill. Það að verða móðir, ætti alltaf að vera val, ekki hlutverk sem konum er þröngvað til.

Þeir sem mest berjast gegn rétti kvenna til fóstureyðinga í Bandaríkjunum eru gjarnan þeir sem eru líka mjög á móti öllum styrkjum til fátækra og einstæðra mæðra, svo öfugsnúið sem það er. (Svo ekki sé minnst á að þeir eru líka yfirleitt hlynntir stríðinu og dauðarefsingum á fólki sem einu sinni var fóstur.) Umhyggja þeirra fyrir lífi fóstursins nær semsagt ekki framyfir þá stund sem það fæðist og þarf mat og húsaskjól. Og aldrei heyrast þessir karlar segja aukatekið orð um hvað eigi að verða um þessar konur sem þeir vilja fyrir alla muni að fari ekki í fóstureyðingu, né hafa þeir áhyggjur af heilsu þeirra.

Efnisorð: ,

Fóstureyðing eða ættleiðing

Sumir stinga uppá því að konur geti bara gefið barnið í stað þess að láta eyða fóstri. Ekki get ég talað fyrir hönd allra kvenna sem hafa gengið með og fætt barn, en allflestar eru sammála um að meðgangan hafi mikil líkamleg og sálræn áhrif á þær, hvernig svo sem staðið var að getnaðinum eða hvort aðstæður væru góðar til að ala barnið upp. Það að finna líkama hreyfast inní líkama sínum lætur fáar konur ósnortnar.

Þeirra eigin líkami breytist gríðarlega og ekki alltaf til góðs, margar konur finna til mikillar vanlíðunar og fá bjúg, grindargliðnun, gyllinæð eða hækkaðan blóðþrýsting, svo dæmi séu tekin af mögulegum fylgifiskum meðgöngu. Fæðingin er svo enn önnur saga, sumar konur jafna sig seint á henni og meðgöngunni, þær sem þá lifa þetta af, en þó dauði af völdum barnsburðar sé í lágmarki hér á landi, þá er aðra sögu að segja í mörgum löndum heims.

Er hægt að halda því fram með góðri samvisku að það sé svo lítið mál að ganga með fulla meðgöngu að kona eigi að leggja það á sig (bara til þess að forðast aðgerð sem tekur þó ekki nema örfáa daga að jafna sig á) – og gefa svo barnið frá sér í ofanálag? Séu konur sem fara í fóstureyðingu litnar hornauga, þá er það ekkert á við þá samfélagslegu fordæmingu í garð þeirra kvenna sem gefa frá sér börnin sín! Eftirsjá þeirra og samviskubit held ég að vegi ekki minna á vogarskálum en þeirra sem fara í fóstureyðingu. Í síðara tilvikinu þarf konan að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af hvort barnið lendi á góðu heimili eða hati sig það sem eftir er.

(Og nú vona ég að ég hljómi ekki grimm í garð kvenna sem hafi gefið börn sín eða þeirra barna sem hafa verið ættleidd, né að lesa megi úr orðum mínum að þeim börnum hefði betur verið ráðstafað öðruvísi, ég er bara að benda á að ættleiðing er ekkert gamanmál eða auðveld ákvörðun).

Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að konur, sem verða óvart óléttar en vilja ekki eignast barn, sjái barnlausu fólki fyrir börnum. Sá söngur, sem oft heyrist, að „það sé fullt af góðhjörtuðu fólki sem þráir ekkert annað en eignast börn“ og gefið í skyn að það sé alveg sérstök mannvonska að vera sú kona sem meinar þeim um þetta smáræði.

Málið er þetta: Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.

Efnisorð:

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum

Bannið við fóstureyðingu á síðari stigum meðgöngu (sem er oft kallað partial birth abortion á ensku en annars last trimester eða late term abortion) sem nýlega var sett í Bandaríkjunum, bitnar alls ekki á þeim konum sem það er beint gegn. Fóstureyðingar, sem fram fara eftir á síðustu mánuðum meðgöngu eru oftast framkvæmdar vegna þess að í ljós kemur að eitthvað er að fóstrinu eða að meðgangan stefnir lífi og heilsu móðurinnar í hættu. Stundum vegna þess að í ljós hefur komið að fóstrið er lífvana. Þetta eru því konur sem ætluðu sér að ganga með fulla meðgöngu og eignast barnið en vegna fyrrgreindra ástæðna varð að grípa inní og fjarlægja fóstrið.

Ég las átakanlega sögu bandarískrar konu sem komst að því eftir margra mánaða meðgöngu að barnið sem hún gekk með var dáið. Áfallið var gríðarlegt því hún hafði hlakkað mjög til að eignast barnið. Í ljós kom að enginn spítali í grennd við hana vildi framkvæma á henni ‘fóstureyðingu á síðari stigum’, þ.e. fjarlægja hið lífvana fóstur úr henni. Ekki veit ég hvaða hættu þetta hafði í för með sér fyrir heilsufar konunnar en andleg líðan hennar var slæm þegar henni varð ljóst að ætlast var til að hún gengi með dáið barn einhvern ákveðinn tíma áður en hægt væri að líta svo á að hún væri að ‘fæða’ barnið og því mætti hún koma á spítala til að fá aðstoð til þess. Ástæða þess að spítalarnir vildu ekki framkvæma þessa aðgerð – en þetta var nokkru áður en bannið við fóstureyðingum á síðari stigum gekk í gildi – var að þeir voru allir reknir af kaþólikkum eða öðrum trúfélögum sem eru á móti fóstureyðingum. Það að þetta yrði ekki ‘venjuleg’ fóstureyðing skipti engu, því starfsfólkið hafði enga reynslu af slíkum aðgerðum. Nú er svo komið allsherjar bann við fóstureyðingum á síðari stigum í Bandaríkjunum og fleiri konur sem ætluðu sér að ganga með börn sín og fæða þau, mega því búast við að verða snúið frá og kveljast í sinni sorg. Bannið mun ekki koma í veg fyrir að ‘börn deyi’ – þ.e fóstureyðingar – heldur eingöngu halda konum sem vildu verða mæður í herkví. Sigur þeirra sem heimtuðu þetta bann er því eingöngu til þess fallinn til að leyfa andstæðingum fóstureyðinga að halda að þeir hafi unnið fyrstu orustuna af mörgum. (Og þá streyma fjárframlögin frá þeim inná kosningaskrifstofur Repúblikana).

Annað umdeilt mál í Bandaríkjunum, sem hefur líka komið til kasta Alþingis hér, er stofnfrumurannsóknir, en Bush forseti setti lög gegn þeim. Stofnfrumurnar eru teknar úr fósturvísum sem ekki eru notaðir eða ganga af í tæknifrjóvgunarferli því sem mörg hjón ganga gegnum til að eignast börn. Stofnfrumurannsóknir eru m.a. í því skyni að finna lækningu á sjúkdómum eins og MS og Parkinsonsveiki.

En þeim sem er lífið svona heilagt er alveg sama um lækningu á sjúkdómum, fósturvísarnir eru jafngildar verur fyrir þeim og fullorðið fólk með alvarlega sjúkdóma.

Stundum segir fólk sisona: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja? Við, þessi forhertu sem erum hlynnt rétti kvenna til fóstureyðinga, veljum að bjarga barninu, hinir myndu líklega velja fjölda hinna mögulegu-barna í petriskálinni.

Efnisorð: ,

Fóstureyðingar verða að vera löglegar

Konur sem verða óvart óléttar og vilja ekki eignast barn munu leita annað, séu fóstureyðingar ekki löglegar og framkvæmdar á heilbrigðisstofnunum. Í staðinn yrðu þær gerðar við lélegar hreinlætisaðstæður á varasaman hátt og gætu haft hræðilegar afleiðingar, jafnvel leitt til dauða konunnar. Andstæðingar fóstureyðinga hugsa kannski sem svo að konurnar eigi ekkert betra skilið og jafnvel að sú áhætta myndi virka fælandi á þær konur sem hygðust eyða fóstri. Þannig yrði færri fóstrum eytt. Það má vera, þó þær yrðu margar eftir sem áður, því margar konur myndu frekar vilja taka áhættuna á dauða en ganga með og fæða. Fóstureyðingar myndu ekki minnka nógu mikið til að réttlæta fórnarkostnaðinn, þ.e. heilsufarsvandamál eða dauða kvennanna.

Fæstir þeirra sem tala gegn fóstureyðingum þora annað að segja að undantekningar megi gera þegar konum hefur verið nauðgað eða líf konunnar sé í hættu. Í sumum löndum er þó enn alfarið bannað að eyða fóstri, hvernig sem það er til komið. Þannig er málum háttað í Chile, El Salvador, Írlandi og Costa Rica. (Rosita var átta ára gömul þegar henni var nauðgað og varð barnshafandi en henni var meinað um fóstureyðingu af yfirvöldum, bæði á Costa Rica og Nicaragua, heimalandi hennar, enda þótt bent væri á að líf hennar væri í hættu. Málinu lyktaði þó þannig að henni var heimilað að fara í aðgerðina.) Í mörgum ríkjum Afríku og Asíu eru fóstureyðingar aðeins heimilar ef heilsa eða líf konunnar er í hættu en ekki ef henni hefur verið nauðgað. (Alveg er ég sannfærð um að þegar fóstureyðing er leyfð vegna þess að annars myndi konan deyja, þá er það vegna þess að þá er reiknað með að betra sé að hún lifi áfram til að geta átt annað barn í staðinn – og helst mörg börn – í framtíðinni, ekki vegna þess að líf hennar sé svo mikils virði.)

Fóstureyðingar eru ekki frjálsar á Íslandi, heldur heimilar sé líf eða heilsa konunnar í hættu, henni hafi verið nauðgað, fóstrið sé ekki lífvænlegt eða geti verið alvarlega fatlað eða vegna félagslegra aðstæðna konunnar, s.s. að hún eigi mörg börn fyrir eða geti ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Semsagt, geti kona sýnt framá, og fengið tvo aðila (tvo lækna eða lækni og félagsráðgjafa) til að samsinna sér um að hún geti ekki átt barn vegna félagslegra- eða læknisfræðilegra ástæðna, þá má hún fara í fóstureyðingu. (Lög nr. 25, sett árið 1975.) Í flestum löndum, þ.m.t. Bandaríkjunum – þar sem sífellt er verið að reyna að koma í veg fyrir fóstureyðingar – getur kona fengið fóstureyðingu án þess að nokkur utanaðkomandi aðili (læknir, félagsráðgjafi) hafi neitt um það að segja, og hún þarf ekki að gefa upp ástæður sínar.

Hér er rétt að geta um 'eftirápilluna', sem oft er ruglað saman við RU 486 (Mifepristone), sem er ekki leyfileg hér á landi, en það er lyf sem kallað er „fóstureyðingapilla“ og hægt er að taka á fyrstu tveimur mánuðum meðgöngu og veldur fósturláti. Konur í Bandaríkjunum, þar sem RU 486 pillan er leyfileg, eru oft ásakaðar um að éta hana eins og Smarties, en raunin er sú að henni fylgja slíkar aukaverkanir að hana tekur engin kona að gamni sínu. Neyðargetnaðarvörn er afturámóti fáanleg hér og verður að taka hana innan þriggja sólarhringa (seinasta lagi 5) frá samförum þeim sem gætu hafa leitt til getnaðar, og festist þá hið frjóvgaða egg ekki í leginu. Því er hreint ekki um fóstureyðingu að ræða.

Efnisorð: ,

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum

Að verið sé að drepa manneskju
- Sú afstaða andstæðinga fóstureyðinga að ‘lífið verði til við getnað’ er siðferðileg afstaða byggð á trúarlegum grunni, ekki læknisfræðilegum. Ekkert fóstur lifir utan legsins á fyrstu vikum og mánuðum meðgöngu og því er ekki um sjálfstætt líf að ræða, heldur frumur, sem hafa skipt sér. Frumurnar eru ekki barn, fósturvísirinn er ekki barn og fóstrið er ekki barn fyrr en við fæðingu. Það er því ekki verið að ‘drepa börn’. Þessi lýsing bendir ekki til að fósturvísirinn og síðar fóstrið sé mikið annað en frumuklasi með ófullkomið taugakerfi: „Ekki eru ennþá til staðar nein greinanleg drög að taugavef í mannsfóstrum, þar til u.þ.b. 4 vikum eftir frjóvgun. Ekki fyrr en við 8 v. eftir frjóvgun eru greinanlegar taugafrumur, taugatengi, rafboð og taugaboðefni. Á þessu stigi má framkalla einföld taugaviðbrögð hjá fóstri. Fjórum vikum eftir þetta má fyrst greina svipuð þroskaeinkenni í heilastofni og ekki fyrr en ennþá síðar í æðri hlutum heilans. Af þessu má ráða að á fyrsta stigi meðgöngutímans, þ.e.a.s. fyrstu 12 vikunum, er miðtaugakerfi fóstursins ekki nægjanlega þroskað til þess að um geti verið að ræða nokkra meðvitaða reynslu eða sjálfsvitund.“ Morgunblaðið 4. september 1986, bls. 16, grein eftir Auðólf Gunnarsson lækni á kvennadeild Landspítalans

(Hér verð ég að nefna að ég finn hvergi íslenska læknisfræðilega skilgreiningu á því hvenær fósturvísir verður að fóstri. Mér virðist sem það sé engin ein niðurstaða í því máli í netheimum og því væri gott að geta vísað í viðmiðanir hér á landi. Bæti því inn finni ég þær. En samkvæmt ýmsum (vonandi ekki ógáfulegum) heimildum á netinu þá er talað um fósturvísi upp að 8 viku meðgöngu og eftir það er talað um fóstur. Héreftir mun ég því tala um fóstur og fósturvísi með tilliti til þeirra skilgreininga.)


Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Hér virðist vera litið á barn sem refsingu. Það að eignast barn sé refsing fyrir að stunda kynlíf án getnaðarvarna eða þær brugðist.

Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Með öðrum orðum: eingöngu kynlíf með eiginmanninum og ganga með ótal börn og reyna svo að ala önn fyrir þeim öllum, sinna þeim tilfinningalega og koma þeim til manns.

Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Það er enginn skortur á fólki á jörðinni. Fjöldi fólks flýr heimkynni sín eða flyst þaðan sjálfviljugt og vill gjarnan búa í þeim löndum sem heimamenn eignast færri börn en áður. Mér þykir alltaf rasistalykt af þessum ‘áhyggjum’ og að undir niðri búi sú skoðun að ‘hvíti kynstofninn sé í hættu’. Því eigi að mæta með að svipta (hvítar) konur réttinum til að ráða yfir eigin líkama og skikka þær til að ala börn. Eða dettur kannski einhverjum í hug að það sé verið að vonast eftir að innflytjendur af öðrum húðlit en hinum hvíta eignist mörg börn?

Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Ég nenni ekki að fara út í orðhengilshátt og benda á að í orðinu ‘getnaðarvörn’ felist að þannig verði komið í veg fyrir getnað og þá þurfi ekki fóstureyðing að koma til (reyndar er til neyðargetnaðarvörn til að taka eftirá, en aðgengi að þeim er víða takmarkað, ræði það annarstaðar) því eflaust er það ekki reyndin með öll tungumál.
Enda held ég að fólk eigi með þessari staðhæfingu við að konur séu kærulausar um getnaðarvarnir og taki sénsinn en fari í fóstureyðingu ef svo slysalega vill til að þær verða óléttar.

Við þessu segi ég bara: Og hvað með það? Ef á annað borð konur vilja ekki eignast barn í það sinnið þá á ekki að skipta nokkru máli hvort smokkur var notaður en rifnaði eða hvort hann var ekki notaður, eða hvort þær taka alltaf sénsinn og nota aldrei neinar getnaðarvarnir. Það kemur engum við með hvaða hætti konan lenti í þessum aðstæðum, þó auðvitað væri æskilegt fyrir hverja og eina konu að hún þekkti til getnaðarvarna, kynni að nota þær, gæti það og hefði áhuga á því.

Að konur fari oft í fóstureyðingu (sbr. noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn), þær misnoti þennan möguleika
- Þetta heyrist jafnvel frá fólki sem segist ekki vera á móti fóstureyðingum. Sem er mjög skrítið að mínu mati, því ef það er í lagi að fara í fóstureyðingu einu sinni afhverju er það þá ekki í lagi aftur? Er þá ekki enn meiri ástæða til að leyfa þeim að eyða fóstrinu? Er betra að manneskja sem vill ekki eignast barn eignist mörg börn, yrði það öllum fyrir bestu?

Það er líklega ekki frábær hugmynd að gangast oft undir aðgerðir sem þessa, alltaf fylgir einhver hætta svæfingum og svo framvegis. En fjöldi manns gengur undir allskyns aðgerðir sem allar hafa áhættu í för með sér án þess að vera ásakað um að breyta siðferðislega rangt. (Kunningi minn fór í ítrekaðar aðgerðir til að laga brot í andlitsbeini og til þess var m.a. notað bein úr mjaðmagrindinni. Enginn klagaði hann fyrir að hafa farið í margar svæfingar eða verið baggi á heilbrigðiskerfinu eða hvað það nú er sem fólk nennir að tína til þegar það reynir þessi rök gegn fóstureyðingum).

Tínd eru til dæmi um fólk sem eignaðist barn þrátt fyrir mikla erfiðleika (fátækt, sjúkdóma, félagslegar aðstæður) og elskar barnið og finnst óhugsandi að lifa án barnsins
- Þetta held ég að sé algengt. Fólk horfir á litlu Snæfríði Ösp eða Alexander Mána og hugsar: „Hvernig getur fólk drepið börnin sín?“ Málið er að fóstrið – eða fósturvísirinn – er ekki barn. Það hefur ekki andlit, rödd, nafn, skoðanir, skap eða ást foreldra sinna né þekkir það þau. Fóstrið er frumuklasi sem - ef vilji væri fyrir hendi og réttar aðstæður - gæti orðið að barni. En ef frumuklasinn er fjarlægður, þá er hann ekkert annað en frumuklasi sem var fjarlægður. Varð aldrei barn; barn var ekki drepið.
(Hitt er annað mál að fólki er frjálst að kalla fóstur, sem til stendur að verði barn, bumbubúa eða hvað annað sem það vill og bera til þess allskyns fallegar tilfinningar allt frá því að getnaður átti sér stað, burtséð frá því að þá er ‘barnið’ enn bara frumuklasi. Væntingar foreldranna tilvonandi hafa þá vægi umfram líffræðilega/læknisfræðilega skilgreiningu á barni).

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 19, 2007

Réttur kvenna til að eyða fóstri

Á þessum helsta degi kvenréttinda á Íslandi finnst mér nauðsynlegt að tala um eitt helsta réttindamál kvenna: Réttinn til fóstureyðinga. Ég hef af því miklar áhyggjur að andstaðan við þær sem er svo hávær í Bandaríkjunum, muni ná eyrum ráðamanna hér, enda þeir óhemju áhugasamir um stuðning við ýmis illvirki Bandaríkjastjórnar.

Ég skrifaði fyrir u.þ.b. ári (27. júní) um þessar áhyggjur mínar en held að ég verði að treysta því að aðild Samfylkingarinnar að ríkisstjórn núna sé trygging fyrir því að við þessum málum verði ekki hróflað. Hannes Hólmsteinn, sá frægi frelsispostuli, er ekki lengur helsti ráðgjafi æðstu manna Sjálfstæðisflokksins, að því að mér skilst, en hann er á móti rétti kvenna til fóstureyðinga, og þá frelsi kvenna til að ráða því hvort og hvenær þær eignast börn . Ekki eru þó allir sammála um þessi mál innan Sjálfstæðisflokksins frekar en annarstaðar. Frjálshyggjumenn fundu til tevatnins í janúar í fyrra þegar þeir viðruðu skoðanir á fóstureyðingum og voru teknir á beinið á Tíkinni, ég heyrði þó enga gagnrýni gegn grein sem einn þeirra skrifaði í Þjóðmál síðar sama ár. En ég held að frjálshyggjumenn á þingi hafi sig hæga, málið er ekki líklegt til vinsælda, þeir halda sig frekar við sölu áfengis í matvörubúðum (eini Sjálfstæðismaðurinn sem væri líklegur til að segja eitthvað er Árni Johnsen, en hann er eindregið á móti rétti kvenna til fóstureyðinga.)

Ég talaði líka í færslunni í fyrra um að á Omega væri mikill áróður gegn fóstureyðingum (þó ekki eins mikill og gegn samkynhneigðum!) og hafði þá m.a. í huga hina frægu kvikmynd The Silent Scream, en hana vilja andstæðingar fóstureyðinga sýna öllum konum sem eru í vafa hvort þær vilji ganga fulla meðgöngu. The Silent Scream var sýnd um miðjan dag á Omega, á þeim tíma sem börn gætu hafa séð hana. Líklega hefði Omega-mönnum fundist bara betra ef einhver börn fengju martraðir og héldu að fóstureyðingar snerust um að pynta og drepa hugsandi veru.

Það ýtti svo við mér að skrifa meira um rétt kvenna til fóstureyðinga þegar ég las fréttir af páfanum og ferð hans til Suður-Ameríku nýlega. Áður en ég náði að skrifa allt sem ég ætlaði mér kom svo upp umræðan um fóstureyðingar og Downs-heilkenni og ég vissi um tíma ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga og hvaða hlið málsins ég ætti að reifa fyrst. Það varð úr að ég skrifaði allt sem mér kom í hug um málið og rifjaði upp margar deilur sem ég hef lesið á bandarískum bloggsíðum. Reyndi svo að afmarka ýmsa þætti málsins, enda nokkuð ljóst að blogger myndi ekki birta langlokuna eins og hún kom fyrir af skepnunni. Niðurstaðan er röð af færslum um fóstureyðingar, mikið til með hliðsjón af hvernig málin standa í Bandaríkjunum og þeirri umræðu sem stöðugt á sér stað þar og ég hef semsagt áhyggjur af að nái fótfestu hér.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, júní 18, 2007

Útilokandi leikreglur

Þegar konur fóru að benda á ýmislegt óréttlæti í samfélaginu og að konur væru beittar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, var sagt að þetta væri allt byggt á tilgátum, getgátum og sögusögnum og þær vinsamlega beðnar um að leggja fram tölfræðilegar staðreyndir.

Þegar konur voru almennt minna menntaðar en karlar, voru ekki með stúdentspróf eða bara með stúdentspróf en karlar með háskólapróf, þá var ástæða þess að þær fengju síður störf eða síður háar stöður sögð vera menntunarleysi þeirra og að menntun skipti öllu máli þegar ráðið væri í störf.

Nú, þegar endalausar kannanir og rannsóknir hafa verið gerðar á stöðu kvenna og tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir í hrönnum, þá eru útreikningarnir rangir (launamunurinn), fimm prósentin skipta meira máli en 95% (t.d. í klámumræðu) og það að tölfræðilegar upplýsingar séu yfirleitt lagðar fram sýni fram á ofsóknaræði feminista og að frelsi skipti í raun mestu máli, burtséð frá allri tölfræði.

Konur sækja háskóla núorðið meira og hafa ekki síðri og oft meiri menntun en karlmenn sem sækja um sömu stöður eða bjóða sig fram til starfa (þ.á.m. í framboðum), þá skiptir alltíeinu reynsla meira máli við mannaráðningar, svo og ‘keppnisskap’ eða álíka mannkostir.

Merkilegt hvað reglurnar breytast ört eftir því sem reynt er að aðlagast þeim. Eða ölluheldur, þegar konur fóru að láta eins og þær skiptu einhverju máli.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, júní 17, 2007

Dæmdar af orðum sínum – sýknaðir af illvirkjum

Í tveimur dómum sem nýlega voru felldir í Héraðsdómi Reykjavíkur (15. maí og 5. júní), var annarsvegar um að ræða 14 ára stelpu sem var uppdópuð þegar henni var nauðgað af fjórum strákum í einu, þeir voru á svipuðum aldri og hún, sá elsti var þó 17 ára. Hinsvegar var 16 ára stelpu nauðgað af þremur strákum í röð og voru þeir þá á aldrinum 17-18 ára. Í báðum dómunum var nánast ekkert haft orðrétt eftir strákunum (mesta lagi stök orð) heldur allt umorðað sem þeir sögðu fyrir dómi og hljóma orð þeirra mjög skynsamlega.

Í stelpurnar eru hinsvegar fjölmargar beinar tilvitnanir í dómsorðum. Þar eru öll hikorð tekin með, hvert „sko“, „hérna“ og „þú veist“ og ruglingsleg orðaröð frásagna þeirra látin halda sér. Stelpurnar hljóma því mjög ótrúverðugar og jafnvel heimskar, sérstaklega í samanburði við hina vel máli förnu stráka. Mér er spurn hversvegna þetta sé svona í dómsskjölum því varla er ofmælt að þarna halli mjög á stelpurnar, sem eiga þá sök eina að vera ungar og illa máli farnar.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júní 16, 2007

Fjögurþúsund brúðkaup og réttarhöld

Ég hef ekki tölu á hve mörg brúðkaup ég hef séð í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Nánast alltaf á ensku og gerast ýmist í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Mér finnst sem ég kunni athöfnina utanbókar og gæti tekið að mér hlutverk prestsins hvenær sem á því þyrfti að halda. En þó er líklega einhver blæbrigðamunur á þessum brúðkaupum öllum, því þau fara ekki endilega fram í evangelísk-lútherskri kirkju eins og þeirri sem er kölluð Þjóðkirkja hér á landi, heldur fara þessi brúðkaup fram að hætti kaþólskra, meþódista, baptista og í Ensku biskupakirkjunni, svo einhverjar kirkjudeildir séu nefndar, auk auðvitað brúðkaupa gyðinga (sem ég þekki bara af glasinu sem brotið er í lok athafnarinnar). Þessu rugla ég afturámóti öllu saman í hausnum á mér og finnst þetta allt sama tóbakið.

Það sama má segja um lagamál. Ég hef séð svo mikið af réttardrama og lögfræðingaþáttum að mér finnst sem ég gæti flutt mál fyrir a.m.k. héraðsdómi. Allar líkur eru þó á að lögfræðileg kunnátta mín eigi meir við bandarískt réttarkerfi en hið íslenska og skoðanir mínar á réttlátum dómum og ranglátum eigi fyrst og fremst við það fyrrnefnda. Sumt finnst mér hljóma ægilega amerískt og hvarflar ekki að mér að eigi við hér, eins og t.d. frasinn „svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa“ – en þó hef ég séð þessi orð í nýlegum íslenskum dómum. Og skókst þá enn heimsmynd mín og hugmyndir mínar um lög og rétt hér á landi og annarstaðar.

Dæmi um það sem ég hef heyrt að sé gott og gilt annarstaðar en veit ekki hvort notað er hér, er hvort fortíð konu sem kærir nauðgun er notuð gegn henni fyrir rétti eða hvort um það gildi sömu reglur og víða erlendis þar sem hvorki er leyft að ræða fortíð hennar né mannsins sem hún ásakar, stundum með þeim afleiðingum að karlmenn sem hafa áður verið dæmdir sekir um nauðganir eru sýknaðir en hefðu líklega ekki verið það ef dómari eða kviðdómendur hefðu vitað um sakaferilinn. (Nýlegt dæmi um þetta var á Nýja-Sjálandi þar sem nokkrir lögreglumenn höfðu stundað að nauðga ungum konum og voru dregnir fyrir rétt hvað eftir annað en sýknaðir í síðasta skiptið þó þeir sætu þá þegar inni vegna afbrota sinna. Kviðdómendur höfðu ekki hugmynd um annað en þarna færu sómakærir laganna verðir sem væru bornir röngum sökum.)

Mér finnst réttlætismál að ekki sé reynt að nota fjölda bólfélaga konu gegn henni þegar hún kærir nauðgun, enda ekkert sem segir að kona sem vill gjarnan sofa hjá A vilji kynlíf með B og þar af leiðir á hún að geta sagt „Nei“ við B án nokkurra afleiðinga. Afturámóti skiptir máli hvort karlmaður sem er sakaður um nauðgun hafi áður verið sakaður um það sama, hvortheldur sannast hefur á hann sök eða ekki. Mér finnst því ekki eigi að gilda það sama fyrir konuna og karlinn að þessu leyti.

Einhverntímann ætla ég svo að skrifa um prentfrelsi og málfrelsi, þar grunar mig að bandaríski skilningurinn sé annar en hinn íslenski og ég sé ekki sú eina sem ruglar þeim saman. Eða öfugt.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, júní 14, 2007

Gunnar og Geir

Það fór um mig ógeðshrollur þegar ég sá þá félaga Gunnar og Geira í Sjónvarpinu. Þegar svona menn tala um ærumeiðingar og lygar og segja að fólki hljóti að líða illa sem talar um það gerist á Goldfinger, þá líður mér eins og ég sé að horfa á sjónvarpspredikara sem boðar hatur í nafni kærleiksríks guðs. Mótsagnirnir skera í eyru.

Samt finnst mér skrítið þetta með meiðyrðin. Ef Gunnari finnst æðislegt á Goldfinger, afhverju er ærumeiðing í því fólgin að benda á það? Afhverju er hann ekki stoltur?

En það var greinilega gaman hjá starfsmönnum Sjónvarpsins sem fóru í vettvangskönnun á Goldfinger og mynduðu myndir af stelpum sem vinna þar, næstum eins gaman og þegar þeir mynda þær fáklæddar og dansandi. Sjónvarpsáhorfendur eiga skilið að fá að sjá brjóst og svona, alltaf gaman að því.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, júní 13, 2007

Að vera samkvæmur sjálfum sér

Mér þykja það nokkur tíðindi að Egill Helgason verði með bókmenntaþátt hjá Ríkissjónvarpinu. Miðað við allan þann fjölda af fólki sem bæði les mikið og hefur vit á bókum þá komu mörg önnur til greina til að stjórna slíkum þætti.

Sé svo miðað við orð Egils um að hann sé jafnréttissinnaður en geti ekki annað en tekið mið af kynjaskiptingu samfélagsins þegar hann velur viðmælendur í Silfur Egils, þá má búast við að Arnaldur Indriðason og matreiðslubækur verði helstu umfjöllunarefni hvers þáttar.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júní 09, 2007

Eru konur flottastar dauðar?

Í vikunni var sýndur á Skjáeinum þáttur af America’s Next Top Model þar sem keppendur áttu að þykjast vera dauðar í myndatökunum. Allar fengu fyrirsæturnar mikið hrós fyrir hvað þær væru flottar. Limlestar, dauðar og kynþokkafullar.

Í hverri viku má sjá kynþokkafullar (þ.e. ungar og grannar með stór brjóst) konur á líkskurðarborðinu í CSI. Í auglýsingum fyrir hryllingsmyndina Hostel er kynþokkafull nakin kona með afskorinn konuhaus undir hendinni.

Nóg er af ofbeldi í afþreyingariðnaðinum, nóg er af ofbeldi í heiminum, er ekki óþarfi að tengja það sérstaklega við (ungar, grannar, með stór brjóst) konur og að konur séu kynþokkafullar þegar þær hafa verið limlestar og drepnar?

Myndirnar á youtube

Myndirnar með athugasemdum dómara

Efnisorð: ,

mánudagur, júní 04, 2007

Lífið er súludans

Múrinn er hættur og er það mikill skaði. En eins og þegar Berlínarmúrinn féll og fólk hirti brot úr honum, ýmist til minningar eða til að græða á þeim, hirði ég nú brot af Múrnum og birti. Hin stolni pistill á einkar vel við um þessar mundir í allri umræðunni um heimsóknir bæjarstjóra Kópavogs á súlustaði. Höfundur pistilsins, sem birtist líka í Fréttablaðinu, er Sverrir Jakobsson.


LÍFIÐ ER SÚLUDANS

Sérhverjum frjálslyndum og þjóðhollum manni hlýtur að renna blóðið til skyldunnar þegar nöldurseggir ætla að vega að frjálsum viðskiptum í frjálsasta landi heimsins og banna atvinnugrein sem felst í því að karlkyns athafnamenn leigi stúlkur til að dilla sér berar upp við súlu og selji öðrum körlum aðgang að gjörningnum. Að sjálfsögðu verður að forðast að umræða um þetta mál sé sett í annarlegt samhengi þar sem hún á ekki heima.

Umfram allt verður að forðast hin háskalegu kynjagleraugu eða láta sér á nokkurn hátt hugkvæmast að þetta mál snúist um samskipti kynjanna, í fortíð eða nútíð. Sú staðreynd að konur hafa allt frá landnámi haft minni rétt en karlar og búið við hvers konar kúgun skiptir hér engu máli enda er engin söguleg þróun að baki samtímanum. Hann varð til úr engu. Misrétti fortíðarinnar telst nú horfið og útilokað er að það skilji eftir sig nokkur spor.

Annað sérlega varhugavert og háskalegt samhengi er að tengja þetta mál við stöðu karla og kvenna í samtímanum – hvað þá að gefa í skyn að misrétti fortíðarinnar sé ekki að öllu leyti horfið. Með engu móti má tengja þessa umræðu við hluti eins og að atvinnutekjur kvenna eru 62% af atvinnutekjum karla – í samfélagi þar sem auður manna er talinn helsti og merkasti mælikvarðinn á manngildi þeirra. Sýningar á nöktum konum tengjast á engan ólíkri aðstöðu kynjanna til fjáröflunar – nema auðvitað ef okkur langar til að halda fallega predikun um alla peningana sem stúlkurnar vinni sér inn með kroppasýningunni. En þá væri auðvitað sérlega ósmekklegt að setja þau laun í samhengi við hvað athafnamaðurinn sem stendur fyrir sýningunni ber úr býtum.

Á engan hátt tengist þetta mál því að kynferðislegt ofbeldi er ein af skýrustu leifum valdbeitingar karlasamfélagsins gagnvart konum – og að dæmin um það ganga nánast öll í eina átt. Ekki má heldur setja klæðnað kvenna í samhengi við félagslega stöðu þeirra eða undirokun gagnvart karlmönnum. Jú, kannski er það í lagi þegar við sjáum kappklæddar konur í Arabaheiminum en alls ekki þegar fáklæddar konur eru sýndar á sviði á Vesturlöndum.

Súludans má aðeins ræða í einu samhengi – samhengi frjálsra viðskipta og réttar karla til að hafa lífsviðurværi af því að sýna öðrum körlum berar konur. Það má ekki skerða atvinnufrelsi manna – enda er búið að skerða það nógu mikið gegnum tíðina.

Allir sjá t.d. hvílík nauðung það var þegar réttur karla til að gera út vændiskonur var afnuminn. Aðeins út af einhverjum hugmyndum um að manneskjur væru ekki söluvara. Vændi var þó einungis jaðaratvinnugrein miðað við þær tekjur sem mátti hafa af flutningi fólks á milli heimsálfa og sölu þess þar - þrælaversluninni. Glæstustu og auðugustu borgir Evrópu voru að verulegu leyti reistar á hagnaði af slíkri verslun á 17. og 18. öld. Á sínum tíma voru það aðeins óðir róttæklingar og undirróðursmenn sem gerðu athugasemdir við verslunina, en þá var jafnan gripið til kunnuglegra mótraka: Það er rangt að skerða viðskipta- og athafnafrelsi manna út frá einhverjum siðferðislegum sjónarmiðum.

Fáir líta nú þessa verslun sömu augum og þorri málsmetandi manna gerði þá. Sumir myndu jafnvel kalla það framfarir að þessi tiltekna gerð af viðskiptum var bönnuð. En það er einmitt kjarni málsins. Það ræðst jafnan af gildum samfélagsins á hverjum tíma hvaða viðskipti teljast eðlileg og hver ekki.

Hvað er það í okkar samtíma sem gerir það að verkum að sýningar á nöktum konum fyrir karla sem borga fyrir það teljast til frjálsra og eðlilegra viðskipta? Við því fást ekkert sérlega skýr svör ef ekki má setja upp kynjagleraugun eða líta á samskipti kynjanna í sögulegu og þjóðfélagslegu samhengi. Hvað þá ef við erum sannfærð um að okkar kynslóð sé hin fyrsta í sögunni sem er frjáls og laus við kúgun – rétt eins og íhaldsmenn fyrri tíma hafa alltaf talið sína kynslóð vera. Ef við trúum því í raun og veru að ójöfnuður karla og kvenna sé eðlilegur hluti af frjálsu samfélagi þá er niðurstaðan sú sem leiðarahöfundar (og hér er karlkynið ekki einungis málfræðilegt) dagblaðanna eru þegar búnir að komast að: Súludans er hluti af lífi í frjálsu samfélagi og þá skiptir engu máli að sumir reynast þrátt fyrir allt vera frjálsari en aðrir.

sj

Múrinn 24.9.2006
Fréttablaðið 23.9.2006

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, júní 01, 2007

Ómengað

Ég hef lengi hlakkað til þessa dags. Planið var að þræða veitingahús og skemmtistaði frá morgni og fram á rauða nótt, borða, drekka og dansa og koma svo heim örþreytt, södd og sæl og algerlega laus við reykingalykt af fötum og hári. En eftir því sem dagurinn nálgaðist las ég æ svæsnari upphrópanir reykingamanna, þar sem ekki var hikað við að blanda Hitler í málið. Mér sýnist stefna í blóðug slagsmál hvar sem áður mátti eitra fyrir þeim sem voguðu sér að vilja borða, drekka og dansa. Líklega er best að láta þessa helgi líða (og fylgjast með tölum um mannfall) áður en farið verður á mannamót.

Bakþankar Bergsteins í Fréttablaðinu í dag um reykingabannið eru snilld.

Efnisorð: