laugardagur, september 30, 2017

Sturlaður september

Það er algjörlega vonlaust að rekja aðdraganda og fall ríkisstjórnarinnar í einu mánaðaruppgjöri, og verður ekki reynt hér. Hinsvegar verða nokkur önnur mál rifjuð upp. Það nefnilega gerðist fleira í september.

Kvenréttindafélag Íslands gefur öllum fyrsta árs nemum í framhaldsskólum landsins bókina Við ættum öll að vera femínistar eftir Chimamanda Ngozi Adichie, um 4300 ungmennum. Snilldarframtak!

Það var líka gott að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemi United Silicon kísilverksmiðjunnar í Helguvík við Keflavík í byrjun mánaðarins og er verksmiðjan eiturspúandi nú komin í greiðslustöðvun. Eftir það hefur gengið á með fréttum um svindlibrask fyrrverandi forstjóra og helsta forkólfs verksmiðjunnar.

Sólarkísilverksmiðja Silicor Materials verður ekki reist á Grundartanga. Þetta eru góð tíðindi enda er ekki bætandi á mengandi stóriðju í Hvalfirði.

Sádi-Arabar fengu sólsting og í óráðinu leyfðu þeir konum að keyra bíla. Þetta er svo mikil hraðferð inn í nútímann að mann svimar. Hvað næst?

Eftir einn ei aki neinn, er gamalt slagorð. Því mætti snúa uppá smáfuglana en „Hífaðir þrestir og sjaldgæfir fuglar“ var fyrirsögn lítillar fréttar um þresti og gerjuð ber. Í fréttinni er sagt frá ölvunarflugi þrasta sem hefur stundum hörmulegar afleiðingar. Öl er böl.

Í september gerðist það að Kim Jong-un hafði rétt fyrir sér.
„Kim var engu myrkari í máli en Trump í yfirlýsingu sem kóreska ríkisfréttastofan birti í kvöld“, mátti lesa á vef RÚV 22. þessa mánaðar undir yfirskriftinni Kim segir Trump vera brjálaðan.
„Auk þess að lofa Trump maklegum málagjöldum fyrir hótanir hans í garð Norður-Kóreu dregur Kim geðheilsu hans í efa með vísan til þeirrar „brjálæðislegu hegðunar forseta Bandaríkjanna að nota vettvang Sameinuðu þjóðanna til að lýsa opinberlega siðferðislega forkastanlegum vilja sínum til að 'gjöreyða' fullvalda og sjálfstæðu ríki.“

Talandi um stríð og frið. Stanislav Petrov dó í mánuðinum, en honum er þakkað að hafa komið í veg fyrir kjarnorkustyrjöld, já eiginlega bara bjargað heiminum. Þrátt fyrir að öll mælitæki sýndu að bandarísk kjarnorkuflugskeyti stefndu í átt að Sovétríkjunum ákvað hann að taka mark á innsæi sínu því hann hafði á tilfinningunni að þetta stæðist ekki, væri ekki að gerast eins og einhver myndi líklega orða það í dag. Með því að tilkynna ekki um yfirvofandi árás var heldur engin gagnárás gerð af hálfu yfirboðara hans, og þannig forðaði hann heiminum frá kjarnorkustyrjöld. Þetta er vert að hafa í huga þegar skammast er útí tilfinningarök.

En aðeins aftur að meginumræðuefni þessa mánaðar og reyndar síðustu mánaða. Uppreist æru og meðmælendur hinna uppreistu. Eitt er það fyrirtæki sem hugsanlega komst í var vegna falls ríkisstjórnarinnar en það er Henson. Halldór Einarsson var í stutta stund óvinsælasti maður landsins og íþróttafélög og stuðningsmenn í vandræðum með Henson merktu íþróttabúningana sína. Það má með sanni segja að allt annað hafi fallið í skuggann af þeim upplýsingum að faðir forsætisráðherra skuli hafa veitt barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni blessun sína. Það verður því fróðlegt að vita hvort Henson treyjunum verður lagt, eða hvort mönnum finnist nóg að gert nú þegar búið er að svæla refinn úr greninu.

Þó fagna því kannski ekki allir að falla í skuggann af uppreistar æru málum.

Tvær heimildarmyndir voru sýndar í Ríkissjónvarpinu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í sömu vikunni. Sú fyrri var Out of Thin Air (þýdd sem Sporlaust en hefði mátt þýða sem Úr lausu lofti gripið) þar sem allt sakamálið var rakið en hin síðari hét Meinsærið — rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu og snerist um þann þátt málsins sem varð til þess að Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson voru dæmd fyrir meinsæri. Fyrri myndin var sýnd mánudaginn 11. september (en sama dag hafði úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagt að dómsmálaráðuneytinu gert að veita aðgang að gögnum um Robert Downey, og umræða næstu daga snerist um þau) en sú síðari fimmtudagskvöldið 14. september — nokkrum klukkutímum áður en ríkisstjórnin sprakk. Það hlýtur að vera sárgrætilegt fyrir Erlu Bolladóttur að þetta bar upp á sama tíma, því ef ekki hefði verið þessi ótrúlega vika með endalausum uppákomum, hefðu allar umræður snúist um Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Næsta mánuðinn verður hinsvegar endalaust talað um stjórnmál. Eða eins og við köllum það hér á bloggheimilinu: Jólin, jólin.


Efnisorð: , , , , , , , , , ,

sunnudagur, september 24, 2017

Wintrisflokkur einbúans í Hrafnabjörgum

Það eru góð tíðindi fyrir alla flokka og alla kjósendur að Sigmundur Davíð stígi skrefið til fulls og gangi úr Framsóknarflokknum. Hann hefur að því er virst hefur lítið eða ekki verið sýnilegur sem þingmaður flokksins allt frá því að Panamaskjölin og Wintris urðu til þess að almenningur krafðist þess að hann viki sem forsætisráðherra. (Reyndar var þess krafist að öll stjórnin færi frá en sú ósk fékkst ekki uppfyllt fyrr en mörgum mánuðum seinna og þá enduðum við með hinn Panamaformanninn sem forsætisráðherra!) Sigmundur hefur lítið mætt í vinnuna, en hafði þó þau skaðlegu áhrif að enginn flokkur treysti sér í ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn með þetta ólíkindatól í þingflokknum.

Nú hinsvegar getur Framsóknarflokkurinn gengið keikur til kosninga og á möguleika — eins og venjulega — að setjast í hægri eða vinstri ríkisstjórn, eftir því hver býður betur. Og þótt Framóknarflokkurinn sé alltaf Framsóknarflokkur (og illþolandi sem slíkur) þá er allt önnur og skárri tilhugsun að vera í samstarfi við Sigurð Inga heldur en Sigmund Davíð, hvað þá þegar flokkurinn er líka laus við Vigdísi Hauks.

Þá er bara vonandi að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir — borgarfulltrúi, flugvallavinur og allt þar til nýlega mikil vinkona Sveinbjargar, og á með henni heiðurinn af því að hafa sent Gústaf Níelsson í nefnd á vegum borgarinnar fyrir sig; já það er semsagt vonandi að hún fylgi Sigmundi Davíð að málum sem áður og gangi til lið við hann og hans allir-vondir-við-simma flokk.

Gallinn við þetta alltsaman er samt stór: Nú eru meiri líkur en minni að Sjálfstæðisflokkurinn verði enn á ný í ríkisstjórn með Framsókn sér við hlið.

Efnisorð:

þriðjudagur, september 19, 2017

Lauma þessu að meðan allir eru að tala um annað

Því hefur verið fleygt að besti tíminn til að flytja slæmar fréttir (af t.d. ársfjórðungsuppgjöri) eða játa á sig mistök sé þegar allir eru uppteknir við að fylgjast með öðru. Þá hverfur játningin í hafsjó frétta af öðrum og stærri málum, og viðkomandi kemst upp með að hafa játað án þess að þurfa að takast á við afleiðingarnar, að minnsta kosti ekki á sama hátt og ef þetta hefði verið eina krassandi frétt vikunnar.

Mér datt þetta si svona í hug þegar ég sá pólitíkus játa á sig kynferðisbrot. Samt svona meira almennt eitthvað kynferðisbrot, óljós fjöldi þolenda , óljóst kyn þolenda, allt frekar mikið í móðu og erfitt að festa fingur á hvað átt er við (hermt er að hann hafi átt við káf*). En samt játning og héreftir verður ekki hægt að segja að hann hafi leynt kjósendur neinu. Í stað fjölmiðlastorms er lítið um þetta fjallað og flestar athugasemdir eru hrós um heiðarleika.

Ef þetta er ekki góð tímasetning fyrir að vera með svona heldur óljósa játningu sem fellur í skuggann af öllum hinum skrásettu glæpunum með nafngreindum persónum og leikendum á öllum stigum þjóðfélagsins …


____
* Ef Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata var í raun að tala um káf þá flokkast það svona almennt talað undir kynferðislegt áreiti, en með orðalaginu kynferðisbrot (ýmislegt getur falist þar undir) verður Halldór seint sakaður um að gera of lítið úr hegðun sinni. Og getur nú tekist keikur á við hvaða kosningabaráttu sem er.

Efnisorð: ,

laugardagur, september 16, 2017

Upphafnir og uppreistir barnaníðingar

Heil helvítis ríkisstjórn sprakk í gær vegna þess að forsætisráðherrann þagði yfir því að faðir hans væri einn þeirra sem greiddi götu barnaníðings. Það má því heita óheppileg ráðstöfun að Ríkissjónvarpið skuli sýna kvikmynd Romans Polanskis í kvöld.

Roman Polanski er barnaníðingur. Þegar hann var 44 ára nauðgaði hann 13 ára stelpu, játaði en flúði frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði búið í nærri áratug. Þangað hefur hann ekki átt afturkvæmt því hann er enn eftirlýstur (nauðganir á börnum virðast ekki fyrnast þar í landi) og verður handtekinn og fangelsaður við komuna, stígi hann aftur fæti á bandaríska jörð. Það breytir þó ekki því að fjöldi leikara leikur með glöðu geði í myndum hans og hann hefur gert fjölda kvikmynda í útlegðinni.

Engin ríkisstjórn er í landinu vegna máls barnaníðings: á dagskrá er mynd eftir Polanski

Það vill einnig svo til að fyrir réttu ári, 16. september 2016, skrifaði forseti Íslands á skjal frá dómsmálaráðuneytinu að hann féllist á tillögu þáverandi dómsmálaráðherra Ólöfu Nordal, um uppreist æru barnaíðinga og nauðgara. Sá fyrsti sem við fréttum af var Robert Downey, sem hafði fengið dóm meðan hann hét Róbert Árni Hreiðarsson og lagði mikla vinnu í að tæla til sín og á endanum brjóta kynferðislega á fjölda ungra stúlkna. Næsta nafn: Hjalti Sigurjón Hauksson, hann nauðgaði stjúpdóttur sinni nærri daglega frá því hún var 5-12 ára. Sá þriðji,Sigurður Ágúst Þorvaldsson, hafði hlotið dóm fyrir að nauðga 17 ára stúlku.

Maður hefur gengið undir mann til að hjálpa barnaníðingunum til að hljóta uppreist æru, og hafa sjálfir misst við það mannorðið. Ríkisstjórn fallið.

Það var örugglega ekki með vilja gert hjá starfsfólki Sjónvarpsins að velja þennan dag — sléttu ári eftir að viðbjóðslegir glæpamenn fengu uppreist æru — til að sýna „sígilda“ bíómynd eftir Polanski, með aðfararorðum eins af aðdáendum myndarinnar. Auðvitað gat heldur engan grunað að ríkisstjórnin myndi springa. Dagskráin var kannski ákveðin mörgum mánuðum áður en allt þetta mál um uppreista æru fór af stað.

En í 40 ár hefur heimsbyggðin öll vitað um glæp Polanskis og það er ákaflega undarlegt hjá upplýstu fólki að draga fram myndir eftir hann til að hampa framan í almenning. Og í ljósi alls framangreinds hefði það verið sterkur leikur hjá Ríkissjónvarpinu að fella niður sýningu myndarinnar.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 14, 2017

Sjálfstæðisflokkurinn beitir stjórnsýslunni til að hylma yfir með föður forsætisráðherra sem „gerði lítið góðverk“ fyrir barnaníðing


Mér finnst endilega að Páll Magnússon eigi að fara aftur í pontu og endurtaka ræðuna frá í gær.

„Ég staðhæfði áðan að við gætum fagnað hrunlokum í efnahagslegu tilliti. Við höfum hins vegar ekki enn endurheimt hitt sem tapaðist í hruninu, traustið eða límið í samfélaginu. Þar höfum við verk að vinna hér í þessum sal. Byrjum á sjálfum okkur, eins og presturinn stakk upp á við þingsetninguna í gær. Hættum t.d. að væna hvert annað um að halda hlífiskildi yfir barnaníðingum eða að vilja ekki sýna börnum í hrakningum mannúð og samúð. Heldur einhver hér inni raunverulega að ég hafi meiri samúð með barnaníðingum en annað fólk af því að ég er Sjálfstæðismaður eða minni samúð með börnum sem eiga bágt af sömu ástæðu?“

Reyna svo að vera jafn reiður, já bara sárhneyslaður.

Efnisorð:

miðvikudagur, september 13, 2017

Stefnuræða spillingargosans og umræður um hana

Athugið að vegna mistaka vantaði úttekt á ræðu Steingríms Joð, henni hefur nú verið bætt við.

Stutt úttekt á nokkrum ræðum kvöldsins. Tengingar á ritaðar ræður á vef Alþingis eru í nöfnum ræðumanna.

Bjarnabófinn og spillingargosinn sem gegnir embætti forsætisráðherra ræddi í stefnuræðu sinni aðallega um kjaramál og að það mætti ekki hleypa pöplinum uppá dekk með kröfur sínar. Í ljósi fjárhagslegrar stöðu hans sjálfs og launanna sem hann þiggur er þetta helst til kaldranalegt, en þó auðvitað viðbúið.

Það er gömul saga og ný að Katrín Jakobsdóttir flytur frábærar ræður. Meginstef hennar var réttlæti. Mjög sterk nálgun. (Forsætisráðherra sjálfur var ekki með réttlæti í fyrirrúmi.)

Sigurður Ingi (sem ég heyrði nýlega kallaðan besta forsætisráðherra Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili) var árásargjarn, taldi upp kjólamál Bjartar Ólafsdóttur og tíuþúsundkalla klúður Benedikts fjármálaráherra. (Sjónvarpsvélar súmmuðu ekki á ráðherrana þótt tilefni væri til - en því oftar á Brynjar Níelsson við öll tækifæri í ræðum ýmissa þingmanna og ráðherra.)

Óttar Proppé er í allt öðru leikriti og spilar rullu frá öðru kjörtímabili. Er enn bara glaður og finnst mikilvægt að fá að vera memm. Talaði um íslenskt samfélag í fremstu röð (eins og Bjarni Ben). Virðist alveg ónæmur á óvinsældir sínar, er bara í gleðigírnum og finnst eins og allt sé gott.

Logi Einarsson með ágæta ræðu. Talaði um bryggjuverkamenn sem gengu sér til húðar og einsog fiskvinnslukonur og sjúkraliðar gera nú. Vitnaði í Brekkukotsannál og talaði vel um flóttamenn. Sagði að samúð og samkennd er líklega það fallegasta sem mannkyninu er gefið.

Þetta er hin vel til fundna tilvitnun í Brekkukotsannál:
„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur af stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbyggð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“

Sigríður Á Andersen var í vörn allan tímann. Talaði um Landsdóm, svo uppreist æru. Einnig bullandi vörn vegna flóttamanna.

Steingrímur Joð byrjaði með látum, talaði um óvinsældir ríkisstjórnarinnar og lýðveldismet í leti. Vandi sauðfjárbænda sem er félags og kjaramál, sveitastjórnarmál, ein tekjulægsta stétt landsins, og hvar var landbúnaðarráðherra, byggðaráðherra, félagsmálaráðherra? Eina lausn ríkisstjórnarinnar er að bændur bregði búi. Fjármálafrumvarpið nákvæmlega jafn ömurlegt og fjármálaáætlun. Svo veifaði hann rannsóknarskýrslunni um aðdraganda og orsakir falls bankanna og las yfir Bjarna Ben. Þvílík eldmessa!

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati var ágæt og baunaði hressilega á Brynjar Níelsson, Bjarna Ben og Sigríði Andersen.

Björt Ólafsdóttir sagði allt mjög skynsamlegt um náttúru og umhverfi, talaði gegn stóriðju. Minntist á innflytjendamál en engin önnur mál ríkisstjórnarinnar en þau sem snúa að hennar ráðuneyti, passaði sig greinilega á að taka enga ábyrgð á sveltistefnu ríkisstjórnarinnar (sama átti við um aðra þingmenn og ráðherra smáflokkanna í stjórnarliðinu).

Oddný Harðardóttir, ágæt ræða. Ræddi norræna módelið,en líka undirboð á vinnumarkaði og slæma framkomu við erlenda starfsmenn.

Silja Dögg Gunnarsdóttir framsóknarkona hafði mestar áhyggjur af hækkun eldsneytisverðs (virtist engar áhyggjur hafa af mengun og loftslagsbreytingum).

Theodóra S. Þorsteinsdóttir hélt mjög sjálfmiðaða ræðu um að hún væri að hætta á þingi.

Páll Magnússon talaði á eftir Oddnýju en fær hér sérstaka (en brotakennda) umfjöllun vegna ræðu sinnar. Hann emjaði undan gagnrýni um sveltistefnu, vill lækka skatta og fara betur með fé, vill halda uppá hrunlok einsog Vestmannaeyingar halda uppá goslok. Páll var reiður í ræðustól en reiðastur yfir því að Sjálfstæðismönnum sé brugðið um samúð með barnaníðingum og sagðir vera miskunnarlausir gagnvart börnum á flótta.

Ég hef samúð með Páli. Hann var laumusjalli öll sín ár í valdstöðum fjölmiðla en loksins þegar hann er kominn úr skápnum með stjórnmálaskoðanir sínar og kominn á þing þá eru allir að skamma Sjálfstæðismenn fyrir laumuskap og leyndarhyggju. Þvílík ósanngirni.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, september 12, 2017

Þingvetur að hefjast

Þing var sett í dag og fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram. Margt í því var fyrirsjáanlegt en olli samt vonbrigðum.


Fréttaskýring Stundarinnar um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber yfirskriftina
Fjárlög: Boða aðhald í heilbrigðismálum, samdrátt í hjúkrunarþjónustu og aukið samstarf við einkafyrirtæki
„Ríkisstjórnin boðar aukið samstarf við einkafyrirtæki í heilbrigðismálum. Útgjöld vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu dragast saman um tæpan hálfan milljarð og aðeins er gert ráð fyrir 597 milljóna aukningu til reksturs Landspítalans og 75 milljóna aukningu til Sjúkrahússins á Akureyri.“
Svo er þetta nánar útlistað:
„Fjárveitingar vegna þjónustu og reksturs Landspítalans aukast um 597 milljónir króna og um 75 milljónir hjá Sjúkrahúsi Akureyrar samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun. Þetta er umtalsvert minni aukning en stjórnendur spítalanna hafa fullyrt að þurfi til að tryggja viðunandi þjónustu við sjúklinga. 

Skýringin liggur aðallega í „stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhald í útgjöldum ríkissjóðs“ eins og það er orðað í fjárlagafrumvarpinu. Aðhaldið gerir það að verkum að útgjöld til Sjúkrahússins á Akureyri eru rúmum 40 milljónum lægri en þau ellegar væru og hjá Landspítalanum 332 milljónum lægri.

Þá fellur tímabundið framlag vegna hjúkrunar- og dvalarrýma, meðal annars til að mæta útskriftarvanda Landspítalans, niður á komandi fjárlagaári. Alls lækkar rekstrargrunnur hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu um tæplega hálfan milljarð á næsta fjárlagaári.

Framlög til byggingar nýs Landspítala verða 2,8 ma.kr. og hækka um 1,5 ma.kr. frá fjármálaáætlun. Áfram verður haldið með átak til að bæta núverandi húsnæði Landspítala. Þá er lagt til að veitt verði heimild til aukins samstarfs sjúkrahúsa og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við einkafyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. 

Alls aukast útgjöld til sjúkrahússþjónustu úr 83 milljörðum í 85,9 milljarða. Álíka mikil aukning er til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, úr 42 milljörðum í 45 milljarða. Megnið af aukningunni í heilbrigðismálum rennur hins vegar til uppbyggingar nýs spítala eða stafar af áætluðum launa- og verðlagsbreytingum.“
Ríkisstjórn Engeyinganna notaði semsagt ekki sumarið til að endurhugsa fimm ára fjármálaáætlun sína, eins og hún hefði betur gert.
„Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það sem hún kallar sveltistefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum, sem mörkuð var með fjármálaáætlun til fimm ára sem samþykkt var í vor, sé nú lögfest með fjárlagafrumvarpi næsta árs.“
Katrín segir ennfremur fjárlagafrumvarpið
„ganga í berhögg við ákall kjósenda í síðustu kosningum um að blásið yrði til sóknar í heilbrigðis- og menntamálum og uppbyggingu innviða“.
Ákall kjósenda kom tildæmis fram í 86 þúsund undirskriftum þeirra sem kröfðust þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Með því var ekki átt við að setja allan peninginn í steypubyggingar á spítalalóðinni eða til að hlaða undir einkarekstur vina og ættingja ríkisstjórnarforustunnar.

Það eru fleiri sem eru ekki himinlifandi með fjármálafrumvarpið. Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ:
„Stór velferðarverkefni eru mjög vanfjármögnuð. Þar má nefna rekstur heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar, húsnæðismál, breytingar á almannatryggingakerfinu gagnvart örorku- og lífeyrisþegum og svo sýnist okkur að bætur úr atvinnutryggingakerfinu séu í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lægstu laun.“
Þá bendir ASÍ á að útgjöld til barnabóta lækki að raunvirði auk þess sem vaxtabætur lækki verulega eða sem nemur tveimur milljörðum á næsta ár
„Það mun þá þýða fækkun á þeim sem eiga rétt á bótunum og þeim hefur nú þegar fækkað verulega á síðustu árum.“
Hér eru svo nokkur dæmi um hverju þarf að breyta til betri vegar í fjármálafrumvarpinu og raunar allri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Magnús Guðmundsson segir í leiðara Fréttablaðsins:
„… á tímabilinu frá 1998 til 2016 jókst skattbyrði langmest hjá þeim tekjulægstu. Þannig að á þessum tíma sáu stjórnvöld ástæðu til þess að ýmist halda í við eða létta álögur á þá sem afla meiri tekna á kostnað þeirra sem eru á því sem í daglegu tali kallast skítakaup. Þannig að á umræddu átján ára tímabili hefur stjórnvöldum tekist að auka skattbyrði t.d. para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) um 21%.“
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir þetta:
„Í nýrri könnun ASÍ kemur fram að skattar hafa hækkað á alla tekjuhópa frá árinu 1998, langmest á þá tekjulægstu. Á þessum 19 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár, lengst af í öndvegi. Hann hefur horn í síðu skatta og lítur alls ekki á þá sem leið til tekjujöfnunar. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú og á síðasta kjörtímabili, dregið úr þrepaskiptingu skattkerfisins, afnumið auðlegðarskatt og stórminnkað barna- og húsnæðisstuðning. Álögum hefur verið létt af ríkasta fólki landsins en verið auknar á venjulegt fólk, ekki síst þá tekjulægstu. Þetta er ómannúðleg forgangsröðun í samfélagi þar sem fjöldi fólks, á öllum aldri, berst í bökkum og meira en 6.000 börn búa við skort. Og það í góðæri.“
En einum hóp gleymdi ríkisstjórnin ekki.

Ríkissjóður verður rekinn með 44 milljarða afgangi á næsta ári. Þessa 44 milljarða hefði kannski mátt nota til að styrkja innviðina, hætta sveltistefnunni gagnvart mikilvægum stofnunum samfélagsins? Gera betur við gamla fólkið og öryrkjana? En nei, hverjir haldiði að fái að njóta velvildar ríkisstjórnarinnar? Ferðaþjónustan!
„Hins vegar hefur fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu verið frestað vegna þess að ferðaþjónustugeirinn gagnrýndi hana harðlega. Nú verður skatturinn hækkaður 1. janúar 2019 í stað þess að hækka um mitt næsta ár. Við þetta lækka tekjur ríkissjóðs á árinu 2018 um níu milljarða króna. Með öðrum orðum verða níu milljarðar króna, sem annars hefðu farið til ríkissjóðs, áfram hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu."
— Þar á meðal Kynnisferðum, sem er í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar. Erettekki krúttlegt?

En þótt frændurnir B og B séu uppteknir af að hygla sínum líkum (og ættingjum sínum) hafa kjósendur áhuga á að þingið sinni mörgum fleiri málum en komast endilega í fjárlagafrumvarpið. Það verður t.d. að laga margt sem snýr að eltihrellum, stafrænu kynferðisofbeldi, neteinelti, og rannsóknarskyldu lögreglu í vændismálum. Það þarf að auka fjárstuðning við menningarstofnanir (Ríkisútvarpið þar með talið), banna sjókvíeldi í núverandi mynd, auka byggðakvóta á Vestfjörðum og öðrum jaðarsvæðum. Einnig verður stjórnarskráin að komast á dagskrá (forsetinn bað í dag um að skerpt yrði á reglum um stöðu sína). Loka verður eiturspúandi verksmiðjum og hætta við að reisa fleiri, virkja minna en ekki meira, náttúran njóti vafans. Og svo þarf auðvitað að koma í veg fyrir að Mary Iserien (nígerísk, 8 ára) og Haniye Maleki (ríkisfangslaus, 11 ára) verði vísað úr landi, og til lengri tíma litið að gera Útlendingastofnun ljóst að Dyflinarregla er viðmið en gerir það ekki að skyldu að reka alla úr landi sem áður hafa tyllt niður fæti annarstaðar. Í staðinn mætti reka dómsmálaráðherra úr starfi (og hún má taka Bjarna Benediktsson með sér, þann spillingargosa).

Að lokum þetta.

Fyrir tæpum tveimur vikum sagði hinn eljusami baráttumaður Björgvin Guðmundsson þetta:
„Á næsta ári hækka lágmarkslaun á mánuði í 300 þúsund kr. fyrir skatt. Það er of lítið. Eldri borgarar og öryrkjar þurfa að hafa að lágmarki 400 þúsund fyrir skatt. Og að sjálfsögðu eiga lágmarkslaun að vera a.m.k. þessi fjárhæð. Telur einhver þetta of mikið til þess að lifa af? Nei, þetta er ekki of mikið. Þetta er aðeins brot af launum þingmanna, ráðherra og embættismanna. En ráðamenn í þessu landi vilja hafa mismunun í launum; þeir vilja hafa ójöfnuð í landinu.“ 
Þetta er rifjað upp í tilefni af viðtalinu við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í fréttum kvöldsins. Þar sagði hann aðspurður um hækkun á elli- og örorkulífeyri til einstaklinga sem búa einir upp í 300 þúsund krónur:
„Það munar auðvitað mjög miklu fyrir einstakling sem er ekki með nema 280 þúsund krónur á mánuði að fá 20 þúsund krónur í viðbót“.
Baldvin Þór Bergsson fréttamaður staldraði við og spurði nánar út í þessi orð, og útskýrði Engeyjarráðherrann þau þannig:
„Þá veltirðu hverri einustu krónu. Þannig að það munar um það. Þetta er ekki eins og fyrir einhvern sem er 600-700 þúsund að þá finnst honum þetta vera kannski minni fjárhæð en þarna erum við að tala um hækkun upp á um sjö prósent."
Þessi veruleikafirrti fjármálaráðherra og frændi hans stýra landinu. Fyrir utan prívat eignir og ættarauðinn eru þeir báðir svo heppnir að Kjararáð ákvarðar laun þeirra, og sker ekki við nögl: í fyrra hækkuðu laun ráðherra um 35% á einu bretti og eru litlar 1.826.273 krónur. Þarna erum við ekki að tala um hækkun uppá nein sjö prósent. Þá frændur munar ekkert um 20 þúsund kall til eða frá en finnst einhvernveginn að sú upphæð hljóti að skila hlutfallslega meiri kaupmætti þegar hún lendir í vasa þeirra sem eru við fátæktarmörk. Gvuð gefi að lítilmagninn muni eftir að vera Engeyjarfrændum þakklátur.

Það verður hlutskipti vinstriflokkanna í stjórnarandstöðu að berjast fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpinu og standa gegn einkavæðingarbröltinu. Betra væri þó að Engeyingarnir segðu af sér og leyfðu sér betra fólki að stýra landinu, en sú ósk mín rætist líklega ekkert á næstunni. Við sitjum uppi með þetta sérhagsmunagæslulið, svo sárgrætilegt sem það er.


Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

föstudagur, september 08, 2017

Hvalárvirkjun

Fjör hefur færst í náttúruverndarumræðu eftir að Lækna-Tómas við annan mann (Ólaf Má Björnsson augnlækni) skrifaði í blöðin um gönguferð sína um svæði það á Vestfjörðum þar sem stendur til að reisa rafaflsvirkjun í Hvalá. Tómas hefur birt (og mun birta fleiri) myndir af fossum sem munu hverfa ef af virkjunarframkvæmdum verður. Annarsvegar er það alltaf óvinsælt að „vera á móti framförum“ og hinsvegar þykir Tómas óheppilegur kandídat til að gagnrýna það sem gerist á Vestfjörðum því hann er búsettur í Reykjavík. Sumir Vestfirðingar virðast jafnvel telja að hann líti niður á þá vegna þess að hann sagði að þeir væru að láta plata sig með Hvalárvirkjun.

Allt hljómar þetta eins og endurtekið efni: áður var það Kárahnjúkar, Austfirðingar og Andri Snær Magnason. Nú eru eflaust margir Austfirðingar hæstánægðir með Kárahnjúkaframkvæmdina og álverið á Reyðarfirði sem nýtir rafmagnið þaðan (þá helst þeir sem vinna í álverinu eða búa nálægt og hafa atvinnu sem tengist álverinu á einhvern hátt) en einhverjum fannst svona eftir á að hyggja – ekki síst þegar í ljós kom hvernig fór um Lagarfljót — að þetta hefði nú kannski verið helst til skaðræðisleg framkvæmd.

En nú á semsagt að virkja fyrir vestan. Virkja á fallega fossa í fallegu landslagi sem er eitt af þessum ósnortnu víðernum sem fara óðum minnkandi hér á landi. Vestfirðingar vilja ólmir virkja (þ. á m. meirihluti hreppsnefndar Árneshrepps), og segja að það muni bæta til muna rafmagn og netið og alla þjónustu og vegina … Þeir telja virkjun semsagt til mikilla framfara og sjá fyrir sér aukin atvinnutækifæri og almennan uppgang. (Það sama segja þeir um laxeldi í sjókvíum.)

En ef marka má gagnrýnisraddir þá munu íbúar Árneshrepps sjálfir lítt fá útúr því að náttúran sem er næst þeim verði skemmd heldur muni annarsvegar Vestfirðingar á öðrum stöðum á Vestfjarðarkjálkanum njóta þess (í einhverjum mæli) en þó aðallega stóriðja á suðvesturhorninu, nánar tiltekið á Reykjanesskaganum þar sem hin geðþekka verksmiðja United Silicon hefur þegar verið reist, öllum til ómældrar gleði. (Það voru líka úrtöluraddir og neikvætt atvinnuhatandi fólk í 101 Reykjavík sem „talaði niður“ stóriðju á Suðurnesjum, en það má auðvitað ekki ræða það núna.) Það eru að auki, segir Tómas sömu fjárfestar sem eiga í fyrirhuguðum verksmiðjum á Suðurnesjum og berjast fyrir norður á Ströndum.
„Ljóst er að rafmagn frá Hválárvirkjun verður að stórum hluta nýtt til stóriðju fyrir sunnan, enda framleiðslan langt umfram þarfir Vestfjarða, sérstaklega þar sem Orkubú Vestfjarða framleiðir í dag í kringum 90 gígawattstundir árlega, aðallega í Mjólkurárvirkjun. Framkvæmdaaðilar við virkjunina eru aðallega tveir, HS Orka og Vesturverk. Tengsl HS Orku við stóriðju á Íslandi eru sterk en hún er í 68% eigu kanadísks fjárfestis. HS Orka er síðan eigandi að 70% Vesturverks. Ljóst er að orku vantar til stóriðju fyrir sunnan, til dæmis fyrir umdeild kísiliðjuver United Silicon í Helguvík. Áhugi HS Orku og Vesturverks á virkjun Hvalár er því mikill.“
Tómas segir að það trufli þá Ólaf félaga hans að
„eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldu-barónn sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68% hlutar í HS Orku - fyrirtækis sem síðan á 70% í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar. Því er vandséð að íslenskir eða vestfirskir hagsmunir séu í forgangi.“
Elín Agla Briem, íbúi í Árneshreppi segir hreint út: „Þannig er Vesturverk í raun handbendi Ross Beaty.“

Tómas segir að:
„Virkjanaárátta er stórt vandamál á Íslandi. Ljóst er að gríðarlegir hagsmunir er í húfi hjá orkufyrirtækjum og fjölda verktakafyrirtækja sem á síðustu 50 árum hafa tekið þátt í að auka orkuframleiðslu Íslendinga rúmlega tífalt.“
Talandi um orkuframleiðslu.
„Hvalárvirkjun hefur sífellt verið að stækka á teikniborðinu, og er nú 55 MW, sem er langt umfram orkuþörf Vestfjarða. Nafnið er úlfur í sauðagæru, enda ljóst að auk þeirra 35 MW sem fást með virkjun Hvalár og Rjúkanda bætast 20 MW við með virkjun Eyvindarfjarðarár. Réttara heiti væri því Hvalár-, Rjúkanda- og Eyvindarfjarðarárvirkjun, en í síðastnefndu ánni eru flestir af tilkomumestu fossunum – fossar sem heimamenn segja okkur að þeir myndu sjá mest eftir.

Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu. Það ferli virðist götótt og kanna þarf hvort reglum hafi verið fylgt. Við teljum eðlilega kröfu að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði metin að nýju, ekki síst fyrir þá staðreynd að nú er ljóst að tugir tilkomumikilla fossa í Eyvindarfjarðará munu að mestu þurrkast upp.“ 
Elín Agla bendir á
„Hvaleyrarvirkjun er 55 megavattavirkjun en Landsnet hefur aðeins lýst sig reiðubúið að kaupa 10 megavött fyrir Vestfirði,“ segir Elín Agla og bætir við: „Það eru valkostir um miklu minni virkjanir á Vestfjörðum sem myndu uppfylla þessa 10 megavattaþörf með miklu minna raski en Hvalárvirkjun.“
Lækna-Tómas hefur, eins og tæpt var á hér að ofan, verið gagnrýndur fyrir að skipta sér af því sem honum kemur ekki við, vera hrokafullur, tala niður til Vestfirðinga og ég veit ekki hvað og hvað. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag svarar hann þessum ásökunum og kemst þá þannig að orði:
„Með þessu viljum við kynna fyrir almenningi, ráðamönnum og þeim sem koma að þessari umdeildu framkvæmd hvað er í húfi. Og það gerum við á forsendum náttúrunnar. Ástæðan er sú að okkur hefur fundist skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans. Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður þeim sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.“
Það er ekki ný saga að sveitastjórnir liðki til fyrir virkjunaráformum. Það gerðist þegar Kárahnjúkavirkjun var reist, og þá hafa áform um frekari virkjanir í Þjórsá fengið góða smurningu í formi allskyns kostatilboða á borð við brúarsmíð og ljósleiðara. Sama er uppi á teningnum í Árneshreppi.
Elín Agla Briem segir höfðingjana í HS Orku búna að kasta ljósleiðara sem agni til íbúa Árneshrepps. „Það er svo auðvelt að koma og segja: „Heyrðu, við skulum redda ljósleiðara og hvað viljið þið meira? Klæðningu á skólahúsið?“ Það er eitt af samfélagsverkefnunum sem þeir vilja taka þátt í. Þá er heimafólk í erfiðri stöðu og ég skil alveg fólk sem kaupir þetta, þó ég sé ekki sammála því. Byggðastefna á Íslandi er bara stóriðjustefna því með henni geta stórfyrirtæki farið inn í sveitarfélög og lofað gulli og grænum skógum.“
Í augum náttúruverndarsinna skiptir náttúran auðvitað mestu máli. Þótt ekki verði af Hvalárvirkjun eru aðrir möguleikar í stöðunni. Á þá benti Tómas í fyrstu greininni: „Nærtækara og skynsamlegra er að leggja frekar áherslur á bættar samgöngur og sanngjarnari byggðakvóta til fiskveiða en virkja ósnortna náttúruperlu“.

Atkvæði Vestfirðinga hafa margfalt vægi á við lattelepjandi atkvæðin. Vestfirðingar gætu beitt atkvæðamagni sínu (beita þingmenn þrýstingi) til að fá byggðakvóta og samgöngubætur, og væri það betra til langframa heldur en þiggja sælgæti frá gírugum fésýslumönnum sem hafa hámarksgróða í öndvegi en hvorki fólk né náttúru.

En svo getur auðvitað vel verið að virkjunarmenn fái sínu fram, þeir kunna til þess leiðir, eins og Elín Agla hefur áttað sig á:
„Þetta er ekkert útkljáð og auðvitað er erfitt að standa gegn peningaöflunum sem þarna eru að verki“.


___

Búið er að skrifa helling um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og ekkert lát virðist á. Hér eru nokkrar frréttir en aðallega greinar með og á móti.* Byrjað er á tveimur greinum frá í fyrra eftir formann Landverndar.

Snorri Baldursson, Hvalárvirkjun á Ströndum: Mikil og óafturkræf umhverfisáhrif, 14. september 2016, https://kjarninn.is/skodun/2016-09-14-hvalarvirkjun-strondum-mikil-og-oafturkraef-umhverfisahrif/

Snorri Baldursson, Hvalárvirkjun á Ströndum: Ríkisstyrkur til einkaaðila, 15. september 2016, https://kjarninn.is/skodun/2016-09-14-hvalarvirkjun-strondum-rikisstyrkur-til-einkaadila/

[Skipulagsstofnun] Telur verulega neikvæð áhrif af Hvalárvirkjun, 4. apríl 2017, http://www.ruv.is/frett/telur-verulega-neikvaed-ahrif-af-hvalarvirkjun

Óskiljanlegt að Landvernd vilji hindra framfarir í Árneshreppi segir oddvitinn, 22. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629712 

[Sumir] Íbúar [Árneshrepps] ánægðir með fyrirhugaða virkjun í Hvalá, 25. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629326

Hvalárvirkjun bæti raforkuöryggi Vestfirðinga [segja forsvarsmenn virkjunarinnar], 26. júní 2017,
http://www.ruv.is/frett/hvalarvirkjun-baeti-raforkuoryggi-vestfirdinga

Saka Vesturverk um að gefa skakka mynd af afstöðu til Hvalárvirkjunar, 26. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629215

Sjálfstæðismenn komnir með uppí kok af Lækna-Tómasi og öðrum náttúruverndarsinnum, 3. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709773

Mjög fagurlega myndskreytt grein eftir Tómas Guðbjartsson, Fossarnir sem hverfa, 22. júlí 2017, https://stundin.is/grein/5125/fossarnir-sem-hverfa/

Viðtal við Elínu Öglu Briem: Virkjunarmálið snertir djúpar tilfinningar, 5. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170809490

Tómas Guðbjartsson, Stóriðju- og virkjanaárátta – stríð á hendur ósnortnum víðernum, 8. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170809246

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, Fossar til framtíðar í stað Hvalárvirkjunar, 30. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170839999

Auglýsa skipulag fyrir virkjun í Strandasýslu, 4. september 2017, http://www.visir.is/g/2017170909593

Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar gagnrýnir Lækna-Tómas: Vestfirðingum ekki boðið að borðinu, 5. september 2017, http://www.ruv.is/frett/vestfirdingum-ekki-bodid-ad-bordinu

Fréttaskýring [vegna ummæla um rammaáætlun]: Hvalá: Ásakanir um blekkingar bornar til baka, 7. september 2017, http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2017/09/vestfirdir_7sept_16sidur_web.pdf (bls. 9).

Tómas Guðbjartsson, Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum [andsvar við herferð Nannýjar Örnu], 8. september 2017, http://www.visir.is/g/2017170909021/umraeda-um-hvalarvirkjun-a-villigotum-

Að lokum má kannski minna á pistil frá 2013 eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson, um baráttu milli verndarsinna og heimamanna, http://www.dv.is/blogg/pall-asgeir-asgeirsson/2013/5/29/omar-ragnarsson-og-diane-fossey/

* Það er reyndar afar vond hugmynd að birta svona lista yfir fréttir og greinar um umdeild mál. Það hefur áður verið gert hér á blogginu, um mál Roberts Downey (áður Róberts Árna Hreiðarssonar) og um laxeldi í sjókvíum. Síðan listarnir voru fyrst birtir (með það að markmiði að safna saman á einn stað öllu því sem skrifað væri um þessi mál) hefur varla liðið sá dagur að fréttir og greinar hafi ekki bæst við, og hefur ritari bloggsins löngu gefist upp við að færa það til bókar. Ekki verður gengið í sömu gryfjuna hér því þessi upptalning á greinum um Hvalárvirkjunaráform verður ekki uppfærð.



Efnisorð: , ,

mánudagur, september 04, 2017

Smáfuglar urðu semsagt að Þröstum

Það mun vera ákveðið stílbragð að draga úr þegar hægt væri að nota hástig lýsingarorða. Dæmi um það væri þá kannski texti sem birtist með stuttmynd sem var á dagskrá ríkissjónvarpsins áðan. Þegar ég kveikti á sjónvarpinu sá ég kunnugleg íslensk andlit, ýtti þá á i-takkann á fjarstýringunni til að fá upplýsingar um hvað ég væri að horfa á, og þar var talað um margverðlaunaða kvikmynd og sagt að: „Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna“. Þarna hefði semsagt auðveldlega verið hægt að segja: Myndin er bönnuð börnum og fólk er almennt varað við að sjá hana.

Stuttmyndin sem um ræðir heitir Smáfuglar, og sami leikstjóri gerði kvikmyndina Þrestir sem ég skrifaði um í nóvember 2015. Það furðulega og klikkaða er að sama helvítis ógeðsnauðgunaratriðið er í báðum myndum. Í stuttmyndinni er það stutt, en seinna þegar leikstjórinn hafði tíma/peninga til að gera bíómynd í fullri lengd, gerði hann nauðgunaratriðið óbærilega langt. Þar lék önnur kornung leikkona en í stuttmyndinni, svo nú hafa áhorfendur séð tvær stelpur sæta þessari meðferð. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvað vakir fyrir manninum, og sturlast ef hann gerir enn eina kvikmynd þar sem hann skemmtir sér við þessa framsetningu eina ferðina enn.

Drullist svo til að vara við svona viðbjóði.


Efnisorð:

föstudagur, september 01, 2017

Frjálshyggja er (dulin) barátta fyrir eiginhagsmunum

Það væri hægt að skrifa hér pistil um misalvarlegu mistökin hennar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur en það er óþarfi að eyða í það kröftum því Illugi Jökulsson er alveg búinn að sjá um það mál. (Léttvægt en lýsandi dæmi um hugsunarhátt Áslaugar er ósk hennar um að horfa ókeypis á hnefaleikabardaga sem aðrir áhorfendur borguðu fyrir, öllu alvarlegra er að hún, sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, reyndi að koma í veg fyrir að mál Roberts Downey sé rætt á þingnefndarfundi.)

Nei hér verður í staðinn minnst á skoðanabróður Áslaugar í frjálshyggjunni. Arnar Sigurðsson hefur alloft skrifað í blöð og heldur úti bloggsíðu þar sem hann boðar frjálshyggjuboðskapinn og leggur sérstaka áherslu afnám ríkiseinokunar á sölu áfengis og vill að sjálfsögðu brennivín í búðir, einsog Áslaug Arna. Svo sköruglega hefur hann gengið fram að nú er búið að veita honum frelsisverðlaun SUS. Arnar er vel að frelsisverðlaununum kominn enda hefur hann verið vakinn og sofinn í óeigingjarnri baráttu sinni fyrir því mikilvæga frelsi til að geta keypt áfengi í matvörubúðum. Hér í gömlum pistli tekur hann af öll tvímæli um þjóðhagslegt mikilvægi baráttu sinnar:
„Viðskiptafrelsi er ekki baráttumál gráðugra kapítalista fyrir auknum gróða heldur forsenda fyrir hagsæld og þjóðarhag.“
En það vissi ég ekki fyrr en ég las fréttina um frelsisverðlaunin að Arnar Sigurðsson rekur víninnflutningsfyrirtæki.

Áslaug Arna vill afnema ríkiseinkasölu svo hún geti skroppið í matvörubúð á sunnudegi til að eiga hvítvín með humrinum sínum, en Arnar vill vera sá sem hagnast á áfengissölunni. Hvorugt er að hugsa um almannahag eða „frelsi“ heldur um eigið rassgat.

Efnisorð: , , ,