föstudagur, september 01, 2017

Frjálshyggja er (dulin) barátta fyrir eiginhagsmunum

Það væri hægt að skrifa hér pistil um misalvarlegu mistökin hennar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur en það er óþarfi að eyða í það kröftum því Illugi Jökulsson er alveg búinn að sjá um það mál. (Léttvægt en lýsandi dæmi um hugsunarhátt Áslaugar er ósk hennar um að horfa ókeypis á hnefaleikabardaga sem aðrir áhorfendur borguðu fyrir, öllu alvarlegra er að hún, sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, reyndi að koma í veg fyrir að mál Roberts Downey sé rætt á þingnefndarfundi.)

Nei hér verður í staðinn minnst á skoðanabróður Áslaugar í frjálshyggjunni. Arnar Sigurðsson hefur alloft skrifað í blöð og heldur úti bloggsíðu þar sem hann boðar frjálshyggjuboðskapinn og leggur sérstaka áherslu afnám ríkiseinokunar á sölu áfengis og vill að sjálfsögðu brennivín í búðir, einsog Áslaug Arna. Svo sköruglega hefur hann gengið fram að nú er búið að veita honum frelsisverðlaun SUS. Arnar er vel að frelsisverðlaununum kominn enda hefur hann verið vakinn og sofinn í óeigingjarnri baráttu sinni fyrir því mikilvæga frelsi til að geta keypt áfengi í matvörubúðum. Hér í gömlum pistli tekur hann af öll tvímæli um þjóðhagslegt mikilvægi baráttu sinnar:
„Viðskiptafrelsi er ekki baráttumál gráðugra kapítalista fyrir auknum gróða heldur forsenda fyrir hagsæld og þjóðarhag.“
En það vissi ég ekki fyrr en ég las fréttina um frelsisverðlaunin að Arnar Sigurðsson rekur víninnflutningsfyrirtæki.

Áslaug Arna vill afnema ríkiseinkasölu svo hún geti skroppið í matvörubúð á sunnudegi til að eiga hvítvín með humrinum sínum, en Arnar vill vera sá sem hagnast á áfengissölunni. Hvorugt er að hugsa um almannahag eða „frelsi“ heldur um eigið rassgat.

Efnisorð: , , ,