þriðjudagur, ágúst 15, 2017

Hér er talað um breskar hjúkkur og fleira

Breski hlaðvarpsþátturinn The Guilty Feminist* er alltaf tekinn upp fyrir framan áhorfendur og er grínaktugur mjög. Undirliggjandi þema er feminismi en allskonar málefni eru tekin fyrir, og svo eru þáttastjórnendur og jafnvel gestir þáttarins með uppistand. Stundum er þó brugðið útaf vananum og ákveðið málefni er tekið föstum tökum og minna er um glens og grín.** Þátturinn sem tekinn var upp 21. júlí og sendur var út í síðustu viku var til styrktar Royal College of Nursing Foundation, sem er styrktarsjóður Konunglega hjúkrunarskólans og er ætlaður fyrir hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, sjúkraliða og nema í fræðunum.

Þátturinn var mjög áhugaverður. Breska heilbrigðiskerfið (National Health Service, skammstafað NHS) er fjársvelt rétt eins og það íslenska, og af sömu ástæðu: pólitískum ákvörðunum stjórnvalda. Gestir þáttarins voru hjúkrunarfræðingar (allt konur eins og yfirleitt alltaf í þáttunum og þáttastjórnendur eru líka konur) og sögðu þær frá vinnuaðstæðum sínum og hvernig þær/og eða vinnufélagar þeirra eru smátt og smátt að brenna út í starfi. Laun breskra hjúkrunarfræðinga hafa lækkað um 14%, auk þess sem vinnuálagið eykst endalaust því æ færri leggja hjúkrunarstarfið fyrir sig; ekki bætir úr skák að þegar Bretland gengur úr ESB verður ekki lengur hægt að fá erlent vinnuafl. Í þættinum eru dregin fram viðhorf hjúkrunarfræðinga til starfs síns en einnig hvernig sjúklingar og aðstandendur hafa upplifað viðmót hjúkrunarfólks. Þetta var á köflum mjög átakanlegur þáttur (mikið fjallað um dauðann), en líka mjög fallegur því ástríða hjúkrunarfræðinganna fyrir starfinu er einstök.

Margt sem kom fram í þættinum rímar mjög við ástand mála á Landspítalanum þar sem álag á starfsfólk er gríðarlegt og æ færri fást til að sinna störfunum, mennta sig til að vinna við þær aðstæður og á afar lágum launum (hvað þá miðað við vinnuframlag og ábyrgð í starfi). Öll spjót standa nú á geðdeild Landspítalans vegna hörmulegs atburðar þar um helgina þegar sjúklingur stytti sér aldur. Í ljósi þess er vert að hlusta á þennan ágæta þátt. Fjársvelti, undirmönnun og endalaust álag á sama fólkið árið út og inn hlýtur að leiða til — og við vitum að það leiðir til — mistaka af ýmsu tagi, hvort sem það er í formi rangrar sjúkdómsgreiningar, lyfjagjafar eða að einstaklingar fá ekki þá umönnun sem þeir ættu að fá.

Það þarf að stórauka það fé sem ætlað er til reksturs Landspítalans. Það þarf að hækka laun og fjölga starfsfólki svo það flýi ekki til útlanda eða í einkageirann (þennan sem núverandi stjórnvöld eru að hlaða undir) og umfram allt að losa sig við ríkisstjórn sem lætur fara svona með gott fólk.

___
* The Guilty Feminist er fyrir alla (samviskubitna) feminista og aðra sem hafa gaman af breskum húmor.
Hér er síða þáttarins og hér er þátturinn sem um ræðir.
** Dæmi um það er þáttur sem var viðbragð við kjöri Trumps til forseta (sá þáttur fór í loftið 11. nóvember, og síðar annar (fór í loftið 8. febrúar) þar sem fjallað var um múslimaferðabannið sem hann reyndi að setja.



Efnisorð: , , , , ,