föstudagur, ágúst 11, 2017

Smælki í snemmágúst

Fyrirsagnir í Fréttablaðinu í dag voru furðulegar.

Á blaðsíðu 4 mátti finna stutta frétt um uppsagnir á frystitogara þar sem 54 skipverjar missa vinnuna. Fyrirsögnin var: Hetjum hafsins kastað fyrir borð. Þetta hefði einhverntímann kannski verið flott fyrirsögn, sannarlega ekki hlutlaus en mjög dramatísk og eftirtektarverð. En í ljósi þess að flóttamannasmyglarar hafa undanfarna daga kastað flóttafólki fyrir borð og látið það drukkna þá er þessi fyrirsögn alveg svakalega ósmekkleg. Á blaðsíðu 8 í blaðinu var einmitt nýjasta fréttin um slíkan voðaverknað og fyrirsögnin þessi: Var kastað fyrir borð og drukknuðu.

Spurningin er hvort fólkið með blaðsíðu 4 hafi aldrei átt samtal við fólkið sem sér um blaðsíðu 8, eða lesið fréttir víðar að. Þarf ekki að leyfa einhvern samgang þarna á milli?

Það var reyndar líka á blaðsíðu 4 sem fyrirsögnin rímaði allsekki við innihald fréttar um baráttu bónda í Hvalfirði við Norðurál á Grundartanga. Þar segir að frá tveimur rannsóknum á veikindum hesta í eigu bóndans og varð niðurstaða fyrri rannsóknarinnar (á vegum MAST) að hestarnir hefðu bara verið of feitir. Seinni rannsóknin sýndi að útilokað væri að veikindin væru vegna offitu en flúormengun hefði afturámóti verið fjórfalt meiri en í hrossum á „ómenguðum svæðum“. Niðurstaðan er því vægast sagt umdeild (og líklegra en ekki að flúormengun sé orsökin og að MAST hafi klúðrað krufningunum eins og svo mörgu öðru), en fyrirsagnasmiðurinn segir blákalt: Offita olli veikindum hrossanna. Hvaðan sem honum kom svo leyfi (eða fékk til þess fé) að fullyrða það. Eða náttúrlega viðkomandi er almennt ólæs á fréttir. En fréttin var svo birt á Vísi með breyttri fyrirsögn.
— Þess má geta að bóndinn benti meðal annars á í lagarökum sínum að MAST hafi engar rannsóknir á hrossum, innlendum eða erlendum til að styðjast við en láti tilgátur byggðar á mælingum í norskum dádýrum duga.

MAST reyndist algjörlega gagnslaust apparat þegar kom að aðbúnaði hænsna og fölskum fullyrðingum eggjaframleiðenda en nú hefur komið í ljós kollegarnir hjá hollensku matvælastofnuninni eru sennilega lítt skárri. Þeir eru grunaðir um að hafa vitað síðan í fyrra að hollensk egg hafi verið seld til manneldis á meginlandi Evrópu og á Bretlandi þrátt fyrir að vera menguð af skordýraeitri sem bannað er að nota.

Hvernig er það með matvælaiðnaðinn annars. Gengur hann almennt útá svindl, sóðaskap, frjálslega notkun eiturefna og svikna vöru? Um daginn var frétt um að innihald í kanadískum pylsum innihéldu iðulega allt aðrar tegundir af kjöti en gefið væri upp á umbúðum. „Sjö af 27 nautapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu svínakjöt. Ein af 38 svínapylsum innihélt hrossakjöt. Af 20 kjúklingapylsum, sem rannsakaðar voru, innihéldu fjórar kalkúnakjöt og ein nautakjöt. Og fimm af þeim 15 kalkúnapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu engan kalkún, einungis kjúkling.“ Alls innhéldu 20% af pylsunum innihéldu kjöt, sem ekki kemur fram í innihaldslýsingu. Það er sagt vera „lágt miðað við það sem gengur og gerist í Evrópu. Þar sé hlutfallið allt að 70% samkvæmt rannsóknum“.

Á Íslandi skemmtir pylsuframleiðandi sér við að auglýsa undir SS-heitinu á skiltum sem blasa við ferðamönnum sem leið eiga um höfuðborgina. Ég sá túrista sem voru nærri búnir að míga á sig af hlátri og tóku myndir af skilti við Hlemm í gríð og erg. Enda þótt engum hér á landi detti í hug að SS standi fyrir annað en Sláturfélag Suðurlands þá er útlendingum gefið undir fótinn með að Íslendingar séu of vitlausir til að fatta tenginguna við þýsku SS-sveitirnar. Og svo hlægja túristarnir að heimsku Íslendingunum. Sem þeir mega auðvitað alveg gera, en það er ekkert hlægilegt að forstjóri Sláturfélagsins láti eins og enginn þar innanhúss hafi rennt grun í að einhver gæti misskilið auglýsinguna.

Talandi um misskilning, ja eða bara vanþekkingu.

Eins og dyggir lesendur bloggsíðunnar vita stendur yfir stríð um kosti og galla sjókvíeldis. (Reynt er að bæta við heimildaskrá pistils um það efni eftir föngum, en það þyrfti að ráða sérstakan ritara í það verkefni, og sömuleiðis til að bæta við greina-og fréttasafnið um uppreista æru lögmannsins og barnaníðingsins Robert Downey sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson.)

Framkvæmdastjóri fiskeldisstöðva skrifaði semsagt seint í júlí svar við pistli séra Gunnlaugs í Heydölum um nokkrum dögum áður og umfjöllunarefni beggja var að sjálfsögðu laxeldi í sjókvíum. Svargreinin bar heitið „8. boðorðið“, sem framkvæmdastjórinn gerði líklega ráð fyrir að almennir lesendur þekktu jafnvel og presturinn. En sú sem bloggið ritar þurfti nú samt að fletta því upp hvert boðorðanna er það áttunda. En viti menn: íslenska Wikipedia segir að 8. boðorðið sé „þú skalt ekki stela“! Var framkvæmdastjórinn að dylgja um að sérann stundi ólöglegar netaveiðar á laxi? Þetta krafðist frekara gúggls. Niðurstaðan var auðvitað sú augljósa: áttunda boðorðið segir að „þú skalt ekki bera ljúgvitni“. Ekki ætla ég að treysta íslensku Wikipediu framar til að bæta úr vanþekkingu minni.

Að endingu aftur að fjölmiðlum. Að þessu sinni um mikilvægi þeirra. Appelsínugula erkifíflið í Hvíta húsinu (sem er þessa dagana á barmi þess að steypa heiminum í kjarnorkustyrjöld) hefur að hætti einræðisherra gert harða hríð að fjölmiðlum því hann þolir ekki að þeir gagnrýni sig og fletti ofan af skruminu, bullinu og vanhæfninni. Öfgahægrimenn (sem sumir eru hreinir fasistar) og aðrir aðdáendur hans taka hjartanlega undir með honum og skrækja að fjölmiðlar flytji falsfréttir. Markmiðið er auðvitað að almenningur hætti að treysta fjölmiðlum (en lesi bara heimskulegu yfirlýsingatístin frá þeim appelsínugula) og fjölmiðlarnir hverfi af vettvangi. Hér á landi hamast Björn Bjarnason með sama hætti á Ríkisútvarpinu, finnur því allt til foráttu og vill að það sé lagt niður. En það eru auðvitað ekki allir hægrimenn á þeirri skoðun að fjölmiðlar séu hættulegir, síður en svo. Þannig segir Þórlindur Kjartansson í pistli (sem að öðru leyti heldur leiðinlegur og að mestu helgaður því baráttumáli margra á hægri kantinum að pönkast á landbúnaðarkerfinu):
„Aðgangsharðir blaðamenn sem velgja valdhöfum og hagsmunasamtökum undir uggum eru mikilvægari fyrir lýðræðið heldur en flestir alþingismenn. Þess vegna er mikilvægt að fólk sé duglegt við að kaupa, lesa og styrkja fjölmiðla; jafnvel þá sem það er ósammála.“
Tveir ágætir íslenskir fjölmiðlar, Kjarninn og Stundin, bjóða lesendum að styrkja starfsemi sína með frjálsum framlögum eða áskrift. Lesendur bloggsíðunnar eru hvattir til að þekkjast það boð, eigi þeir aur afgangs.


Efnisorð: , , , , ,