fimmtudagur, júlí 27, 2017

Það er ekki eins og vanti umfjöllunarefni

Hér einu sinni var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Nú er slíkt óhugsandi. En einhverra hluta vegna fara sjónvarpsþættir Ríkissjónvarpsins í sumarfrí, svona einsog starfsfólk þurfi allt að vera í (löngu fríi) á sama tíma og ekki sé til sumarafleysingafólk. Alþingi er gagnrýnt fyrir að taka löng sumarfrí sem fylgja bústörfum til sveita — en Kastljósið fer líka í margra mánaða frí á sumrin. Svona eins og ekkert gerist í samfélaginu á sumrin sem væri vert að skoða nánar í Kastljósi.

Þó hefði kannski verið ágætt að hafa Kastljósið til að fjalla um Robert Downey sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, og láta embættismenn og ráðherra svara í sjónvarpssal hvernig stóð á því að æra hans var uppreist. Það væri ekki verra ef Kastljós gerði ítarlega úttekt frá öllum hliðum á laxeldi í sjókvíum. Og ekki væri verra ef framkvæmdastjóri PCC BakkiSilicon [sic] yrði látinn sitja andspænis Helga Seljan og látinn svara nokkrum vel völdum spurningum.

Því þannig stendur í bólið hjá Hafsteini Viktorssyni framkvæmdastjóra að honum finnst ekki að krúttlega kísilverið sem hann er að reisa þurfi að hlíta nýjum lögum um rykútblástur, eða allavega ekki nærri strax. Einhverra hluta vegna er Umhverfisstofnun sömu skoðunar og er elskusátt með að kísilverið fái undanþágu fyrstu tvö starfsár sín (svona eins og Thorsil og United Silicon) og megi þá menga fjórfalt meira með rykútblæstri en núverandi lög segja til um. Og framkvæmdastjóranum finnst einmitt þessi niðurstaða Umhverfisstofnunar réttlát (nefnir þó ekki undanlátssemina, eða skeytingarleysið um lög eða bara tilgang stofnunarinnar) og segir fyritækið verði „ekki í vandræðum með hertari losunarreglur“ að „aðlögunartímanum liðnum“.

Nú væri semsagt gott ef Helgi Seljan gæti spurt þennan mæta mann hvort hann áttaði sig eitthvað á því hversvegna svona almennt í heiminum væri verið að reyna að draga úr allskonar mengun. Hvort fyrirtæki ættu alltaf að fá að menga sem mest sem lengst bara vegna þess að það henti þeim og þeirra rekstri. Sömu spurningar mætti leggja fyrir forstjóra Umhverfisstofnunar.

Eða það þarf allavega einhver að velgja þessu liði undir uggum.


Efnisorð: , , , ,