miðvikudagur, júlí 12, 2017

Eftir einn fljúgi ei neinn

Sú beiðni stjórnvalda á Miðjarðarhafseyjum Spánar að hætt verði að selja áfengi á flugvöllum og í flugvélum er afar skynsamleg. Kófdrukkið fólk er ekki bara hvimleitt í flugvélum (og þegar það lendir á áfangastað) heldur er áfengisdrykkja um borð í flugvélum einstaklega galin hugmynd.

Í byrjun hverrar flugferðar fara flugfreyjur yfir ýmis öryggisatriði í því skyni að uppfræða farþega um hvernig eigi að bregðast við ef flugvélin tekur uppá að hrapa. Heilu myndböndin eru gerð í sama skyni. En svo situr hluti farþeganna og svolgrar í sig áfengi alla ferðina, sumir þegar byrjaðir á flugvellinum löngu áður en vélin fer á loft.

Það er vitað að viðbragðsflýtir fólks minnkar mjög með aukinni drykkju — þessvegna er nú svona heldur mælt gegn því að drukkið fólk aki bíl. Hversvegna í ósköpum er þá dælt áfengi í flugfarþega sem allir þurfa að geta brugðist skjótt við og veitir ekkert síður af því að hafa alla sansa í lagi ef neyðarástand skapast?

Þegar fólk byrjar að drekka á flugvellinum eru gefnar fyrir því ýmsar ástæður. Sumum finnst það tilheyra, það sé einhvernveginn fyrir utan lögsögu þess að þurfa að stilla sig um að drekka á öllum tímum sólarhringsins. (Það eru yfirleitt alkar eða upprennandi alkar sem hugsa þannig.) Aðrir segjast þurfa að róa taugarnar, án þess endilega að tiltaka hversvegna, meðan þeir hreinskilnu segjast vera flughræddir. Það eru haldin námskeið til að hjálpa því að yfirvinna flughræðslu svo það er ekki mjög góð afsökun. Það er örugglega líka hægt að fara í nálastungur eða dáleiðslu. Svo er líka hægt að leita sér lækninga við alkóhólisma. En áfengi er galin aðferð til að líða betur í flugvél. Því áfengisneyslan minnkar öryggi allra.

Efnisorð: , ,