þriðjudagur, júní 20, 2017

19. júní 2017 (jú víst) og bloggafmæli

Kvenréttindadagurinn (þið munið, þessi sem konur rændu af verkalýðskörlum) var í gær en vegna þess að í dag er bloggafmæli (11 ára) þá verða kvennabaráttumálum gerð skil hér og nú. Og vegna bloggafmælisins verður lítt hirt um að hrúga inn tenglum á hinar ýmsu fréttir, pistla og gvuðveithvað, heldur bara látið vaða á súðum.

1. súð
Þrjátíu konur voru kjörnar á þing í haust og eru konur því 48% þingmanna, og hafa aldrei verið fleiri. Það er afar jákvætt, alveg burtséð frá því hvaða flokkar fara með meirihlutavald á þingi (raunar eru aðeins fjórar konur ráðherrar á móti sjö karlmönnum, og er það mjög raunalegt). Ef ekki væri fyrir rétt kosningaréttinn, þennan sem (sumar) konur fengu 19. júní 1915 (ja, eða 19. janúar árið eftir, skv. nettröllum Kvennablaðsins) og rétt til kjörgengis þá væru auðvitað engar konur á þingi yfirleitt.

Seinni tíma kvennabarátta stuðlaði að því að kynjakvóti í stjórnun fyrirtækja var lögfestur (enn vantar þó nokkuð uppá að eftir því sé farið, rétt eins og lög um jöfn laun karla og kvenna sem sett voru 1961 hafa verið þverbrotin um áratugaskeið) og afleiðingin er meðal annars sú að stjórnmálaflokkar hafa ekki þorað annað en bjóða fram sæmilega jafn margar konur og karla (að undanskildum Sjálfstæðisflokknum auðvitað, sem missti í kjölfarið margar konur úr flokknum) og uppskeran er semsagt sú að konur á þingi eru næstum jafnmargar körlum. Það var ekki fyrir náð og miskunn karla sem konur settust fyrst á þing og það er heldur ekki körlum einum að þakka (þótt liðsinni þeirra hafi verið nauðsynlegt) að konur eru svona margar á þingi, heldur er það afleiðing þrotlausrar baráttu kvenna.

2. súð
Konur börðust líka fyrir frjálsum fóstureyðingum en hafa enn ekki haft fullnaðarsigur, því í stað þess að kona geti ákveðið uppá eigin spýtur að rjúfa þungun þá ber henni skylda til að tala við tvo aðila, þar af þarf a.m.k. annar að vera læknir og hinn þá félagsráðgjafi, og það er þeirra að kvitta uppá (vilji þeir svo; nú orðið er konum víst aldrei neitað um það) að þungunarrof sé framkvæmt.

Í Bretlandi standa nú yfir stjórnarmyndunarviðræður milli Íhaldsflokksins undir stjórn Theresu May og norður-írska DUP flokksins (Democratic Unionist Party). DUP er lengst til hægri í stjórnmálum og meðlimir eru flestir bókstafstrúarfólk sem fordæmir samkynhneigð og vill viðhalda banni við fóstureyðingum, en á Norður-Írlandi má aðeins rjúfa þungun ef líf konunnar er í hættu. Og Theresa May er tilbúin til að njóta þingstyrks þessa flokks þrátt fyrir þessi ömurlegu afturhaldsseggja viðhorf. Breskar konur mega þá líklega þakka fyrir ef DUP reynir ekki að hlutast til um hvernig fóstureyðingum er háttað á restinni af Bretlandseyjum.

Þessi furðulega staða í breskum stjórnmálum ætti að vera okkur hinum viðvörun um að réttindi okkar gætu líka verið í hættu, og að við þurfum alltaf að hamra á mikilvægi þeirra fyrir okkur sem einstaklinga og fyrir þjóðfélagið í heild.

3. súð
Áðan minntist ég á lög um jöfn laun. Nýsett lög um jafnlaunavottun eiga að draga fram mismun á launum karla og kvenna í fyrirtækjum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri. Lögunum er ekki ætlað að jafna kjörin heldur upplýsa hvaða fyrirtæki mismuna kynjunum í launum og þá hve mikið, skilji ég lögin rétt. Það verður áhugavert að sjá í fyrsta lagi hvort fyrirtækin gangast undir þetta ferli og í öðru lagi hvort 'opinber smánun' verði til þess að þau stökkvi til og breyti launastefnu sinni. Í framhaldinu myndast svo kannski pressa á minni fyrirtæki, þessi sem lögin ná ekki til, að standa sig líka í launajafnréttinu. Það væri nú aldeilis frábært, en ég óttast þó að menn rífi bara kjaft og útskýri í drep nauðsyn þess að þessi og þessi einstaklingur — sem alveg óvart er karlmaður — fái hærri laun og sporslur og fríðindi en þessi alveg óvart lægra launaði kvenmaður. Og húrrakór andfeminista og þeirra sem eru á móti 'stjórnlyndi' verði þeim næg hvatning til að halda áfram að mismuna fólki eftir kyni. En samt, lögin eru jákvæð tilraun til að rétta hlut kvenna, og í allra besta heimi allra heima ganga þau upp.

En þá á samt eftir að jafna laun milli starfsstétta, svo að konur sem að meirihluta manna stöður í t.a.m. umönnunarstörfum, fái laun sem eru sambærileg öðrum stéttum þar sem karlar eru enn í meirihluta. En hér verður ekki farið útí svo bjartsýnar pælingar að sinni. Áfram með lög og rétt.

4. súð
Það líður varla sá dagur að konu sé ekki nauðgað eða hún barin á Íslandi, samkvæmt tölfræði frá bráðamóttöku, lögreglu, Kvennaathvarfi og Stígamótum. Samt er það í lögum að ekki megi berja, nauðga eða á annan hátt beita konur ofbeldi (lög um nauðgun eru þó meingölluð). Þeir karlar sem fremja verknaðinn eru fordæmdir hátt og í hljóði og karlmennska þeirra er dregin í efa því enginn almennilegur karlmaður lemur konur / nauðgar konu. En það á bara við meðan 'nauðgarinn' er óhlutbundið hugtak. Um leið og hann er nefndur á nafn þá á hann vini og ættingja sem verja hann, segja hann ekki vera þannig mann, hann myndi aldrei berja eða nauðga, þetta sé allt lygi, athyglissýki, geðveiki, peningagræðgi. Ef hann er fjallfrægur eða muscleboy vinsæll er enginn endir á fólki sem vill sýna hollustu sína við frægðarmennið. Enn er því talsverður munur á milli laganna hljóðan og viðhorfa, annað er (næstum) í lagi en hitt sveiflast eftir því hver á í hlut.

Ekki bætir úr skák hvernig lögregla og dómskerfi (og stundum ákæruvald) bregst þolendum allra handa ofbeldis, sinnir málunum ekki, sýknar seka eða í mesta lagi dæmir eins væga dóma og mögulegt er. Öll þess linkind og meðvirkni með glæpamönnunum er vanvirðing við andlega og líkamlega heilsu fórnarlambanna. Ofbeldismönnum (hvort sem þeir beita líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi) eru með þessu gefin þau skilaboð að konur séu þeim óæðri og það megi beita þær ofbeldi. Konum almennt er þá líka komið í skilning um að þær séu bara kjötskrokkar fyrir karla að fá útrás á, og að það þýði ekki að kæra; ofbeldi sé nokkuð sem konur verði að sætta sig við. Það eru vond skilaboð.


Hvað er þá alveg í lagi í jafnréttasta landi í heimi? Jú það virðist reyndar vera í lagi með ungu kynslóðina. Stelpurnar með átökin og opnu umræðuna: um áreiti, brjóst, geðveiki, kynferðislega mismunun, kynferðisofbeldi, og tíðablæðingar. Hvernig þeim tókst að verða svona frábærar er undrum líkast.

Ég vil þakka það feministum.

Efnisorð: