sunnudagur, júní 04, 2017

Að uppfylla eitt skilyrði er ekki nóg

Aðeins aldarfjórðungur er síðan samkynhneigð var ólögleg á Írlandi. Á síðasta ári var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi að leyfa hjónabönd samkynja para eftir harðvítuga baráttu. Nú í mánuðinuum mun svo samkynhneigður sonur indversks innflytjanda verða næsti Taoiseach (írski titill forsætisráðherra). Sá sem gegnt hefur embættinu síðan 2011 og lengi verið formaður Fine Gael flokksins (sem er sambærilegur Sjálfstæðisflokknum) sagði af sér í maí og eftir stutta baráttu um leiðtogasætið varð niðurstaðan sú að Leo Varadkar tekur við af honum sem formaður og þ.a.l. sem forsætisráðherra, að því gefnu að þingið samþykki hann: í stuttu máli sagt er hann ekki kosinn í embættið frekar en Theresa May.

Leo Varadkar hefur verið þingmaður frá 2007, og gegndi starfi ráðherra samgöngumála-, ferðamála og íþrótta 2011–14, var heilbrigðisráðherra 2014-16, og hefur verið félagsmálaráðherra frá 2016. Og nú verður hann yngsti forsætisráðherrann.

Rétt eins og þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra er það fyrst og fremst erlenda pressan sem einblínir á kynhneigð tilvonandi forsætisráðherrans. Heimamenn kippa sér ekki upp við það (eða að hann á indverskan pabba) en eru því uppteknari af þeim málefnum sem hann stendur fyrir og hefur barist fyrir eða gegn.

Það er nefnilega ekki eintóm gleði vegna nýja forsætisráðherrans. Hann er nefnilega harðlínu íhalds- og frjálshyggjumaður.

Sem heilbrigðisráðherra skar hann hressilega niður í framlögum til geðheilbrigðismála.

Sem félagsmálaráðherra barðist hann gegn bótasvikum (við könnumst við slíka baráttu hér og hversu rakalaus sú herferð var) og er fyrir vikið átalinn fyrir að vera fjandmaður fátækra og þeirra sem minna mega sín.

Hvorki sem heilbrigðis- né félagsmálaráðherra lagði hann baráttu fyrir lögleiðingu fóstureyðinga lið enda er hann á móti þeim. Hann vill svosem leyfa þær ef fóstrið er ekki lífvænlegt og ef líf eða heilsa konunnar er í hættu eða henni hafi verið nauðgað, en allsekki að þær verði gerðar að hentugleika kvenna. Aðspurður sagðist hann hinsvegar nýlega (í aðdraganda leiðtogakjörsins) vilja setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann er í stuttu máli enginn talsmaður félagslegs réttlætis eða þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þessvegna eru fagnaðarlæti Íra afar takmörkuð við þessi fyrirhuguðu tímamót, en það hefur ekkert með kynhneigð hans að gera.

Mér finnst auðvitað jákvætt að konur verði ráðherrar. Feministar vilja að konur fái að gera það sem þær vilja og hafi þær áhuga á að klífa metorðastiga stjórnmálanna er það gott mál. En það er ekki þar með sagt að feministar verði að fagna öllum konum þegar þær komast í áhrifastöður. Mér finnst t.a.m. Sigríður Andersen fráleitt góður kostur og mér finnst hún vondur dómsmálaráðherra. Mér finnst heldur ekkert að mér beri nein skylda til að standa með henni bara vegna þess að hún er kona (ja nema ef ætti að gera aðsúg að henni fyrir það eitt að vera kona). Samt er það svo að feministum er oft brigslað um að taka konur fram yfir karla í öllum tilvikum. En svo erum við auðvitað líka skammaðar fyrir að halda ekki með konum sem hafna feminisma eða eru á öndverðu máli við okkur í pólitík.

Stuðningsmenn réttinda hinsegin fólks hafa heldur ekki allir ástæðu til að fagna því að Leo Varadkar verður forsætisráðherra Írlands. Eða innflytjendur að sonur eins þeirra komist til æðstu metorða. Þó viljum við auðvitað að innflytjendur, konur og hinsegin fólk eigi sömu möguleika og innfæddir hvítir gagnkynhneigðir karlar þegar kemur að menntun og vinnu. En þegar til kastanna kemur skiptir pólitísk afstaða og meðferð valds öllu máli.

Óskandi væri að þetta fari saman og við gætum fagnað heilshugar góðu fólki í mikilvæg embætti.

Efnisorð: , , , , , ,