miðvikudagur, maí 10, 2017

100 milljónir til eða frá, ekki segja frá

Rannsókn sem náði allt aftur til ársins 1779 leiddi í ljós að karlkyns fræðimenn væru 56% líklegri en konur til að vitna í eigin verk þegar þeir skrifa fræðigreinar og bækur. Þessi tilhneiging hefur reyndar aukist með tímanum og á undanförnum tuttugu árum (rannsóknin náði til ársins 2011) mælast karlmenn 70% líklegri til að vitna í sjálfa sig en konur.

Þetta fannst mér fyndið. Auðvitað aðallega vegna þess að kallar eru svo hrikalega ánægðir með allt sem þeir gera að þeir geta ekki stillt sig um að segja umheiminum frá því aftur og aftur. En stór hluti kæti minnar stafaði þó af því að vandfundinn er sá laumubloggari sem vitnar oftar í sjálfa sig en ég. Og hitti því þarna mig fyrir í hópi sjálfbirgingslegra karla.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á pistil frá 16. febrúar þessa árs, sem ég hafði gleymt að lesa, en höfundurinn er Þorvaldur Gylfason sem skrifar í Fréttablaðið. Ég ætla mér allsekki að gera gys að Þorvaldi en það vill svo til að hann notar pistilplássið til að birta „að gefnu tilefni fáeinar orðréttar tilvitnanir í eigin skrif um bankamál frá árunum 1987-2016“.

Það er alveg þess virði að lesa þessar sjálftilvitnanir Þorvaldar en ein þeirra vakti sérstaka athygli mína, semsagt þessi.
„Frumvarp Eyglóar Harðardóttur alþingismanns um, að birtar verði upplýsingar um, hverjir hafa fengið afskrifaðar skuldir yfir 100 mkr. í bönkunum, náði ekki fram að ganga á Alþingi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn skulduðu bönkunum hver um sig 100 mkr. eða meira, þegar bankarnir hrundu, sumir miklu meira. Meðalskuld þessara tíu þingmanna við bankana var 900 mkr. Enn hefur ekki verið upplýst, hversu farið var með þessar skuldir alþingismannanna tíu. Hver getur tekið mark á slíkum þingmönnum í umræðum um bankamál? … Þessar upplýsingar skipta máli vegna þess, að bankarnir hafa látið bera varnarlausa viðskiptavini út af heimilum sínum í stórum stíl ... Bankaleynd á rétt á sér að vissu marki, en henni má ekki misbeita til að mismuna viðskiptavinum bankanna. Í bönkum eins og annars staðar eiga allir að sitja við sama borð.“ (DV, 15/3/2013).
Mér varð þessi lesning mér tilefni til að seilast í 2. bindi Rannsóknarskýrslunnar og lesa þessar tvær blaðsíður sem rekja hver skuldaði hverjum og hve mikið. Og fyrir tilstuðlan rafrænnar birtingar á vef Alþingis birti ég það hér. Töflum er sleppt en nöfnum stjórnmálaflokka bætt inn til glöggvunar. Um skuldir fjölmiðlamanna (þ.á m. Björns Inga) má lesa í kaflanum 8.11.3 sem er ekki birtur hér.

8.11 Lánafyrirgreiðslur til alþingis- og fjölmiðlamanna

8.11.1 Inngangur
Til að kanna hvort alþingismenn og fjölmiðlamenn hafi notið óeðlilegrar lánafyrirgreiðslu í íslensku bönkunum var eftirfarandi greining gerð. Fyrir hvern aðila, þingmann eða fjölmiðlamann, var samanlögð lánastaða aðilans sjálfs, maka hans og félaga í helmings- eða meirihlutaeigu þeirra í Glitni, Kaupþingi, Landsbanka og Straumi-Burðarási könnuð. Þessi heildarlánastaða var könnuð aftur til byrjunar árs 2005 og hæsta heildarlánastaða tímabilsins skráð. Þeir aðilar sem höfðu yfir 100 milljónir að láni alls, samkvæmt þessari aðferðafræði, voru skoðaðir sérstaklega og er þeirri athugun lýst hér að neðan.Viðmiðið var valið með það í huga að flest lán undir þessum mörkum eru eingöngu húsnæðislán og telja má slíkt til eðlilegrar fjármögnunar einstaklinga.
[…]

Kafli 8.11.2 Alþingismenn
Tafla 23 sýnir þá þingmenn sem höfðu, ásamt maka og félögum þeirra, heildarlánastöðu yfir 100 milljónum króna einhvern tímann frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna í október 2008. Hæsta útlánastaðan sést í töflunni og tímasetning hennar.

Öll veruleg lán sem tengjast Sólveigu Pétursdóttur [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura ehf., og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga. Helstu verðbréf sem lágu að baki þeim samningum voru hlutabréf FL Group hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. og skuldabréf Icebank. Í stærstu lánum og framvirkum samningum Kristins og Mercatura var Glitnir mótaðili. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200–300 milljóna króna lán hjá Landsbanka á tímabilinu.

Öll veruleg lán sem tengjast Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur [Sjálfstæðisflokkur, nú Viðreisn] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar. Stærstu lánin voru fyrst til Kristjáns beint en síðar til félags í hans eigu, 7 hægri ehf., vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Kristján var framkvæmdastjóri í bankanum og tengdust lánin starfshlunnindum til hans en um það er nánar fjallað í kafla 10.0.

Öll veruleg lán sem tengjast Herdísi Þórðardóttur [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Jóhannesar Sigurðar Ólafssonar, eða félags í sameiginlegri eigu þeirra. Stærstu lánin voru í gegnum framvirka samninga um íslensk hlutabréf, svo sem hlutabréf FL Group hf., Landsbanka Íslands hf., Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og Actavis Group hf. Umfang viðskiptanna var mest árið 2006. Á árinu 2005 gerði Jóhannes S. Ólafsson ehf., félag í sameiginlegri eigu þeirra hjóna, nokkuð af framvirkum samningum en um nokkru lægri fjárhæðir en Jóhannes sjálfur.

Öll veruleg lán sem tengjast Lúðvík Bergvinssyni [(Alþýðuflokkur, þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin]á tímabilinu voru á vegum fasteignafélags í helmingseigu hans, Miðkletts eignarhaldsfélags ehf., og voru þau fengin hjá Landsbanka Íslands hf.

Öll veruleg lán sem tengjast Jónínu Bjartmarz [Framsóknarflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Péturs Þórs Sigurðssonar. Jafnframt voru öll veruleg lán til félags Péturs, Lindarvatns ehf. Lánveitandi félagsins var Landsbanki Íslands hf.
Stærstu lán Árna Magnússonar voru í Glitni banka hf. en Árni var ráðinn sem forstöðumaður til bankans árið 2006. Lánafyrirgreiðslurnar voru annars vegar til Árna sjálfs og hins vegar til félags í hans eigu,AM Equity ehf., en það félag fékk 100 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum.

Helstu lán Ármanns Kristins Ólafssonar [Sjálfstæðisflokkur] voru annars vegar lán í Kaupþingi banka hf. og hins vegar lán í Landsbankanum í gegnum framvirka samninga. Undirliggjandi í þeim samningum voru ýmis hlutabréf, innlend og erlend. Stærstu samningarnir voru um hlutabréf Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.

Helstu lán Bjarna Benediktssonar [Sjálfstæðisflokkur] voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga. Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.

Öll veruleg lán sem tengjast Ástu Möller [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Hauks Þórs Haukssonar. Stærsti hluti þeirra lána var í gegnum framvirka samninga sem Stafholt ehf., félag Hauks, og Investis ehf., félag í helmingseigu Stafholts, gerðu. Stærstu samningarnir voru um íbúðabréf, þ.e. skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Framvirku samningarnir voru gerðir við Kaupþing banka hf. en lán voru í Landsbanka Íslands hf.

Þau lán sem tengjast Ólöfu Nordal [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru lán til hennar og eiginmanns hennar, Tómasar Más Sigurðssonar, og voru aðallega í Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.

Allt þetta höfum við lengi vitað (og líka að Sjálfstæðismenn voru í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem skulduðu yfir 100 milljónir), en rétt eins og Þorvaldur sá ástæðu til að rifja þetta upp að hluta þá finnst mér ágætt að birta þetta nú. Ekki síst vegna þess að Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, er þarna meðal skuldara, og við vitum að hann bæði átti aflandsfélag og sótti um (og fékk?) skuldaleiðréttingu hér um árið. Og hver veit hvað hann fékk afskrifað í bönkunum, á sama tíma og minna merkilegt fólk var þvingað til að greiða allt í topp eða var gert gjaldþrota ella, eins og Þorvaldur bendir á. Svo má ekki gleyma að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og bróðir Einars Sveinsonar fyrrverandi stjórnarformanns Glitnis, tók 500 milljónir króna út úr Sjóði 9 hjá Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Feðgarnir forðuðu báðir miklum fjármunum úr Glitni fyrir hrun. Bjarni Benediktsson var á fundi með Glitnismönnum nóttina fyrir yfirtöku.

Það hefur því lengi verið mikið peningaflæði kringum Bjarna. Verst hvað lítið af því lendir sem skattskyldar greiðslur í ríkissjóðnum, þessum sem Bjarna er svo umhugað um að skammta öðrum naumt úr.



Efnisorð: , , ,