miðvikudagur, apríl 26, 2017

Dýraníðingar njóta mikils skilnings

*Varúð, hér eru lýsingar á dýramisþyrmingum*


Bloggfærsla um búnaðarsamninginn frá september síðastliðnum fjallaði í raun um dýravernd og viðhorf til dýraverndar. Þingmenn kusu þar gegn tillögu um að refsa bændum fyrir vonda meðferð á dýrum (refsingin yrði fólgin í því að fella niður opinberar greiðslur til bænda sem gerast uppvísir að dýraníði). Eftirlit með aðbúnaði dýra þarf að vera öflugt, en það þarf að bæta við úrræðum til að taka á dýraníðingum. Þingmennirnir 26 sem komu í veg fyrir að hægt væri að láta dýraníðinga finna til í pyngjunni, hafa þar með lagt blessun sína yfir að menn komist upp með það að fara illa með dýr. Í bloggfærslunni voru birt nöfn þingmannanna sem sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Í þessari sömu bloggfærslu var minnst á hræðilegt dýraníð frá árinu 2015 sem svo rataði aftur í fréttirnar í dag vegna viðtals við Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna. Þar er um að ræða bónda fyrir norðan (enginn hefur fengið að vita á hvaða bæ) sem drap kvígu með viðbjóðslegum hætti.
„Kvígan sem drapst var að fara út í fyrsta skipti og átti að reka hana aftur inn í fjós eftir daginn en hún lét ekki ná sér.
Reynt var að reka hana áfram, fyrst af hestbaki en þegar hún lét ekki segjast ók bóndinn jeppa utan í hana til að ýta við henni en við það brotnaði hluti af stuðaranum og kvígan hlaut sýnileg meiðsl.

Í kjölfarið brá bóndinn snörunni um háls kvígunnar og batt hana aftan í jeppann. Hann ók síðan af stað og kvígan gekk á eftir stuttan spöl en lagðist síðan aftur. Við það fóru maðurinn og sambýliskona hans út úr bílunum og tóku girðingarstaura úr rafmagnsgirðingu sem lágu í öðrum jeppanum og hófu að berja skepnuna, uns hún stóð upp.

Aftur lagðist kvígan. Aftur var hún barin en í þetta sinn stóð hún ekki upp.

Í stað þess að stöðva bílinn ók bóndinn áfram og alla leið að fjósinu, með kvíguna hangandi á hálsinum aftan í bílnum. Dóttir hans var í bíl fyrir aftan, ásamt sambýliskonu föður síns. Hún þrábað hana að grípa inn í en allt kom fyrir ekki. Þegar bóndinn stöðvaði bifreiðina var kvígan dauð.“
Bóndinn „hlaut ekki aðra refsingu en áminningu fyrir brotið“. Hann var ekki sviptur opinberum greiðslum, hann var ekki dæmdur fyrir dýraníð, hann var ekki sviptur leyfi til dýrahalds, dýr voru ekki fjarlægð af bænum. Ekkert bendir til annars en að hann sé enn í búrekstri og haldi enn nautgripi.

Í útvarpinu var formaður Bændasamtakanna spurður ítarlega út í þetta mál og lagði hann — rétt eins og Matvælastofnun hefur einatt gert — áherslu á persónulega harmleiki þeirra bænda sem misþyrma dýrum. Þeir séu þunglyndir eða þvíumlíkt.* Ég sé ekki alveg persónulega harmleik bóndans sem misþyrmdi og drap veslings kúna í bræðiskasti og lét barn sitt verða vitni að óhæfuverki sínu. Formaður bændasamtakanna segir að „bóndinn viðurkennir sín mistök og alvarleika brotsins“ — en ekkert um að hann hafi leitað sér faglegrar aðstoðar við þessum persónulegu vandamálum sem ráku hann til að hegða sér svo viðbjóðslega. Að kalla slíka hegðun mistök er að auki algjör afneitun á því sem raunverulega gerðist, hvort sem það orðalag er frá bóndanum komið eða formanni Bændasamtakanna.

Það vekur líka athygli að formaðurinn svarar því í raun ekki hvort það sé tækt að „svona maður fái leyfi til að halda dýr“ en snýr útúr með því að vitna í þessa meintu játningu á mistökum og alvarleika, og segir svo að „vonandi þýðir það að menn séu að breyta rétt“. Vonandi? Er enginn að tékka á mannininum?

Bændasamtökin fordæma mál bóndans. Núna. Tveimur árum síðar.


___
* [Viðbót 28. apríl] Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar tekur ekki undir þetta og segir „ábyrgðina liggja hjá bændum og eftirlitsaðilum en ekki þunglyndum“. Hann segir jafnramt:
„Það er særandi fyrir fólk, sem glímir við þessi vandamál, að heyra þetta í umræðunni. Hjá þessum hópi fólks, og ég hef umgengst hundruð manna sem eru að kljást við þennan sjúkdóm, er eitt sterkasta einkenni þeirra að vilja ekki gera öðrum mein. Þetta er bara ekki sanngjarnt að tengja dýraníð við þennan sjúkdóm og hreinlega meiðandi.“

Efnisorð: