þriðjudagur, apríl 11, 2017

Fortíðar-Finnur horfði til framtíðar

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá Finn Vilhjálmsson á skjánum að kynna rannsóknarskýrsluna um kaupin á Búnaðarbankanum að hann skrifaði assgoti góðan pistil í mars 2009 á bloggið sitt þáverandi. Pistillinn byrjar svona: „Það er sagt að siðrof hafi orðið á Íslandi í aðdraganda Hrunsins. Siðbótar er þörf. Við þurfum að taka upp góða trú.“

Í ljósi þess verkefnis sem Finnur tók síðar að sér, og birtist okkur sem skýrslan sem afhjúpaði blekkingarleik Ólafs Ólafssonar, er áhugavert að lesa pistillinn nú.
„Þegar fólkið sem olli Hruninu hefur sagt satt – sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann – og góð trú hefur verið tekin upp þarf að gera upp við fortíðina svo við getum haldið áfram á sæmilega traustum grunni. Til þess þurfum við að bíða eftir niðurstöðum þeirra stofnana sem nú rannsaka Hrunið og mjög líklega á endanum úrlausnum dómskerfisins.

Þegar við höfum fengið bestu mögulegu vitneskju um það hvað gerðist og hver gerði hvað er auðvitað æskilegast að hinir ábyrgu bæti sjálfviljugir fyrir það eftir fremsta megni og sæti eðlilegum og réttlátum viðurlögum.“



Efnisorð: