föstudagur, mars 17, 2017

Við þurfum að ræða um Bjarta framtíð

Nichole Leigh Mosty hefur valdið miklum vonbrigðum eftir að hún settist á þing. Hún bar af sér mikinn þokka meðan hún var leikskólastjóri í Fellunum og formaður hverfisráðs Breiðholts, og virkaði mjög traustvekjandi. Sem þingkona Bjartrar framtíðar hefur hún staðið sig hörmulega.

Nokkur dæmi.

Nichole dregur í efa að Bjarni Benediktsson hafi raunverulega frestað birtingu aflandseignaskýrslunnar þótt hann hafi viðurkennt það sjálfur.

Hún er einn flutningsmanna áfengisfrumvarpsins, sú eina úr sínum flokki, sem staðsetur hana meðal frjálshyggjumanna.

Nú síðast fagnar Nichole virkjunaráformum á miðhálendinu og telur þau samræmast vel stefnu ríkisstjórnarinnar um verndun miðhálendisins.

Björt Ólafsdóttir þingkona Bjartrar framtíðar virðist ætla að feta sömu slóð og furðu margir umhverfisráðherrar á undan henni, og hleypa í gegn eða beinlínis mæla fyrir stórkostlegum umhverfisskaða. Og enn er vitnað í Stundina:
„Við í Bjartri framtíð viljum umfram allt vernda miðhálendið og hafa þjóðgarð þar,“ sagði Björt Ólafsdóttir rétt fyrir kosningar. Hún gagnrýndi þá sem væru „áfjáðir“ í að virkja. Nú er Björt orðin umhverfisráðherra og vill gefa grænt ljós á Skrokkölduvirkjun á miðhálendinu.
[…]
Björt leggur til í þingsályktun sinni um rammaáætlun að Skrokkalda á Suðurlandi verði færð úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk svo unnt verði að ráðast þar í virkjanaframkvæmdir á næstu árum. Skrokkalda er á miðhálendinu og samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögunnar mun fylgja virkjuninni hlaðhús, spennir, 1 kílómetra skurður vestan við Sprengisandsleið og jarðstrengur.“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, eins og Nicole, ber líka blak af Bjarna og finnst núna ekkert erfitt að sitja í ríkisstjórn með manni sem hann fordæmdi fyrir að vera „tengdur aflandsfélagi“. Svo er hann enn ekki búinn að gefa upp afstöðu sína gagnvart brennivín-í-búðir frumvarpinu eða hvort hann ætli að láta skattfé almennings styðja við rekstur Klíníkurinnar. Það síðasttalda, ákveði hann að taka skrefið að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, er jafn óafturkræft og ferlegt og ef Björt lætur virkja á miðhálendinu.

Fyrir kosningar fékk Björt framtíð fremur jákvæða umsögn hér á blogginu, jafnvel þótt ég hafi sett fyrirvara við jákvæða afstöðu þeirra til „fjölbreytilegs rekstrarforms“ og hugmynda um raforkusölu um sæstreng. Stór hluti kjósenda Bjartrar framtíðar lítur þó sennilega svo á að flokkurinn hafi reynst úlfur í sauðagæru. Alla vega væri ég ekki sátt hefði ég stuðlað að því að þetta fólk er komið í ábyrgðarstöður.

Efnisorð: , , , ,