föstudagur, febrúar 24, 2017

Þingmenn trompa lyganiðurstöður alþjóðastofnana

Það var stormasamur dagur fyrir íslenskt dómskerfi í dag. Sumpart má fagna niðurstöðu endurupptökunefndar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, en augljóslega er áralangri baráttu Erlu Bolladóttur gefið langt nef.

Í sal Alþingis var tekist á um frumvarp dómsmálaráðherra um millidómsstig (áfrýjunardómstól sem mun verða kallaður Landsréttur), þ.e. breytingartillögu minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar um sem vill bæta þessari setningu við þar sem fjallað er um ráðningu dómara: „Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“ Eru enda margir uggandi um kynjahlutföll við Landsrétt þegar dómsmálaráðherra hefur gert lítið úr því að kyn dómara skipti máli.

Athyglisvert var að fylgjast með umræðum um breytingartillöguna og þá ekki síst orðaskiptum milli Rósu Bjarkar Brynjólfsóttur þingmanns Vinstri grænna og Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Ræðurnar eru ekki enn tiltækar í rituðum texta á vef Alþingis svo hér er stuðst við sérlegan einkaritara bloggsins sem skrifaði niður eftir hljóðupptöku.)

Rósa Björk:
„Í andsvörum hér áðan varð háttvirtum þingmanni Brynjari Níelssyni tíðrætt um Sameinuðu þjóðirnar og til þess að vitna aðeins í fyrri ræðu háttvirts þingsmanns um nákvæmlega sama mál, þetta frumvarp, þá langar mig að vitna í orð hans hér sem féllu 7. febrúar:

„Það er ekki djúpstæður halli í dómskerfinu og réttarkerfinu. Ég nefni lögreglustjóra, ákæruvald og héraðsdómstóla, þar er orðið talsvert mikið jafnræði, sums staðar held ég að halli á karla ef út í það er farið. Það er ekki djúpstæður halli.“

Samt sem áður kom nefnd Sameinuðu þjóðanna hér á síðasta ári með þau tilmæli til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu, í Hæstarétti, til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Og lagði áherslu á að gripið yrði tafarlaust til aðgerða, jafnvel sérstakra aðgerða eins og við kynjakvóta til að fjölga konum hratt í dómskerfinu.

Mig langar að heyra hvert er hans álit á þessum tilmælum og hvernig eigi að gera það?“
Svar Brynjars Níelssonar (nokkuð stytt):
„Ég get sagt frú þingmanni það að ég hef ekkert álit á mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Bara ekki neitt.
[…]
Og ég veit ekkert hver gefur þessum blessuðum mönnum í þessari nefnd upplýsingar um þennan meinta kynjahalla. Hverjir gefa þessar upplýsingar? Er það VG? […]
Hvaða djúpstæði halli er þetta? Af því að Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna segir það. Þetta er bara einhver þvæla.“
„Ég hef ekkert álit á mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna“, það munar ekki um það.

Í gær lýsti svo Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um brennivín-í-búðir frumvarpið á Alþingi
„efasemdum sínum um gildi rannsókna sem benda til þess að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu líkt og Alþjóðaheilbrigðisstofnun og Landlæknisembættið hafa ítrekað varað við.“ Eins og Stundin bendir á er„ Álitið sem Teitur reiddi fram í ræðustóli Alþingis er í andstöðu við álit Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Landlæknisembættisins.“
Semsagt. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins efast um niðurstöður vísindarannsókna og álit alþjóðastofnana, og lýsa því yfir að þeir hafi ekkert álit á mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins almennt bara nokkuð sáttir við þessa þingmenn sína?


Efnisorð: , , ,