þriðjudagur, febrúar 14, 2017

Deila útgerðarinnar við sjómenn

Ég hrökk við þegar Guðmundur Andri Thorsson sagði í pistli í gær að „fólk lætur lítið í sér heyra til stuðnings sjómönnum“. Áttaði mig á að hér hefur ekki verið skrifaður stafur um sjómannaverkfallið, og liggur þó samúð mín algjörlega hjá sjómönnum. Hér verður því riggað upp smá pistli sem bæta á úr þessari vanrækslu.

Fyrst smá-næstum-hrós til nýja sjávarútvegsráðherrans. Mér hefur fundist svoldið töff hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að neita að setja lög á sjómannaverkfallið. Hún hefur sagt að útgerðarmenn og sjómenn verði að semja um það sín á milli án aðkomu ríkisvaldsins. Þetta hljómar eflaust eins og stríðsyfirlýsing í eyrum fyrrverandi átrúnaðargoðs hennar í Hádegismóum, sem nú er launamaður hjá útgerðarmönnnum. En svo skyndilega sextánfaldaði hún loðnuveiðikvótann; færir hann ókeypis til útgerðanna. Undanfarna daga hafa hlutabréf í HB Granda stórhækkað, svona eins og einhverjir hafi vitað að loðnukvótinn væri að fara að detta í hús. Ekki að nokkrum detti í hug að innan Sjálfstæðisflokksins Viðreisnar sé fólk sem nýtir sér innherjaþekkingu sér til fjárhagslegra hagsbóta.

Uss nei.

Þessvegna er það örugglega bara þvæla (sem einhver kommadindill fann upp) að
„stóru útgerðirnar kunni hér að ráða ferðinni og hugsi sér jafnvel gott til glóðarinnar þegar minni útgerðir fara í þrot vegna verkfallsins því þá verður auðvelt að nálgast kvóta þeirra á nauðungaruppboðum“,
eins og lesa mátti um í pistli Guðmundar Andra í gær.

Deiluatriðin milli sjómanna og útgerðarinnar eru sirka þessi, eins og rakin eru í sama pistli:
fæðiskostnaður, þátttaka sjómanna í olíukostnaði, „gott ef ekki kostnað við internettengingar um borð“, og telur þó ekki með markaðsverð fyrir aflann sem hlýtur að vera ein krafan í samningaviðræðunum.

Mér finnst reyndar undarlegt að einhverntímann hafi því verið komið yfir á sjómenn að þeir taki þátt í olíukostnaði. Í hverskonar kjarasamningum fólks í landi þarf starfsfólk að borga upphitunar- eða rafmagnskostnað hússins sem það vinnur í? En útgerðir hafa semsagt komið þessum kostnaði yfir á starfsmenn sína á sjó. Núna finnst útgerðarmönnum réttast að sjómenn fái skattaafslátt af dagpeningum (það mun vera fæðispeningadeilan sem áður er nefnd), sem þýðir auðvitað að skattgreiðendur eigi að borga brúsann frekar en útgerðin sjálf. Einhverntímann hét slíkt pilsfaldakapítalismi. Ríkinu er semsagt ætlað að hlaupa undir bagga með útgerðunum. Varla er það vegna þess að útgerðirnar standi illa. Síðastliðið sumar skýrði Kjarninn frá því að
„Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 265 milljarða króna frá lokum 2008 og út 2014. Hagnaðurinn var 242 milljarðar og arðgreiðslurnar tæplega 50 milljarðar. Samt hafa veiðigjöld lækkað úr 12,8 milljörðum í 4,8 milljarða.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS (áður LÍÚ) hefur haldið uppi þessari kröfu um að ríkið felli niður skatta á sjómenn og talar um það sem sjálfsagðan hlut. Sú krafa fékk litlar undirtektir hjá Indriða G. Þorlákssyni fyrrverandi ríkisskattstjóra sem hraunar yfir hana í mögnuðum pistli á Kjarnanum.
„Framkvæmdastjóranum finnst það miður og kallar það dylgjur að bent er á að þessar kröfur útgerðarinnar feli í sér niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði. Það að kallaða hlutina hreint út sínu rétta nafni er ekki dylgjur. Skattalegar ívilnanir til einstakra hópa eða fyrirtækja eru ætíð niðurgreiðsla á kostnaði við starfsemina, skattfé almennings er þá notað til að greiða niður kostnað við atvinnurekstur. Að segja þetta umbúðalaust heitir á máli framkvæmdastjórans “að hafa allt á hornum sér gagnvart íslenskum sjávarútvegi.” Ég held að þar skjóti framkvæmdastjórinn illa yfir markið. Flestir, þar með taldir þeir sem nefna þessa hluti réttum nöfnum, meta íslenskan sjávarútveg mikils. Þeir eiga hins vegar erfitt með að sætta sig við það að þeir sem hafa fengið einkaleyfi á því að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar og stinga þegar nær öllum arði af henni í eigin vasa, vilji nú einnig láta þjóðina taki þátt í að greiða kostnað við starfsemi sína.“
Og svo bendir Indriði á það sem allir vita en útgerðaraðlinum þóknast að líta alltaf framhjá, hvort sem rætt er um arðgreiðslur í sjávarútvegi (og aflandsfélög í eigu útgerðarmanna) veiðigjald eða kjör sjómanna:
„Sem betur fer hefur sjávarútvegur á Íslandi gengið vel á síðustu árum, ekki síst vegna góðrar stjórnar á fiskveiðum, gengis krónunnar og hagfelldrar stöðu á fiskmörkuðum. Auðlindarentan þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað þ.m.t. fjárfestingar- og fjármagnskostnað (vexti, arð) hefur allt frá hruni verið um og yfir 40 millj­arðar króna á ári. Þar af hafa jafnan yfir 80% runnið til sjávarútvegsfyrirtækja sem umframhagnaður en þjóðin sem eigandi auðlindarinnar og sá sem á réttmætt tilkall til þessarar rentu hefur fengið í sinn hlut mest um 20% hennar í formi veiðigjalda.“
Ekki vildi ég lenda í deilu við Indriða G. um skattamál.

Staðan er semsagt sú að stóru útgerðarfyrirtækin eiga næga peninga og búast við að bæta sér upp tapið, hugsanlega með því að kaupa upp aðrar útgerðir eða láta sjómenn borga enn meiri rekstrarkostnað en áður. SFS liggur því ekki á að semja. En nú hamast allir á sjómönnum að þeir þurfi að semja því sjávarbyggðir jafnt sem viðskipti í útlöndum séu í hættu. Vonandi semja sjómenn ekki af sér þótt öll spjót standi á þeim.

Efnisorð: , , , ,