föstudagur, janúar 27, 2017

Trump og fóstureyðingar

Það er auðvitað óþolandi og hræðilegt að Trump skuli hafa einhent sér í að brjóta og bramla allskyns góð verk Obama. Eitt var þó fyrirsjáanlegt (en jafn slæmt fyrir því) og það var að hann endurvirkjaði „bann við því að að bandarísku skattfé verði varið til að styrkja samtök sem styðja eða bjóða upp á meðgöngurof“.
„Bandaríkin eru einn stærsti styrktaraðili alþjóðlegra hjálparsamtaka í heimi. Talið er að ákvörðunin hafi afdrifaríkar afleiðingar til að mynda í rómönsku Ameríku, þar sem algengt er að unglingsstúlkur verði óléttar og fjöldi kvenna deyr af barnsförum. Tilskipunin kemur í veg fyrir að samtök sem ráðleggja konum varðandi meðgöngurof og aðrar leiðir til að skipuleggja fjölskyldustærð, geta orðið af stórum hluta þess fjármagns sem þau hafa reitt sig á. Bannið hefur því ekki aðeins þau áhrif að færri konur eigi þess kost að binda enda á meðgöngu. Það getur líka orðið til þess fólk fái síður fræðslu um getnaðarvarnir, barneignir og kynsjúkdóma.“
Ekki nóg með að fjárstyrkir falli niður ef boðið er upp á fóstureyðingar, heldur má ekki segja þeim frá þeim möguleika. Þessvegna er þetta kallað hnattræn þöggun (e. global gag rule).

Það er plagsiður nýkjörinna forseta sem koma úr röðum Repúblikana að setja á þetta bann, (og þegar þeir velja alltaf andstæðing fóstureyðinga sem hæstaréttardómara, í þeirri von að hæstiréttur banni meðgöngurof í öllum fylkjum Bandaríkjanna, því það vilja kjósendur flokksins). En um leið og Demókrati sest í forsetastól afnemur hann bannið. Þannig hefur það gengið milli Bush eldri bannar og Clinton sem afnam það, Bush yngri bannaði og Obama afnam. Engum hefði því átt að koma á óvart að Trumpfíflið hafi bannað aftur.

Og hafi einhver undrast að Trumpfáráðurinn var umkringdur körlum þegar hann skrifaði undir fræðslubannið, þá get ég svosem endurtekið það sem ég hef áður sagt:
„Mikið er það annars ömurlegt að líf og heilsa kvenna sé þrætuepli einhverra karla í Washington og það séu þeirra geðþóttaákvarðanir hvernig konum um allan heim farnast.“
Það er nú heimsins þrautarmein: karlar sem hata konur og vilja hafa stjórn á þeim.


___
[Viðbót, síðar] Pistill Sifjar Sigmarsdóttur vegna þessa máls og áskorun hennar til ráðherra ríkisstjórnar Íslands.

Efnisorð: , , , ,