mánudagur, janúar 09, 2017

Hvernig komast skal til valda með því að hlífa kjósendum við upplýsingum og tala um lygar sem ónákvæmni

Óttarri Proppé finnst vera á ákveðinn grundvallarmunur á því að Sigmundur Davíð leyndi kjósendur upplýsingum um Wintris og því að hann væri kröfuhafi og því að Bjarni Ben faldi skýrsluna. Því er ég ósammála. Enda földu þeir upplýsingarnar af sömu ástæðunni: upplýsingarnar hefðu getað fælt kjósendur frá að kjósa þá. Auðvitað hefði fullt af fólki samt kosið þá, kjarnafylgið hefði ekki kippt sér upp við þetta frekar en annað, en það munar um hvern kepp í sláturtíð.

En kom þá eitthvað nýtt fram í skýrslunni, það vissu jú allir þegar kosið var í haust að Bjarni væri í Panamaskjölunum (sem virðist vera afsökun Óttarrs Proppé fyrir að halda ótrauður áfram að berja saman ríkisstjórn með Bjarna).

Bjarna tókst að mörgu leyti að fjarlægja sig umræðunni um Panamaskjölin (ekkert í gangi hér) og í kosningabaráttunni sagði hann fólk vera orðið þreytt á að ræða þau. Talaði svo bara um annað. Og reyndar var „umræðan um eignir Íslendinga í aflandsfélögum í algjöru lágmarki fyrir kosningar“, einsog Magnús Guðmundsson bendir á í leiðara sínum í dag. En hefði skýrslan verið nýkomin út og allir fjölmiðlar að ræða hinar gríðarlegu fjárhæðir sem hafa sogast úr íslensku efnahagslífi og setja í samhengi við fjársvelti heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, vegakerfisins o.sfrv., þá er hætt við að Bjarni hefði átt í meira basli við að veifa meintum góðum árangri sínum í efnahagsstjórn landsins. Það hefði kannski einhver getað brigslað honum um þvætting, fyrirslátt og pólitík hefði hann ekki verið búinn að salta skýrsluna.

Ritstjórn Kjarnans hefur lengi gengið hart eftir því að fá að sjá skýrsluna og Þórður Snær Júlíusson aðalritstjóri var í viðtali við Ríkisútvarpið í dag, eftir að í ljós hafði komið að Bjarni laug til um hvenær skýrslan var tilbúin (og baðst svo síðar afsökunar á
að „þetta var kannski ekki nákvæm tíma­lína“ hjá honum, orðalag sem almannatenglar sátu eflaust sveittir við að berja saman).

Starfshópur skilaði skýrslunni 13.september og var hún kynnt fjármálaráðherra þegar rúmar þrjár vikur voru til kosninga. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði á Morgunvaktinni að ljóst væri að Bjarni hafi setið á skýrslunni, sem honum var kynnt á meðan þingið starfaði enn og efnahags- og viðskiptanefnd hélt sína fundi. Skýrslan hafi átt mikið erindi við almenning í aðdraganda kosninga sem boðað var til vegna aflandsfélagamála.

„Og ekki nóg með það, eins og allir vita sem horfðu á fréttir um helgina, þá var verðandi forsætisráðherra uppvís að því að segja ósatt. Hann sagðist ekki hafa séð skýrsluna fyrr en þingi hafði verið slitið.“

Eftir að fram hafi komið að skýrslan hafi verið tilbúin 13.september og ráðherra hafi verið kynnt honum 5.október, þá hafi hann beðist afsökunar á þessari „ónákvæmni“ sinni.

„Ónákvæmni er í þessu tilfelli bara fínt orð yfir það að segja ósatt,“ sagði Þórður Snær.
Ritstjórinn skrifaði fyrir tveimur dögum einn af sínum feiknagóðu pistlum í Kjarnann, og valdi honum titilinn „Fólkið sem stal frá okkur hinum“, og sagði þá meðal annars þetta.
„Skýrslan er mögnuð lesning. Þar kemur meðal annars fram að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum hafi líkast til verið að minnsta kosti 580 milljarðar króna (og allt að 810 milljarðar króna) á árunum 1990 til 2015. Að 1.629 aflandsfélög hafi fengið íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta. Að Íslendingar séu fjórum sinnum líklegri en Danir til að eiga aflandsfélag og að tekjutap hins opinbera nemi líklega um 56 milljörðum króna á árunum 2006 til 2014. Á hverju ári bætist við tap vegna vantalinna skatta sem er á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna. Þessi hópur Íslendinga sem ákvað að greiða ekki sitt til samneyslunnar hefur því haft af okkur öllum hinum sem þiggjum laun og greiðum óhjákvæmilega skatta, marga tugi milljarða króna. Það eru peningar sem þeir hafa stungið í vasann.

En hvaða hópur er þetta? Í skýrslunni segir: „Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni.“
Þetta eru að mestu pilsfaldarkapitalistar - ekki frumkvöðlar - sem hafa aldrei skapað neitt, en vegna aðgengis þeirra að tækifærum, upplýsingum og fjármagni annarra, hafa þeir hagnast vel, og kosið að fela þann hagnað á aflandseyjum.“
Þessi áfellisdómur í skýrslunni hefur einn og sér verið Bjarna nægileg ástæða til að opinbera hana ekki.

En auðvitað skiptir þetta engu máli. Kjósendum finnst teflonhúð Bjarna bara smart; Bensi frændi og Óttari Proppé tína til jafnvel enn fleiri afsakanir en Bjarni sjálfur fyrir aflandsfélögum, földum skýrslum og lygum — enda ráðherrastólar í augsýn. Og mikið sem Bjarni Ben, þessi myndarlegi maður, verður áferðarfallegur forsætisráðherra.

Efnisorð: , , ,